11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (2385)

37. mál, fólkvangur á Álftanesi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég álít, að þetta frv. sé mjög athyglisvert og leiði hugann að máli, sem sífellt er að verða stærra og stærra, en það er, að þrátt fyrir þéttbýlið geti þjóðin umgengizt landið. Þetta er að verða stórfellt vandamál einmitt hér í þéttbýlinu við Faxaflóa. Ekki sízt er að verða hættulegt, hvernig þróast hér í fjörum og á strandlengjum, því að segja má, að margar skemmtilegustu fjörurnar og mörg skemmtilegustu svæðin við ströndina séu að lokast. Sumpart vegna þess, hvernig umgengni er á þessum stöðum og sumpart fyrir það, hvernig sjórinn er að mengast.

Ég fullyrði, að mengun sjávar er nú þegar orðin stórkostlegt vandamál hér í grennd við Reykjavík. Það er t. d. að verða þannig á norðanverðu Seltjarnarnesi, að þar er varla komandi í nokkra fjöru lengur og það færist óðfluga í það horf, að óhugsandi sé umferð þar vegna þess, hvernig sorp er leitt út í sjóinn, og hvernig gengið er um fjörurnar á ýmsa lund. Það er ekki vafi á því, að heilbrigðislöggjöfin er brotin víða þarna, eins og nú er að farið. Það er þess vegna áreiðanlega fullkomlega tímabært mál, ekki aðeins að skoða þetta frv. vandlega, heldur að athuga, hvernig ástatt er í þessu efni hér við sjávarsíðuna í grennd við Reykjavík og þéttu byggðina við sunnanverðan Faxaflóa.

Ég vil benda mönnum á Seltjarnarnesið, og ég mundi telja stórkostlegt óhapp, ef það sama ætti eftir að koma fyrir í fjörunni við Seltjörnina sjálfa og nú er að gerast norðan á Seltjarnarnesinu. Ég álít, að það sé alveg lágmark hér á Seltjarnarnesi að friða svæðið frá Suðurnesi, þar sem lögreglan hefur sínar stöðvar, og norður fyrir Gróttu — umhverfi gömlu Seltjarnarinnar — því að þetta er Seltjörnin, víkin, sem þarna verður, er Seltjörnin, en ekki tjörnin, sem nú er inni í landinu. Hún heitir Bakkatjörn. Þetta svæði þyrfti alveg fortakslaust að friða og sömuleiðis svæðið umhverfis Bakkatjörnina. Þetta bendi ég þm. Reykn. á. Þeir ættu að gefa þessu gaum, ef yfirvöldin á þessum slóðum ekki taka sig fram um þetta.

Þá er Álftanesið. Ég hef áður hér á hv. Alþ. og annars staðar vakið athygli á vissum stöðum þar, sem þyrfti umfram alla muni að friða. Ég nefni ströndina fyrir norðan Gálgahraunið, sem er alveg sérstök í sinni röð, hún er svo sérkennileg og falleg. Hana þyrfti umfram allt að friða, og þannig er um fleiri fjörur á Álftanesinu og einstök svæði. Sjálfsagt er að athuga gaumgæfilega, hvað hægt væri að friða einmitt á Álftanesinu og þá sem allra mest.

Ég tel, að fram ætti að fara heildarskoðun á þessum málum, og ég álít, að byggðarlögin við sunnanverðan Faxaflóa ættu tafarlaust að taka upp samstarf og samvinnu sín á milli og skoða þessi mál í samhengi, því að það er ekki hægt að leysa þessi mál á vegum hvers byggðarlags um sig. Þau verða að hafa samstarf og samvinnu um þau.

Ég hef stundum minnt á ströndina fyrir neðan Korpúlfsstaði frá Eiði og inn í Blikastaðakró, en það er eitt svæðið, sem að mínu viti þarf endilega að friða, og svo áfram upp með Korpúlfsstaðaánni. Þannig mætti benda á fleira, þó að mér sé þetta efst í huga ásamt ýmsu af því, sem kemur í raun og veru undir ákvæði þessa frv. Auðvitað eru alls konar erfiðleikar, sem koma fram í þessu sambandi vegna þéttbýlisins, en þetta verður heldur aldrei leyst, nema menn þori að horfast í augu við þetta verkefni nú þegar.

Hv. þm., sem talaði fyrir frv., minntist lauslega á það, sem gerzt hefur í borgarstjórn Reykjavíkur í þessum málum. Ég vil einnig gera það að umtalsefni og lýsa sérstökum fögnuði mínum yfir því, að borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að beita sér fyrir samstarfi sveitarstjórnarmanna hér við sunnanverðan Faxaflóa um að friða og taka frá sem fólkvang og útivistarsvæði væna spildu, sem liggur þvert yfir Reykjanesið úr Elliðaárvogi og suður á Krýsuvíkurbjarg. Þetta er stórkostleg hugmynd, sem hefur verið samþ. í borgarstjórn Reykjavíkur, og álít ég, að sú samþykkt marki algerlega tímamót í þessum málum, en reki sig ekki að neinu leyti á þær hugmyndir, sem eru um friðanir annars staðar, t. d. í þessu frumvarpi. Það er sem sé ekki nóg, að þessi útivistargarður eða fólkvangur komist upp, þótt stórbrotið sé, heldur verður einnig að friða svæði við sjóinn.

Til þess að benda mönnum á, hvað er að gerast, ef menn bera gæfu til að framkvæma þá stórkostlegu hugmynd, sem hefur nú verið samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur, vil ég benda mönnum á, að þetta svæði þvert yfir Reykjanesið liggur um svokallaðan Elliðaárdal upp með Elliðaánum, síðan sennilega fyrir austan Elliðavatnið, um Hjallana, sem tengdir eru Heiðmörkinni og svo suður um Búrfell og Búrfellsgjá, Kaldársel, Undirhlíðar og þá suður að Kleifarvatninu og svo alla leið suður á Krýsuvíkurberg. Þetta yrði mikið svæði, ef menn bæru gæfu til að koma þessu í framkvæmd, þá mundi í þessum útivistargarði verða ein laxá, eitt fuglabjarg, tveir sprengigígar, sem eru stórfelld náttúrufyrirbrigði í Krýsuvík og ein eldborg af þess háttar gerð, að sennilega eru aðeins til þrjár slíkar á Íslandi, þ. e. a. s. Eldborgin austan við Krýsuvík. Þar að auki er þarna hinn ákjósanlegasti staður fyrir skógrækt í Undirhlíðunum. Þarna mundu verða tvö stöðuvötn í garðinum, annað þeirra svo stórt, Kleifarvatnið, að þar væri hægt að hafa bátahafnir, siglingasport og sjóskíðaferðir og alls konar starfrækslu. Þetta eru aðeins örfá orð um það, sem þarna væri hægt að gera. Komist þetta í framkvæmd, þá gæti engin höfuðborg í veröldinni boðið upp á nokkuð hliðstætt og Reykjavík í þessum garði, sem jafnframt yrði fyrir Hafnarfjörð, Kópavog, Garðahrepp, Keflavík og Grindavík og öll byggðarlög á Suðurnesjum.

Á þessu svæði er mjög margt af fallegustu blettunum, sem til eru í grennd við byggðirnar á Suðurnesjum. Mín skoðun er sú, að þetta svæði ætti að vera mjög mismunandi breitt, sem næði alveg þvert yfir Reykjanesið. Ég tel, að það ætti t. d. að vera svo breitt, þegar suður eftir dregur, að inn í það kæmi Austurhálsinn (Sveifluhálsinn) og svo líka Vesturhálsinn, sem kallaður er, — og þá Trölladyngja, Höskuldarvellir og Selvellir. Þarna eru raunar fegurstu slóðirnar, sem hægt er að finna hér í grenndinni, og mjög auðvelt er að tengja þær inn á þetta svæði, því að það er ekki langt þangað vestur eftir og fellur afar vel inn í. Þá yrði svæðið langbreiðast par.

Inn á svæðið ætti að leggja brautir frá öllum byggðarlögum við sunnanverðan Flóann, sem allra beinast. Það væri hægt að fara beint úr Kúagerði t. d. um Höskuldarvelli og inn á svæðið. Kúagerði er suður við Vatnsleysu, innst á Vatnsleysuströndinni. Þar væri hægt að fara beint inn á svæðið úr syðri byggðarlögunum. Úr Grindavík er nú þegar hægt að fara beint inn á svæðið úr Grindavík og úr Hafnarfirði um Kaldársel o. s. frv.

Við köllum þetta friðun, en þetta ætti ekki að vera friðun að því leyti til, að þarna verður að eiga sér stað ýmiss konar starfræksla, sem snertir það útilíf, sem þarna á að fara fram, og það er vafamál, hvort ætti að leggja nokkra áherzlu á að alfriða þetta svæði fyrir búpeningi. Þetta er friðun í þeirri merkingu, að allt verði sem líkast því, sem það er frá náttúrunnar hendi, og verði umferðarland og útivistarland. Það yrði að sjálfsögðu að leggja um þetta land hæfilega bílvegi, a. m. k. inn á svæðið á ýmsum stöðum eftir því, sem skynsamlegt þætti, og svo skemmtilega reiðvegi og gönguslóðir.

Ég er að segja frá þessu hér til þess að upplýsa um samhengi þessara mála, og af því að ég fæ tækifæri til þess að láta í ljósi ánægju mína yfir því, að þessi ákvörðun skuli hafa verið gerð í borgarstjórn Reykjavíkur og einmitt ákveðið þar að hafa samstarf við öll þessi byggðarlög um að koma þessari stórkostlegu hugmynd í framkvæmd. Og ég vildi segja þessi fáu orð nú og hér til að láta í ljósi þá skoðun, að þessi áætlun rekur sig ekki á nokkurn hátt á þá hugmynd, sem hér er verið að tala fyrir, sem sé að friða svæði einnig við sjóinn á Álftanesinu. Það þarf að gera þetta hvort tveggja umfram alla muni.

Það er sá stórkostlegi kostur á þessari áætlun, sem samþykkt hefur verið í borgarstjórn Reykjavíkur, að á öllu þessi svæði, sem ég var að segja frá, og sem liggur þvert yfir Reykjanesið fyrir ofan alla byggðina, hvorki meira né minna en úr Elliðaárvogi og á Krýsuvíkurberg, er í raun og veru ekkert, sem þarf að fjarlægja til þess að áætlunin geti orðið framkvæmd á fullkominn hátt. Það er ekkert annað sem þarf en að fara nú skynsamlega að varðandi þær nýju framkvæmdir, sem koma til greina á þessu landsvæði, og það, sem meira er: Ég hygg, að allt þetta land, sem þarna kemur til greina, sé í opinberri eigu, þannig að þessi hugmynd yrði svo ævintýralega ódýr í framkvæmd, að nálega ótrúlegt má telja, og það er enn tími til að framkvæma þetta á hagfelldasta hátt. Hér hefur því að mínum dómi verið ráð í tíma tekið.

Aftur á móti er það ljóst, að það eru ýmsir erfiðleikar á því að glíma við þessi mál inni í sjálfri þéttbyggðinni, við strendurnar. En samt sem áður er það mál, sem þarf að fást við, og ekki láta það hræða sig, þótt ýmsum örðugleikum sé að mæta. Og þarna rekur sig ekkert á, og það er mér mest í mun að komist á framfæri, svo að menn geri sér grein fyrir því, að þarna er ekki um áætlanir að ræða, sem rekast á. Alls ekki. Eins og menn vita, eru öll þessi mál, þ. e. a. s. náttúruvernd og þar undir ráðstafanir til þess að koma útivistarsvæðum skynsamlega fyrir, í heildarathugun hjá milliþinganefnd, og vonandi kemur að því,áður en mjög langt um líður, að sú n. geti skilað áliti.