16.10.1969
Neðri deild: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (2424)

4. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem hv. þdm. er kunnugt, er Framkvæmdasjóður Íslands arftaki Framkvæmdabanka Íslands. Í l. um Framkvæmdabanka Íslands hafði verið heimild um það, að bankinn mætti í vissum tilfellum aðstoða fyrirtæki með því að gerast beinn hluthafi í þeim. Það var að vísu alltaf gert ráð fyrir því, að það væri undantekningaratriði, er slíkt gerðist, en Alþ. hafði ekki talið það óeðlilegt á sínum tíma, að það ástand kynni að skapast, og með hliðsjón af hlutverki sjóðsins, að nauðsynlegt yrði — bæði vegna hagsmuna bankans og af öðrum þjóðfélagslegum ástæðum — að opna möguleika til að sjóðurinn gæti aðstoðað með beinum hlutafjárframlögum. Þetta ákvæði var ekki tekið upp í l. um Framkvæmdasjóð. Hins vegar hefur reynslan þegar sýnt, að það er mjög óhagkvæmt, að þetta heimildarákvæði sé þar ekki. Það hefur þegar komið fyrir, að Framkvæmdasjóður hefði talið knýjandi nauðsyn bera til að taka þátt í fyrirtæki í bili með þessum hætti, þ. e. a. s. að breyta hluta af sínum lánum vegna mikilvægs fyrirtækis í landinu, sem skuldaði sjóðnum eða Framkvæmdabankanum á sínum tíma allverulegar stofnfjárhæðir — veita þessu fyrirtæki aðstoð með því að breyta hluta af skuldum þessum í hlutafé, hvað sem síðar yrði. Fyrir þessu var í rauninni kannske næsta hæpin lagaheimild, er var byggð á því, að þetta var lán, sem veitt hafði verið á tímum Framkvæmdabankans. Þess vegna var talið gerlegt að gera þetta, þó að ekki væri bein lagaheimild fyrir hendi. Það sýnist hins vegar miklu eðlilegra, enda getur komið fyrir, að um slík tilfelli sé að ræða, þó að ég taki það skýrt fram, að hér hlýtur alltaf að verða að vera um alger undantekningarákvæði að ræða, þannig að ákvæði þetta verði túlkað mjög þröngt — þá þótti eðlilegt, að þessi heimild yrði einnig í l. um Framkvæmdasjóð Íslands. Það yrði þá á valdi stjórnar Framkvæmdasjóðsins, sem er þingkjörin stjórn, að ákveða um það hverju sinni, hvort fyrirtæki væri rekið af mikilvægri þjóðfélagslegri þýðingu eða hagsmunir sjóðsins þess eðlis af starfsemi þess, að það væri rétt að veita að einhverju leyti aðstoð í formi hlutafjár. Af þessum ástæðum er þetta frv. flutt, og eins og ég segi er í rauninni ekki um efnisbreytingu að ræða frá því, sem var varðandi Framkvæmdabankann. Hann hafði þessa heimild, en af einhverjum ástæðum hefur það fallið niður að veita Framkvæmdasjóðnum sambærilega heimild. Það er því lagt til, að þessi heimild verið veitt með þessu frv., sem hér liggur fyrir, og vænti ég, að hv. þdm. geti á það fallizt.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið nema tilefni gefist, en legg til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn., sem að sjálfsögðu getur þá fengið nánari upplýsingar um einstök atriði, sem kynni að verða þörf að athuga nánar í sambandi við framkvæmd málsins, ef til kæmi, að hv. Alþ. vildi á það fallast.