12.03.1970
Efri deild: 54. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

152. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Flm. (Karl Guðjónsson) :

Herra forseti. Þó að hv. síðasti ræðumaður hafi ekki beinlínis heitið þessu frv. liðsinni í sinni ræðu, þá var ég um flesta hluti, sem hann hér bar fram, sammála honum, enda er maðurinn þekktur að því að vera sanngjarn og bera ekki fram neinar fjarstæður eða hávaðahróp, sem ekki eiga sér stað.

Hann bendir réttilega á það, að það sé ekki nóg að afnema þau lög frá 1915, sem banna verkföll opinberra starfsmanna. Þó að þau lög séu úrelt og hljóti að falla fyrr eða síðar, þá þurfi að gera fleira en það eitt að fella þau. Ég er honum sammála um þetta, og tók það reyndar fram í minni framsöguræðu, að ég liti á undirtektirnar við þetta frv. sem stefnumarkandi atriði um það, hvort gera ætti ráðstafanir til þess að setja t. d. reglur um það, hvað skyldi teljast öryggisþjónusta o. s. frv. — finna út ýmsa hluti, sem þyrfti að gera, ef þetta frv. ætti að verða að lögum, en menn leggja ógjarnan vinnu í að gera nema því aðeins, að þeir hafi hugmyndir um það, að afnám þessara nefndra l. frá 1915 hafi hljómgrunn og sé líklegt til þess að verða samþ.

Þetta frv. fer að sjálfsögðu til n. eins og önnur frv., sem Alþ. afgreiðir. Ég hef lagt til, að þetta frv. verði sent til allshn. og þar verði um það fjallað. Ég hygg, að ég megi fullyrða það fyrir munn okkar flm. allra, að það gæti verið fullt samkomulag við okkur um breytingar, eins og t. d. þá breytingu á 2. gr. frv., sem segir, að l. þessi öðlist þegar gildi, að ætla því einhvern undirbúningstíma, þannig að það öðlist ekki gildi strax við samþ., heldur t. d. um næstu áramót. Gætu þá stjórnvöldin og samtök opinberra starfsmanna unnið að því að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar þættu á því tímabili. Þó ég nefni þessi tímamörk, þá er það auðvitað ekki þar með sagt, að þau séu þau einu, sem til greina koma, en þetta á eftir að ræðast í n., og ef það yrði allshn., eins og ég hef lagt til, þá eigum við hv. síðasti ræðumaður og ég báðir sæti í þeirri n. og gætum rætt það frekar þar.

Flest af þeim rökum, sem hann færði hér fyrir því, að ekki væri æskilegt að leysa deilur með verkföllum, sízt af öllu með allsherjarverkföllum, er ég honum alveg sammála um og mörg fleiri atriði, sem hann hér tilnefndi. Hitt er augljóst, að ef almennum mönnum í landinu er trúandi fyrir verkfallsrétti, þá ætti opinberum starfsmönnum ekki síður að vera trúandi fyrir honum. Það er að vísu alveg rétt, að þeir fara með ýmsa mikilvæga pósta, og þó að það sé mikilvæg hefð að skamma ríkið fyrir eitt og annað í daglegu máli, þá hafa þeir auðvitað fundið það allra manna bezt, sem hafa fengið sitt þjóðfélag hrunið í rúst, að það er enginn gamanleikur, þegar opinber þjónusta hverfur úr sögunni. Við skulum hugsa okkur t. d. Þjóðverja eftir síðasta stríð, þegar þeirra þjóðfélag hrundi til grunna að heita mátti. Öll opinber þjónusta lagðist niður, og sú þjóð var sannarlega ekki öfundsverð af því ástandi. Sem betur fór stóð það ekki lengi, því að þeir voru býsna fljótir að koma upp a. m. k. vísi að opinberri þjónustu að nýju og því þjóðfélagi, sem er með þeim fullkomnari, sem við vitum deili á. Þar af leiðandi er ég alveg sammála síðasta ræðumanni um það, að það er ákaflega óæskilegt, að opinber þjónusta leggist niður í stórum mæli. Það veldur hreinu öngþveiti, og ég er sammála honum um það, að það er ekki nema eðlilegt, að þjóðfélagið reyni að tryggja sig fyrir því, að til slíkra stóráfalla komi ekki, enda þótt við séum líka sammála um það, að það er óeðlilegt að banna opinberum starfsmönnum, einum starfsstétta landsins, verkföll, enda hefur árangurinn á sumum tímabilum augljóslega verið sá, að þeir hafa búið við kjör, sem ekki voru sambærileg við kjör þeirra, sem verkfallsréttinn höfðu.

Ég vænti þess sem sagt, eftir að hafa heyrt undirtektir þessa mæta manns, sem hér talaði á undan mér, að menn geti rætt málið hitalaust eða a. m. k. ofstopalaust og fundið út, að gera þarf breytingar á þessum gömlu gildandi l. og fikra sig eitthvað nær því að geta komið þessum málum í nútíma horf.