17.04.1970
Efri deild: 73. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2344)

38. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Það er sýnilegt, að vorið kemur að sunnan og hefur vakið hv. 5. þm. Reykn. Hann hefur virzt vakna til kosningabaráttu, því hann hefur sett þann ham á sig hér í þessari ræðu og dillað honum og viðrað vel eins og hani á vordegi í sunnanáttinni. Það er ekkert nýtt, að þeir beri fram eina kippu af kaupum skuttogara, þeir Alþb.-menn og fyrrverandi sósíalistar hér á hv. Alþingi, eins og það væri bara að rétta fram höndina og „vær sá god“. Þetta þekkir öll þjóðin, og menn kippa sér ekkert upp við svona skrum og galgopaskap. Hitt er svo annað mál, sem hann mætti sjálfur minnast á, hvers vegna þeir gáfust upp á sinni útgerð á vissum stöðum. Það vantaði þó ekki, að þeir ætluðu að vera fyrirmynd annarra manna, en lyppuðust niður, kannske vegna slæmrar stjórnarstefnu, það er víst eina skýringin. Aflamagn skiptir þá engu máli. Sölur á afurðum erlendis virðast ekki hafa skipt þá neinu máli. En það skiptir bara aðra þegna þjóðfélagsins nokkru máli, og þeir sem vilja vera ábyrgir og vilja standa við sínar gerðir, hugsa um, hvort útgerð eða önnur fyrirtæki geti verið rekin með tapi eða skilað einhverju, eða verið í sífelldu basli. Þess vegna hætti Neskaupstaður, af því að þeir gáfust upp á sinni togaraútgerð og völdu annað útgerðarform. Hvers vegna sagði Gísli Konráðsson, forstjóri Ú. A., hér í vetur í sjónvarpi, að erfiðleikarnir hefðu verið svo miklir, að um tíma hefði ekki verið nokkur grundvöllur fyrir togaraútgerð, bæði hér á Íslandi og annars staðar, vegna ytri aðstæðna, sem er ekki í mannlegu valdi að ráða neitt við. Það þýðir ekki að vera svo blindur, að menn loki augunum fyrir slíkum staðreyndum. Það, sem sennilega gefur hv. þm. og fleirum aukinn byr undir báða vængi núna, er aukinn afli. Það er sú gleðilega staðreynd, að það er aukinn afli hér á miðunum við Ísland og víða annars staðar, en um nokkurt árabil fór afli hraðminnkandi hér í N.-Atlantshafi, og það komu upp harðar raddir um það, að nauðsynlegt væri að setja á mjög mikla svæðafriðun. Við þekkjum tillögur um það að hafa kvótamagn, og þetta byggist á þeirri staðreynd, að menn voru hræddir um aflann, og togaraflotinn varð fyrir barðinu á aflaminnkun eins og bátaflotinn. Þess vegna er alveg út í hött að vera að kenna vissum persónum um sífellda neikvæða afstöðu til togara. En þeir, sem vilja vera ábyrgir gjörða sinna, hugsa um það, með hvaða hætti við getum rekið hér sjávarútveg, þannig að hann sé ekki til vandræða. En það hlutverk þekkja þm. í Alþb. alls ekki, og hv. þm. minnist aldrei á neitt slíkt. Það er alveg aukaatriði að þurfa að vera ábyrgur gerða sinna í hans flokki, það kemur a. m. k. hvergi fram.

Nei, það er ánægjulegt, að við getum litið betur fram á við varðandi möguleika togaraútgerðar. Ríkisvaldið hefur á undanförnum árum hjálpað togaraútgerðinni um tugi milljóna. Það sér enginn eftir því, en það er ekki hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd varðandi aðstoð við aðra í landinu. Við höfum ekki ótakmarkað fjármagn. Og af hverju fara ekki Norðmenn út í stórkostlega togaraútgerð, ein mesta siglingaþjóð í heimi? Hvað er því til fyrirstöðu? Ætli þeir hafi skynjað þá erfiðleika, sem fylgja togaraútgerð? Þetta er bláköld staðreynd. Hins vegar höfðu Þjóðverjar, Bretar, Frakkar, Belgíumenn og Hollendingar hafið mikla togaraútgerð, lentu í lægð, en eru með breyttu formi — og þá helzt verksmiðjuskipum — að rísa við aftur. Samt sem áður er það grjóthörð staðreynd, að allar þessar þjóðir hafa orðið að hjálpa sinni togaraútgerð, sem nemur samtals mörgum milljörðum, og þetta geta þeir flutt á milli án vandræða, þar sem togaraútgerðin þar er aðeins örlítill þáttur í heildarstarfsemi þjóðfálagsins. Það er hægt fyrir þennan ágæta þm., ef hann vill hafa starf af öðru heldur en að gefa út tilvitnanir eftir formann míns flokks, að gerast togaraútgerðarmaður og verða forstjóri slíks útgerðarfyrirtækis, því togarar eru víða til sölu erlendis með góðum kjörum. Sjálfsagt gæti hann fengið ríkisábyrgð hér eins og aðrir, og sýni hann nú sína getu í verki og áhuga.

Nei, það er ágætt að hafa hérna smáframboðsfund í Reykjaneskjördæmi á hv. Alþ. Það er skemmtilegt og viss tilbreyting í aflahrotunni. En bæði muna Keflvíkingar eftir togaranum, sem þar var, og Neskaupstaðarmenn og Vestmanneyingar og Ísfirðingar. Þeir gáfust upp vegna þess, að þessir menn vildu vera ábyrgir og standa skil á sínum skuldum, sem þó tókst illa, og ríkissjóður varð að taka þær á sig. Mér var á sínum tíma falið af hæstv. þáverandi fjmrh. að fara í gegnum uppgjör hjá Útgerðarfélagi Ísfirðinga með Ásbergi Sigurðssyni, sem þá var framkvæmdastjóri, og einum þm. í hv. Ed. Sú niðurstaða var hörmuleg, hreint hörmuleg. Þeir gáfust upp vegna ytri aðstæðna og sátu þó nálægt miðunum.

Nei, ég og Alþfl. viljum leggja þessari útgerð ákveðið lið, en við göngum ekki fram hjá þeirri staðreynd, að hún hefur átt í erfiðleikum, og það kostar ákveðið framlag af fjármagni, sem við höfum ekki ótakmarkað.

Við viljum vera það ábyrgir, að það sé sjálfsagt að hjálpa til við togaraútgerð, en við viljum líka líta á aðra þætti þjóðfélagsins, sem starfa eðlilega og á heilbrigðan hátt.