16.04.1970
Neðri deild: 76. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (2413)

54. mál, læknalög

Frsm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft frv. þetta um breyt. á læknal. til athugunar og leitað álits landlæknis, Læknafélags Íslands og stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga um málið. Læknafélag Íslands lagðist í umsögn sinni gegn frv., stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mælir eindregið með því, en landlæknir benti á nauðsynlega umorðun á frv., og er sú ábending tekin að fullu til greina í þeirri gerð frv., sem nú liggur hér fyrir.

N. varð ekki sammála um afgreiðslu frv. Leggur meiri hl. hennar til, að það sé samþ., en sú breyt., sem þá yrði á gildandi læknal., er innifalin í 1. málsgr., þ. e. a. s. ótakmarkað lækningaleyfi binzt því skilyrði, að kandídatinn hafi gegnt læknishéraði eða aðstoðað í læknisstarfi hjá héraðslækni í 6 mánuði, enda séu slík störf fyrir hendi og umsækjandi fær um að gegna þeim heilsu sinnar vegna.

Öllum er að sjálfsögðu ljóst, að hér er engin stórbót lögð til, en í þeim héruðum, sem læknaskorturinn þjakar víða um land, verður það að teljast ábyrgðarhluti að freista ekki svo að segja hverra ráða til úrbóta. Sem dæmi um skoðanir almennings, að hér sé þó ráða leitað, sem að einhverju leyti mættu að gagni koma, vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa bréf frá oddvitum sveitarfélaga í Þórshafnarlæknishéraði, dagsett 31. janúar s. l. til alþingismanna í Norðurl. e. og Austf., en það hljóðar svo:

„Við undirritaðir, oddvitar sveitarfélaga í Þórshafnarlæknishéraði, beinum þeim tilmælum hér með til alþm. Norðurl. e. og Austf., að þeir beiti sér fyrir því, að ráðinn verði læknir til starfa á Þórshöfn hið allra fyrsta.

Við leyfum okkur að benda á þá staðreynd, að sú málamyndaráðstöfun að láta Vopnafjarðarlækni þjóna Þórshafnarlæknishéraði er alls ekki forsvaranleg lausn á heilbrigðismálum læknishéraðsins. Enn fremur bendum við á, að við teljum raunhæfa lausn á læknamálum dreifbýlisins fólgna í frv., sem nú liggur fyrir á Alþ. um skylduþjónustu læknakandídata í héruðum, áður en þeir hljóta lækningaleyfi í landinu, og væntum vér þess, að það nái fram að ganga.“

Undir þetta rita fjórir oddvitar í Þórshafnarlæknishéraði.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en það er sem sagt till. meiri hl. heilbr.- og félmn., að sú breyt., sem hér liggur fyrir um læknalög, verði samþ.