11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2384)

37. mál, fólkvangur á Álftanesi

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Um þessar mundir starfar n. að því að endurskoða löggjöf um náttúruvernd, og mun hún væntanlega skila áliti sínu, áður en margir mánuðir eru liðnir. Þessi endurskoðun er hluti af hreyfingu, sem nú er uppi í landinu, til mjög aukins áhuga á náttúruvernd. Náttúruvernd er víðtækt hugtak, sem spannar yfir margt. Hún á bæði við það að varðveita náttúru landsins eða dýralíf sem líkast því, er verið hefur, og gera náttúrunni kleift að þróast eftir sínum eigin lögmálum. Undir náttúruvernd má líka færa það, sem kallað er fólkvangur í núverandi löggjöf, sem er opið svæði, tekið frá til þess að gefa fólki í þéttbýli tækifæri til að komast út í græna náttúru án of mikillar fyrirhafnar.

Það er þegar orðið allmikið vandamál hér í höfuðborginni, hvert fólk getur farið í stuttar ferðir um helgar. Það er ástæða til þess að hugsa einmitt um það land, sem er nærri höfuðborginni, vegna þess að vinnandi fólk hefur oft takmarkaðan tíma um helgar og vill geta brugðið fljótt við, ef veðuraðstæður eru hentugar. Það er þegar farið að hugsa um ýmis svæði á Reykjanesi, jafnvel norður í Hvalfjarðarbotn og lengra í þá áttina og austur fyrir fjall eftir stöðum, sem munu verða hentugir sem útivistarsvæði fyrir fólkið á hinu stóra þéttbýlissvæði í kringum höfuðborgina næstu áratugi.

Á miðju því svæði, sem þegar er byggt, er Álftanes enn að verulegu leyti opið. Í skipulagi eða skipulagshugmyndum, sem fram hafa komið og hafa verið gefnar út í allstórri bók, er reiknað með því að setja á mitt Álftanesið eða grænasta hluta þess byggð með 4–5 þús. íbúum. Ég bið menn að ímynda sér, hvernig þetta svæði muni líta út eftir svo sem einn mannsaldur, annars vegar ef Keflavík væri tekin og sett niður á grænasta og fallegasta hluta Álftaness, sett niður á túnin á Eyvindarstöðum, Landakoti allt í kringum Bessastaði — eða hins vegar, hvernig nesið mundi líta út, ef við bærum gæfu til þess í dag að gera þetta ekki og skilja þennan græna blett eftir óbyggðan.

Álftanesið er að ýmsu leyti óvenjulegt. Fjörurnar þar eru mjög ríkar frá náttúrunnar hendi af hvers konar lífi, enda nú þegar eftirsóttar af fólki, sem þangað fer til þess að njóta útivistar. Ég er þeirrar skoðunar, að við ættum að stefna að því að varðveita eins mikið af þessu svæði og við getum og takmarka byggð á því eins og við getum.

Nú þegar hafa verið flutt til hús eða reist hús, sem lýta bæjarstæðið á Bessastöðum til stórra muna, þegar farin er leiðin út á nesið. Þetta eru ekki nema eitt eða tvö hús, sem hafa verið færð til frá hættulegum vegamótum, en fegurðarauki eru þau ekki, þvert á móti. Smádæmi sýna okkur, hversu fljótt geta orðið slys á þessu sviði. Ég held, að skylda okkar í dag sé að halda þannig á þessum málum, að við gefum næstu kynslóð tækifæri til að ráðstafa þessu svæði. Látum ekki þröng sjónarmið okkar í dag ráða því, hvað um þetta svæði verður, og sízt af öllu setja á það 4–5 þús. manna byggð, ekki sízt vegna þess, að það er mikið landrými í kringum okkur, sem hægt er að byggja á, og við þurfum ekki að kvarta um landþrengsli.

Ég hefði helzt viljað, að bændur á Álftanesi héldu áfram að búa, meðan þeir geta, en það yrðu settar verulegar takmarkanir á nýjar byggingar. Ef það kemur í ljós, að þeir verða fyrir beinu tjóni af þessu, þá verður að bæta þeim það. Ég hefði helzt viljað, að þegar þeir, sem búa þarna, treystu sér ekki lengur til þess að halda áfram búskapnum, þá verði jarðirnar keyptar af þeim og reynt að hagnýta þær sem bezt, halda túnunum og grænu svæðunum. Þarna gætu verið í framtíðinni húsdýragarðar fyrir börnin hér í þéttbýlinu, þar gætu jafnvel verið golfvellir, og sem allra minnst skert náttúruna eins og hún er, sérstaklega við strendurnar og í hraununum. Ég tel, að sjónarmið okkar í þessum efnum eigi að mótast af því að gera ekki skyssur, heldur geyma nesið þangað til við höfum betri ráð og e. t. v. víðari sjóndeildarhring í þessum efnum.