13.11.1969
Neðri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2369)

74. mál, skattfrelsi heiðursverðlauna

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að gera þetta frv. mikið að umtalsefni. Ég er sammála þeirri hugsun, sem felst að baki því og hv. flm. hér lýsti. Hitt er annað mál, að ég þori ekki á þessu stigi að gefa neina yfirlýsingu um það, hvort ég telji fyrir mitt leyti mögulegt að samþykkja frv. eins og það lítur út eða samþykkja almenn lög um þetta efni, og hvort hægt er að skilgreina það mál, sem við stefnum hér að, nægilega ljóst til þess, að það leiði ekki til vafaatriða eða vandræða eða til fordæma, sem kynnu að verða hæpin. Það má að vísu ekki hræðast það um of, ég skal fúslega játa það, þannig að það leiði a. m. k. ekki til þess, að menn ekki taki á viðfangsefninu. Ég tel sjálfsagt, að málið sé athugað rækilega án þess, eins og ég segi á þessu stigi, að geta lýst nokkurri afstöðu til málsins varðandi það, hvort hægt sé að setja um þetta almenna reglu eða ekki. En ég er hv. þm. sammála um það, að þau verðlaun, sem hann vék hér til, að Magnús Már Lárusson núv. háskólarektor hefði hlotið nú á þessu ári, þau séu algerlega samsvarandi þeim verðlaunum, sem Halldór Kiljan Laxness hlaut, og skal taka það fram, að það er ekki ætlunin, að þessi verðlaun verði skattlögð með hvaða hætti, sem það verður gert. Það er önnur saga, sem ég skal ekki segja á þessu stigi. En það hefur þegar verið ákveðið, að nauðsynlegra heimilda verði aflað, til þess að þessi verðlaun hljóti sömu meðferð og verðlaun Halldórs Kiljans.

Lagasetning getur orðið með mismunandi hætti, en það, sem ég átti við, er það, að efnislega hefur verið ákveðið af hálfu ríkisstj. að beita sér fyrir þessu, en hvort það verður með almennri lagasetningu eða sérstökum heimildum, sem hægt er einnig að afla með mismunandi hætti, það skal ég ekki alveg segja um á þessu stigi, en taldi rétt, af því að þess er sérstaklega getið í þessu frv. hér, að það kæmi fram, þegar við þessa umr. Að öðru leyti tel ég rétt, að málið fái meðferð í n. og það verði kannað, hvort hægt verði að finna leið til þess að skilgreina þessi atriði með þeim hætti, að þau verði ótvíræð og verði ekki of víðtæk. Það er það, sem er meginvandi málsins. Auðvitað verður reynt að þoka inn á það sem allra flestu. — Það þekkjum við allir. — Allir vilja gjarnan njóta skattfrelsis. Það er ekkert efamál, þannig að það getur orðið nokkuð vandasamt að finna almenn ákvæði í þessu efni. Það getur hins vegar ekki orkað tvímælis, þegar það er miðað við tiltekin verðlaun, eins og átti sér stað varðandi verðlaun Halldórs Kiljans. Þar sem það var fyrsta tilfellið af þessari tegund verðlauna, þá þótti ekki rétt að setja um það almenn ákvæði, þó að það geti vel verið, að það sé orðið tímabært nú, þegar fleiri tilfelli liggja fyrir. A. m. k. ætti að íhuga það í fullri alvöru, hvort réttara sé að hafa það form á eða veita með einhverjum hætti sérstakar heimildir hverju sinni.