10.03.1970
Efri deild: 53. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

152. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Flm. (Karl Guðjónsson) :

Herra forseti. Þetta mál er flutt af okkur Kristjáni Thorlaciusi, sem hér sat á þingi um skeið sem 11. þm. Reykv., og Birni Jónssyni, hv. 4. þm. Norðurl. e. Kristján Thorlacius, sem jafnframt er formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, er raunar 1. flm. frv., en með því að hann er nú horfinn af þingi, mæli ég hér fyrir því að mestu með hans orðum.

Frv. þetta er um afnám l. nr. 33 frá 1915, um verkfall opinberra starfsmanna. Þessi lög leggja bann við verkföllum opinberra starfsmanna að viðlagðri refsingu, sektum eða fangelsisvist. Eins og nú er komið málum, er það algert misrétti að leggja bann við verkföllum opinberra starfsmanna. Þau lög, sem hér er lagt til að felld verði úr gildi, voru sett við allt aðrar þjóðfélagsaðstæður en nú eru, og síðan er hugsunarháttur manna í þessum efnum einnig gerbreyttur. Vissulega ber að beita verkföllum með varúð og gætni, og það er næsta lítil hætta á, að opinberir starfsmenn beiti sér fyrir harkalegum verkföllum öðrum mönnum fremur, þótt þeir fái verkfallsrétt. Við flm. frv. teljum það eðlilegt, að ef frv. verður að lögum, verði jafnframt lögfest sérstök ákvæði í samráði við samtök opinberra starfsmanna um samningsrétt þeirra, er starfa við öryggisþjónustu í víðri merkingu þess orðs, og er þetta í samræmi við yfirlýsta stefnu samtaka opinberra starfsmanna.

Aðdragandinn að setningu 1. frá 1915, er banna verkföll opinberra starfsmanna, var sá, að starfsmenn Landsímans áttu í kjaradeilu við stjórnarvöldin. Var þá gripið til þess að setja lög, sem bönnuðu verkfall opinberra starfsmanna. Síðan þessi lög voru sett, hefur margt í okkar þjóðfélagi þróazt til annarrar áttar en þá var fyrir séð. Verkalýðsbaráttan var á þeim tíma í mótun, og hörð andstaða var gegn verkföllum almennt. Eins og vel er kunnugt, voru hörðustu átök verkalýðsfélaganna við vinnuveitendur einmitt um sjálfan verkfallsréttinn. Nú er komið á 4. tug ára, síðan lög um stéttarfélög og vinnudeilur voru sett, þar sem verkfallsréttur verkalýðsfélaga var viðurkenndur og settar ákveðnar reglur til að fara eftir í kjaradeilum og verkföllum.

Það er ekki æskilegt, að sú þróun eigi sér stað, að ýmsir hópar opinberra starfsmanna, sem nógu sterkir eru stéttarlega til þess, taki sér verkfallsrétt, án þess að lagareglur gildi um meðferð hans. Slík þróun er þó raunverulega hafin, þar sem segja má, að t. d. læknastéttin hafi í reynd tekið sér verkfallsrétt, og svipuðu máli gegnir í fleiri starfsgreinum. Síðan Bandalag starfsmanna ríkis og bæja var stofnað 1942,hefur það barizt fyrir því, að opinberum starfsmönnum verði veittur samningsréttur og verkfallsréttur til jafns við aðrar launastéttir í landinu. Segja má, að þegar eftir stofnun bandalagsins hafi það verið viðurkennt sem viðræðuaðili fyrir hönd opinberra starfsmanna um kjaramál. Í launalögum frá 1945 var svofellt ákvæði:

„Við samning reglugerða samkv. l. þessum, svo og endurskoðun þeirra, skal gefa Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja kost á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um ágreiningsatriði þau, sem upp kunna að koma.“

Næsta skrefið, sem ríkisvaldið steig í þessum málum, var svo það, að sett var á laggirnar nefnd á árinu 1958, skipuð fulltrúum ríkisins og BSRB. Nefnd þessi skyldi fylgjast með launabreytingum hjá starfsmönnum á frjálsa vinnumarkaðinum og gera till. um breytingar á kjörum opinberra starfsmanna, þegar henni sýndist ástæða til. En þrátt fyrir miklar úrbætur frá því, að opinberir starfsmenn höfðu engin heildarsamtök til að berjast fyrir sínum kjörum, varð reyndin sú, að kjör þeirra voru í ósamræmi við launakjör á frjálsa vinnumarkaðinum, þar sem fullur samningsréttur gilti. Á árinu 1962 var ástandið orðið svo slæmt í þessum efnum, að segja mátti, að það væri orðið óviðunandi fyrir báða aðila, bæði fyrir starfsmennina og ríki og sveitarfélög. Á þessum tíma var misræmið orðið svo mikið á kjörum opinberra starfsmanna annars vegar og annarra stétta hins vegar, að flótti var hafinn úr opinberum störfum. Nefnd hafði verið skipuð á árinu 1959, til þess að athuga um samningsrétt opinberra starfsmanna. Þessi nefnd skilaði áliti í nóvember 1961, en varð ekki sammála. Fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í n. lögðu til, að opinberir starfsmenn fengju verkfallsrétt með svipuðum hætti og ákveðið var í Noregi með l. frá 1958. En fulltrúar ríkisins í n. vildu ekki samþykkja verkfallsrétt í neinni mynd. Snemma árs 1962 höfðu kennarar við barnaskóla og gagnfræðaskóla sagt upp störfum sínum, aðallega til þess að herða á kröfunum um bætt kjör, en hugðust ella taka upp önnur störf, ef ekki næðist árangur eða ef ekki næðust fram betri kjör. Munu hafa legið fyrir skriflegar uppsagnir frá um 90% allra kennaranna. Varð þetta til þess að herða á því, að eitthvað raunhæft væri gert til þess að bæta úr því ófremdarástandi, sem skapazt hafði vegna úreltra kjara opinberra starfsmanna, sem voru í engu samræmi við kjör annarra stétta í þjóðfélaginu. Upp úr þessu komu lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og gilda þau enn.

Kjarasamningal. frá 1962 veittu opinberum starfsmönnum, bæði ríkisstarfsmönnum og starfsmönnum hjá bæjarfélögum, samningsrétt án verkfallsréttar, og enn er þessum starfsmönnum bannað að gera verkfall að viðlagðri refsingu. Samkv. l. frá 1962 er samningstímabilið 2 ár, en ef almennar og verulegar breytingar verða á launakjörum annarra stétta á samningstímabilinu, getur hvor aðili um sig, samtökin eða ríkið og bæjarfélögin, óskað endurskoðunar á samningi. Ákveðin er sáttameðferð í kjaradeilum á sama hátt og hjá öðrum stéttarfélögum, og ákvæði er um, að félagsdómur gildi einnig um úrskurð í ágreiningsmálum um skilning á samningi og brot á lögum eða samningi. Opinberir starfsmenn hafa ekkert við þetta að athuga og telja það eðlilegt. En ef samningar ekki takast, skal gerðardómur skera úr ágreiningi, og það er einmitt þetta ákvæði ásamt verkfallsbanninu, sem hefur verið opinberum starfsmönnum þungt í skauti, og fullyrða má, að það sé ekki heldur heppilegt að skipa kjörum opinberra starfsmanna með þessum hætti.

Áður en frv. um kjarasamninga opinberra starfsmanna var lagt fyrir Alþ. á árinu 1962, var leitað álits stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það var álit stjórnarinnar, að slík lagasetning væri skref fram á við og væri þess verð að reyna þetta fyrirkomulag. Samþykkti bandalagsstjórnin svofellda ályktun um málið, þegar verið var að leggja síðustu hönd á samningu frv. um kjarasamninga opinberra starfsmanna:

„Enda þótt ríkisstj. hafi ekki fallizt á, að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt til jafns við aðra launþega, eins og bandalagsstjórnin hefur barizt fyrir í samræmi við stefnu bandalagsins, telur stjórnin, að bandalagið hafi með frv. þessu náð svo mikilsverðum áfanga, að fulltrúum þess beri að samþykkja það, þó að hún viðurkenni ekki réttmæti þess, að kjör launþega séu ákveðin með lögskipuðum gerðardómi. Jafnframt telur stjórn BSRB sjálfsagt, að unnið verði áfram að því lokamarki, að opinberir starfsmenn njóti sama samningsréttar og aðrir launþegar búa við.“

Fyrstu heildarsamningar samkv. hinum nýju lögum áttu að taka gildi 1. júlí 1963. Samningar tókust í fyrsta skipti að nokkru, þ. e. a. s. um skipun starfsmanna í launaflokka, en kjaradómur úrskurðaði um launaupphæðir og vinnutímaákvæði, yfirvinnukaup o. fl. Þegar á heildina er litið, þótti fyrsta framkvæmd kjarasamningalaganna takast allvel og lofa góðu um það fyrirkomulag, sem hér var tekið upp. En framkvæmdin eftir það hefur orðið til mikilla vonbrigða fyrir opinbera starfsmenn og samtök þeirra, þannig að meiri samstaða ríkir nú en nokkru sinni meðal opinberra starfsmanna um að berjast fyrir fullum samningsrétti til handa samtökunum, þ. e. sama samningsrétti og önnur stéttarfélög hafa samkv. l. um stéttarfélög og vinnudeilur frá árinu 1938. En eins og fyrr er sagt, hefur það verið stefna samtaka opinberra starfsmanna frá stofnun bandalagsins að vinna að því, að opinberir starfsmenn fengju verkfallsrétt. Um þetta hafa verið samþykktar ályktanir á mörgum þingum samtakanna, og nú hefur áhuginn fyrir þessu máli margfaldazt. Það er margyfirlýst stefna samtaka opinberra starfsmanna, að þess verði gætt með sérstökum ákvæðum, að verkfallsréttur, sem þeim verði veittur, stofni ekki öryggisþjónustu þjóðfélagsins í hættu. Um þetta er einnig rætt í grg. fyrir því frv., sem hér er til umr.

Það hefur sýnt sig við framkvæmd kjarasamningalaganna, að höfuðókosturinn við ríkjandi fyrirkomulag er tilhneiging ríkisvaldsins og forsvarsmanna sveitarfélaga til að vilja fremur skjóta ágreiningsmálum til dómstóla í stað þess að semja um þau. Ég hygg, að þetta eigi ekki bara við um ágreining í kjaramálum, heldur ágreining um fjárkröfur á hendur ríki og sveitarfélögum yfirleitt. Af þessum ástæðum verður að telja, að kjarasamningalögin verði aldrei mikið annað í framkvæmd en réttur til viðræðna við stjórnvöldin um kjaramál og réttur til málflutnings fyrir gerðardómi. Slíkt fyrirkomulag telja samtök opinberra starfsmanna ófullnægjandi. Þau voru frá byrjun uggandi vegna gerðardómslaganna, eins og fram kemur í ályktun stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja frá 1962, sem áður hefur komið fram hér í þessari framsöguræðu.

Mikið af íslenzkri löggjöf hefur mótazt af löggjöf annarra Norðurlandaþjóða, og það sýnist eðlilegt, að litið sé til þeirrar þróunar, sem átt hefur sér stað hjá frændþjóðum okkar um samningsrétt opinberra starfsmanna. Árið 1933 voru í Noregi fyrst sett lög um samningsrétt opinberra starfsmanna. Með þeim lögum var viðurkenndum samtökum opinberra starfsmanna veittur réttur til þess að krefjast þess,að upp væru teknir samningar að nýju um kaup og kjör. Ekki var þó hér um verulega gagnkvæma kjarasamninga að ræða. Ríkisvaldið ákvað eftir sem áður einhliða launakjörin. Virðist hér um svipaða aðstöðu að ræða og opinberir starfsmann fengu hér á landi 1945, eins og greint var frá hér áðan. Var talið í Noregi, meðan lög þessi giltu, að ríkisstarfsmenn hefðu möguleika á hópuppsögnum á störfum sínum með löglegum fyrirvara, en gætu ekki gert verkfall. Árið 1958 voru sett ný lög í Noregi um samningsrétt opinberra starfsmanna. Samkv. þeim l. bar ríkisvaldinu og samtökum ríkisstarfsmanna gagnkvæm skylda til þess að taka upp samninga um kaup og kjör samkv. kröfum frá hvorum aðilanum. Með þessum l. var ríkisstarfsmönnum í Noregi veittur verkfallsréttur, þó með undantekningum um öryggisþjónustu og tiltekna embættismenn. Einnig er sá fyrirvari um verkfallsréttinn, að heimilt er að skylda starfsmenn til að gegna störfum sínum í 3 mánuði, ef talið er, að brottför þeirra úr starfi stafni í hættu mikilvægum þáttum þjóðarhagsmunanna.

Í Svíþjóð var opinberum starfsmönnum veittur verkfallsréttur með l. um ríkisstarfsmenn, er tóku gildi 1966, og l. um starfsmenn sveitarfélaga og fleira, er tóku gildi sama ár. Í l. um ríkisstarfsmenn segir, að þau taki ekki til ráðh., hæstaréttardómara né þeirra, sem setu eiga í stjórnardómi. Þau taka ekki heldur til þeirra, er gegna prestsembættum. Þá segir, að um starfskjör í þeim stöðum, sem lögin taka til, fari eftir ákvæðum samninga, og í l. segir, að ef vinnudeila rísi um ráðningar eða starfskjör ríkisstarfsmanns, sem ákveða má í samningi, sé heimilt að láta koma til verkfalls eða verkbanns, en að því er verkföll varðar, eru þau einungis leyfð á vegum hlutaðeigandi sveitarfélaga. Sams konar ákvæði um samningsrétt og verkfallsrétt og hér hefur verið lýst, eru í l. um starfsmenn sveitarfélaga o. fl.

Í Finnlandi munu engin lög vera um verkföll opinberra starfsmanna, en samtök starfsmanna líta svo á, að þau séu heimil. Á síðustu árum hafa opinberir starfsmenn þar í landi gert verkföll, og má þar nefna verkfall, er hjúkrunarkonur efndu til, en þær munu flestar vera í þjónustu sveitarfélaga í Finnlandi.

Í Danmörku eru ekki heldur nein lög um verkföll opinberra starfsmanna. Samtök starfsmannanna telja sig þó hafa þennan rétt. Þar kom á s. l. sumri til verkfalls háskólamenntaðra manna, m. a. háttsettra manna í rn. Samningar tókust í þessari kjaradeilu, og engar ákærur urðu.

Síðan l. um bann við verkföllum opinberra starfsmanna voru sett hér 1915, hafa orðið í landinu stórfelldar breytingar. Á þeim tíma voru örfáir starfsmenn í þjónustu ríkis og bæja. Nú starfa hjá ríki og bæjarfélögum 8–9 þús. starfsmenn. Af þessum hópi eru nálægt 7 þús. í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Um flesta þessa starfsmenn gildir það, að engin ástæða er frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að þeir búi við annan og minni rétt en almennir launþegar að því, er tekur til samningsréttar og verkfallsréttar. Um hina, sem gegna öryggisþjónustu, telja samtök opinberra starfsmanna rétt að setja sérstök ákvæði, er tryggi, að öryggisþjónustan sé ekki sett í hættu. Við flm. lítum á frv. þetta sem stefnumarkandi mál um það, hvort starfsmenn hins opinbera eigi að hafa samningsrétt með svipuðum hætti og aðrir launþegar í landinu eða ekki. Okkur er það ljóst, að samhliða samþykkt þessa frv. yrði að taka afstöðu til ýmissa annarra hluta, svo sem að ákveða nánar, hvaða störf skuli teljast til öryggisþjónustu, og fleira. En ástæðulaust virðist að finna þau atriði sérstaklega út, fyrr en sýnt verður, hverjar undirtektir mál þetta fær hér á Alþingi.

Herra forseti. Ég leyfi mér að lokum að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2, umr. og hv. allshn.