27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (2379)

74. mál, skattfrelsi heiðursverðlauna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þegar þetta frv. var hér til 1. umr., sagði ég nokkur orð af því tilefni. Það er rétt, sem hv. flm. segir, að það hefur áður legið hér fyrir þinginu. Reyndar hafa komið hér fram sérfrv. til þess að veita skattundanþágur í ákveðnum tilvikum, þar sem um verðlaunaveitingar til íslenzkra lista- og fræðimanna var að ræða. Ég vil taka það fram út af þessari till. hv. n. um afgreiðslu málsins, að ég er henni mjög ásáttur og get lýst því yfir hér, að ég álít, að þetta mál þurfi að fá jákvæða lausn og það þurfi að fastmóta reglu í þessu sambandi. Hins vegar er hér um nokkurt vandamál að ræða, hvernig sú regla á að vera, án þess að það leiði út í ógöngur, en ég vil sem sagt lýsa því yfir hér, að ég tel bæði rétt og skylt að taka þetta mál til afgreiðslu nú fyrir næsta þing og í þeirri endurskoðun skattalaganna, sem þá kemur fram, felist þá till. um lausn á þessum vanda.