16.10.1969
Neðri deild: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (2427)

4. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mig langar til þess að gefa hér upplýsingar um það, hvernig þessi mál voru hugsuð, þegar Framkvæmdabankinn var stofnaður og hvernig þau ákvæði voru í Framkvæmdabankal., sem lutu að sumu leyti að þessu efni, sem hér er tekið til meðferðar í frv. Ég vil fyrst rifja það upp, að þegar Framkvæmdabankinn var settur á fót, lágu til þess þær ástæður, að lánafyrirgreiðsla var orðin geysilega mikil í fjmrn. Ráðuneytið var orðið eins konar fjárfestingarbanki, sem hafði forgöngu um lánsútveganir og ríkissjóður lánaði þau lán út aftur. Þetta var orðinn stórfelldur liður í búskapnum og það þótti ekki heppilegt að hafa þetta inni í ráðun. Í annan stað kom það til, að landið hafði eignazt svokallaðan Mótvirðissjóð, sem var æði mikið fjármagn, sem komið hafði inn vegna Marshallaðstoðarinnar og hafði verið lánað að nokkru út, en átti að sjálfsögðu að koma inn aftur. Þótti nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að þetta fé yrði ekki undir neinum kringumstæðum eyðslufé, heldur yrði notað til útlána aftur og aftur þannig, að það gæti verið hringrás til stuðnings framkvæmdum með þjóðinni. Það þótti þá ekki skynsamlegt að sameina í einum banka seðlaútgáfuna og milligöngu um fjárfestingarlánin og fjárfestingarstarfsemina, og því var það ráð tekið að setja upp Framkvæmdabankann. Jafnframt kom inn í þetta sérskoðun ýmissa, sem að þessu stóðu, að það ætti í raun og veru að vera til á vegum ríkisins einhver stofnun, sem hefði forystu í atvinnumálum, meiri en áður hafði verið. Framkvæmdabankanum var þess vegna ætlað eftir l. að hafa vissa forystu um frumkvæði ríkisins í atvinnulífinu og stuðning við að koma nýjum atvinnufyrirtækjum á fót, ekki aðeins með lánum, heldur var þar opnaður möguleiki til þess, að ríkið gæti átt hlut í nýjum atvinnufyrirtækjum. Það er orðað svo í Framkvæmdabankal.: að kaupa ný hlutabréf í fyrirtækjum, sem gagnleg eru þjóðarbúskapnum og arðvænleg að dómi bankastjórnarinnar. Og þó að það sé ekki fortakslaust, að þarna sé átt við ný hlutabréf, þá var allur rökstuðningurinn fyrir þessu sá, að hér var gert ráð fyrir, að þessi stofnun gæti átt hlut að því að koma af stað nýjum atvinnurekstri með þessu móti, með þessari þátttöku af opinberri hálfu. Til að skýra þetta betur vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa nokkrar málsgreinar úr Framkvæmdabankal., sem hljóða þannig:

„8. Að hafa samvinnu við einkaaðila, sem ráðast í arðvænlegar framkvæmdir og veita þeim fyrirgreiðslu.

9. Að annast rannsóknir í sambandi við fjárfestingarþörf atvinnuveganna.

10. Að greiða fyrir gagnlegum nýjungum í framkvæmdum og atvinnurekstri.

11. Að greiða fyrir atvinnuframkvæmdum á þeim stöðum, er skortir framleiðslutæki, en hafa skilyrði til framleiðslu.“

Þetta var forystuhlutverk, sem Framkvæmdabankanum var ætlað að hafa fyrir ríkisvaldsins hönd, og í þessu skyni er svo í öðrum mgr. ákvæði um, að bankinn láni í þessu sambandi og kaupi skuldabréf, ef þannig stendur á.

Þetta var í Framkvæmdabankal. Ég vil lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að ég álít, að það sé tjón að því, að þessi ákvæði öll voru numin úr lögunum, þegar Framkvæmdasjóðurinn var settur upp og eiginlega settur inn í Seðlabankann, því að þangað var hann í raun og veru settur. Með stofnun Framkvæmdasjóðsins var þessi fjárfestingarlánastarfsemi sett inn í Seðlabankann. Það má um það deila, hvort það sé hyggilegt. Ég skal ekki fara út í það, en þá voru þessi ákvæði öll felld niður, öll ákvæði, sem lutu að því, að þarna gæti verið um nokkurn sérstakan stuðning að ræða annan en lán til að koma upp atvinnurekstri eða efna til þátttöku í atvinnurekstri, og eingöngu skilin eftir þau ákvæði, sem lutu að beinum lánum. Þetta fjármagn, sem var í Framkvæmdabankanum, var í raun og veru sett inn í Seðlabankann, og þar er það, því að stjórn Framkvæmdasjóðsins kemur örsjaldan saman og þá er aðeins lögð fyrir hana lánaáætlun í stórum dráttum, af Seðlabankastjórunum. Þetta er eins konar heildsölufyrirtæki, því lausaféð gengur nálega eingöngu til annarra lánasjóða.

Ég er fylgjandi því að ákvæði hliðstæð þeim, sem voru í Framkvæmdabankalöggjöfinni, séu sett í löggjöf á ný, en það þarf að skoða það vandlega, inn í hvaða löggjöf þau eiga að koma. Hvaða stofnun á að fá hliðstætt vald og Framkvæmdabankinn hafði til þess að greiða fyrir nýjungum í atvinnulífinu af hendi ríkisvaldsins? Það er mál, sem þarf að athuga. Þessu hefur öllu verið raskað, m. a. sjálfsagt með það sjónarmið í huga, að ríkið ætti alls ekki nálægt slíku að koma, og þessi heimild, sem hér er farið fram á að setja inn í Framkvæmdasjóðsl., er, að því er mér virðist, eingöngu hugsuð þannig, að hægt sé að breyta áður veittu láni í hlutafé, væntanlega til þess að greiða fyrir fyrirtæki, sem áður er komið í viðskipti. Þetta er í raun og veru allt annars eðlis en þau lagaákvæði, sem um þetta giltu í Framkvæmdabankalöggjöfinni. Ég er aðeins að benda á þetta, þó að það hefði mátt samkv. l. Framkvæmdabankans skilst mér, gera þetta, sem þarna er ráðgert. Þau ákvæði voru í raun og veru miklu viðtækari en manni skilst, að hér sé stungið upp á.

Ég hygg, að það sé skynsamlegt að nota þetta tækifæri, sem nú gefst, til þess að endurskoða þessi mál alveg frá rótum og gera sér grein fyrir því, hvort menn vilja, að ríkisvaldið geti haft frumkvæði af þeirri tegund, sem ráðgert var í Framkvæmdabankal., og þá hvaða stofnun á að fela slíkt. Ég fyrir mitt leyti vil, að ríkið hafi slíkar heimildir, en ég er ekki reiðubúinn til þess að lýsa því yfir núna, hvar ég teldi heppilegast, að sú starfræksla ætti sér stað. Það gæti að mínu viti mjög vel komið til mála, að sú atvinnumálastofnun ríkisins, sem framsóknarmenn hafa stungið upp á og lagt fram till. um, hefði slíkar heimildir. En það er fyrirkomulagsatriði, hvernig menn vilja haga því.