17.04.1970
Efri deild: 73. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2333)

33. mál, Togaraútgerð ríkisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. hefur nú flutt rök fyrir niðurstöðu okkar í minni hlutanum, að samþ. beri þetta frv., og hef ég þar ekki neinu við að bæta. En að gefnu tilefni frá hv. frsm. meiri hl. langar mig til að segja nokkur orð.

Ég vil þá fyrst undirstrika það, sem hann réttilega tók fram, að þetta frv. var fram borið og vísað til n. mjög snemma á þessu þingi og hefur verið til meðferðar í sjútvn. Ég vil leyfa mér að vona það, að þó að lyktir þess verði þær, að því verði vísað til ríkisstj., þá hafi framkoma þess og málflutningur um það orðið til þess að ýta undir framkvæmdir í þessu máli, og ég vil leyfa mér miðað við forsögu málsins að draga það í efa, að frv. hæstv. ríkisstj. hefði verið á ferðinni svo snemma, sem það þó er, að það tekst vonandi að afgreiða það á þessu þingi, ef þetta frv. hefði ekki komið fram.

Það atriði, sem ég ætlaði aðeins að víkja örfáum orðum að er þetta, að ég vil undirstrika það, að hér er ekki aðeins um að ræða Togaraútgerð ríkisins. Annar kafli þessa frv. fjallar um stuðning við útgerð sveitarfélaga og þeirra útgerðarfélaga, sem stofnuð eru að frumkvæði sveitarfélaga og sveitarfélög eiga hlut að. En það er kunnara en frá þurfi að segja, að víðs vegar um landið er þannig ástatt, að það hefur verið komið upp fiskvinnslustöðvum, sem eru undirstaða atvinnulífs á þeim stöðum. Til þess að sjá þessum fiskvinnslustöðvum fyrir hráefni þarf skip. Heimamenn hafa mjög víða lagt á sig miklar fórnir og lagt fram mikið fé miðað við sína getu til þess að afla þeirra skipa. En samt sem áður er mjög víða þannig ástatt, að það sem stendur atvinnulífi þessara staða í vegi, er einmitt það, að það vantar skip til þess að afla hráefnis fyrir þessar fiskvinnslustöðvar. Þar með er það alls ekki sagt, að það þurfi alls staðar að vera togarar, og það er víst, að það geta ekki verið og verða ekki alls staðar togarar, sem vinna þá þjónustu af hendi. Það þarf skip af ýmsum stærðum, og það er einmitt brennandi áhugi mjög víða á þessum stöðum fyrir því að eignast skip, og þau félagasamtök, sem að því standa, eru einmitt mjög víða stofnuð með þessum hætti, að það er sveitafélagið eða kannske bæjarfélagið sums staðar, þar sem um svo stóra staði er að ræða, sem hefur átt frumkvæðið að því, að slík útgerðarfélög hafi verið stofnuð. Þessi útgerðarfélög hafa svo orðið að leita eftir fyrirgreiðslu ýmissa opinberra aðila og hafa að sjálfsögðu oft fengið hana. En samt sem áður þá er það skilyrði fyrir allri slíkri fyrirgreiðslu af opinberri hálfu og lánum úr Fiskveiðasjóði, að heimaaðilar hafi lagt fram tiltekið lágmarksstofnfé. Það er kannske ekki hátt miðað við þær tölur, sem mönnum eru tamar nú, en samt sem áður er það þetta stofnfé, sem oft er alger þröskuldur í vegi fyrir því, að hægt sé að fara af stað í þessum efnum. Þarna álit ég, að ríkisvaldið eigi með hægu og auðveldu móti að koma til móts við þessa aðila og taka nokkurn þátt í stofnun þessara félaga og leggja þannig nokkurt áhættufé fram í þessu skyni. Ég held, að miðað við þær tölur, — það fé, sem ríkið hefur handa á milli, þá sé ekki þarna um að ræða stórfé fyrir ríkið, en það getur greitt mjög mikið fyrir stofnun þessara félaga. Mér finnst, að meiri hl. hv. sjútvn. hafi ekki litið nægilega á þetta atriði í þessu frv., sem er vissulega ekkert smáatriði. Og ég verð að segja, að því miður þá virtist það henda aðila, sem umsögn gaf um þetta frv. Við fengum umsagnir um það, eins og hv. frsm. meiri hl. gat um. Umsögnin frá Alþýðusambandi Íslands var mjög jákvæð, en umsögnin frá Farmanna og fiskimannasambandinu var því miður neikvæð, að því er virtist, þ. e. a. s. þeir góðu menn lýstu því yfir, að þeir væru andvígir ríkisútgerð togara. Þeir sögðu að vísu ekki, að þeir vildu heldur enga togara en ríkisútgerð, en það hefði þó kannske með ekki neitt sérstaklega alvarlegum útúrsnúningi mátt lesa það út úr þeirri umsögn, sem þeir sendu. Ég verð að segja, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þá umsögn, af því að þessir aðilar hafa látið í ljós mikinn áhuga á togarakaupum, en það, sem ég varð þó fyrir enn meiri vonbrigðum með í sambandi við þá umsögn, var það, að þeir minntust ekki einu einasta orði á II. kafla þessa frv., stuðning við útgerð sveitarfélaga. Ég læt það nú vera og ætla ekki að hafa fleiri orð um það.

Þá kem ég að lokaatriðinu, og það er það, að ég varð fyrir enn þá meiri vonbrigðum með það, að hv. frsm. meiri hl. skyldi ekki gera þessu atriði nein skil. Ég hef nefnilega staðið í þeirri meiningu, að bæjarútgerðir hafi til þessa verið sérstök eftirlætisbörn Alþfl., hann hafi státað af því með réttu, að hann hafi átt drjúgan hlut að því að koma þeim á fót í bæjarfélögum, þar sem hann hefur haft áhrifaaðstöðu. Það er alveg rétt, að Alþfl. hefur gert það. Hann gerði það á Ísafirði og gerði það í Hafnarfirði og hann átti vafalaust þátt í því ásamt öðrum að hrinda af stað bæjarútgerð hér í Reykjavík. Mér hefur virzt, að það hafi verið frá því sagt í Alþýðublaðinu að undanförnu, að það hafi verið mikill áhugi fyrir því hjá ráðandi öflum í Reykjavík, að leggja þessa Bæjarútgerð Reykjavíkur niður, en Alþýðublaðið og Alþfl. hafi snúizt sérstaklega sterklega gegn slíku. Þess vegna gekk ég satt að segja út frá því sem gefnu, að Alþfl. mundi grípa fegins hendi þessa hugmynd, sem hér er sett fram, að ríkið styðji bæjarútgerðir eða útgerðarfélög, sem sveitarfélög standa að, en það er nú nánast formsatriði víðast hvar, hvort þetta eru hreinar bæjarútgerðir eða það form er valið, sem sumum þykir henta betur, að þetta sé hlutafélag að formi til, enda þótt sveitarfélagið sé þar meginásinn í. En hv. frsm. meiri hl. vék ekkert að þessu efni frv. og lét ekkert í ljós um það, hver afstaða Alþfl. væri til slíkra hugmynda, að ríkisvaldið gengi til móts við sveitarfélögin um það að styðja útgerð þeirra, og á því er ég náttúrlega mjög undrandi. Ég verð að segja það, að ég hefði skilið afstöðu meiri hl. betur, nefnilega þá, að vilja vísa þessu máli til ríkisstj., ef meiri hl. í þessari hv. d. hefði fallizt á þá tillögu okkar, að gefa ríkisstj. hæfilega rúma heimild til þess að vinna að þessum málum, en það fékkst meiri hl. ekki til að gera, þannig að það er einskorðað eftir þessu frv., sem við erum búnir að afgreiða, og sem við erum út af fyrir sig allir sammála um, hvað ríkisstj. getur gert.

Hún getur ekki keypt nema 6 togara, og þess vegna er það þýðingarlaust í sjálfu sér að vísa þessu máli til ríkisstj., að því er togara varðar. En hitt er þó enn þá óeðlilegra að vísa því til ríkisstj. að athuga um framlag í útgerðarfélög sveitarfélaga, án þess að n. eða meiri hl. hennar taki í raun og veru nokkra efnislega afstöðu til þeirrar hugmyndar, sem þar kemur fram. Mér sýnist mikil nauðsyn á því, að talsmaður Alþfl. skýri þessa afstöðu. Er Alþfl. enn einu sinni að snúast? Er Alþfl. nú að hverfa frá þeirri stefnu, að það sé eðlilegt að samtök almannavaldsins, sveitarfélögin og bæjarfélögin, hafi forystu í atvinnuuppbyggingu þessara staða með þeim hætti, að sveitarfélagið beiti sér fyrir stofnun útgerðarfélaga, og er Alþfl. á móti því, að ríkisvaldið rétti þessum útgerðarfélögum örvandi hönd, með þeim hætti, sem hér er lagt til? Togarar eru stórir, og það virðist svo, sem þessi II. kafli hafi fallið í skuggann af þeim, en það eru til margir litlir staðir, sem ekki ráða við togara og ekki munu eignast togara. Þeir staðir eiga sín vandamál og þau vandamál þarf að leysa með þeim hætti, sem þeim hentar. Hvernig hugsar Alþfl. til þeirra staða? Ég er út af fyrir sig ekkert undrandi á afstöðu Sjálfstfl. vegna þess, að hann hefur nú einu sinni þessa kreddukenningu á sinni stefnuskrá, að ríkið megi helzt ekki koma nálægt atvinnurekstri, sem beinn þátttakandi, og þó að hann hafi gert þar ýmis frávik frá, þá virðist það gert með talsverðri tregðu. En á Alþfl. er ég satt að segja ákaflega undrandi, að hann skuli taka slíka afstöðu sem þessa til þessa máls. Eins og ég sagði áðan, þá er þarna ekki um neitt stórfé fyrir ríkissjóð að tefla, þó að það sé talað um 50 millj. kr. í þessu sambandi, en 50 millj. kr. gætu alveg riðið baggamuninn í þessu efni, þannig að það gæti einmitt verið, að á mörgum hinum smærri stöðum væri hægt að koma af stað útgerðarfélögum og koma við skipakaupum, ef það væri lagt fram framlag til slíks félags. Þetta vildi ég bara leyfa mér sérstaklega að undirstrika, að þetta frv. er ekki aðeins um Togaraútgerð ríkisins, heldur um stuðning við útgerð sveitarfélaga. Um leið og menn greiða atkv. um þetta frv., þá taka þeir ekki eingöngu afstöðu til fyrri hl. um togaraútgerðina, heldur einnig til síðari hlutans um stuðning ríkisins við útgerð sveitarfélaga.