16.10.1969
Neðri deild: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

4. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér kemur það á engan hátt á óvart, að hv. þm. geri þetta mál að umtalsefni og hjá þeim komi fram bæði mismunandi skoðanir á málinu og einnig viss varúð í sambandi við það, hvað af þessari lagabreytingu kann að leiða. Ég tek það skýrt fram, að sjálfur hef ég alveg gert mér grein fyrir þessum annmörkum, en eftir vandlega athugun var það skoðun ríkisstj., að það væri eðlilegast, að sú heimild, sem mér skilst nú í rauninni hjá þeim, sem til máls hafa tekið, að ekki væri óeðlilegt, að væri einhvers staðar til staðar, væri tengd Framkvæmdasjóði. Vitanlega má hugsa sér, að það verði, eins og hefur átt sér stað í mörgum tilfellum, ákvörðunaratriði Alþ. hverju sinni, hvort ríkið sem beinn aðili tekur þátt í uppbyggingu einhverra atvinnufyrirtækja eða að leysa fjárhagsvandamál þeirra. Ég minni á það, að nú fyrir mjög skömmu síðan var ákveðið hér á Alþ., að veita einu fyrirtæki, Norðurstjörnunni í Hafnarfirði, alveg sérstaka aðstoð í sambandi við erfiðleika, sem það fyrirtæki átti við að stríða. Það var metið svo, að það væri mjög mikið þjóðhagslegt tjón, ef þetta fyrirtæki færi forgörðum. Það hafði tryggan erlendan markað fyrir alla sína framleiðslu og margt benti til þess, að þarna væri mjög merkilegt fyrirtæki í uppsiglingu, ef það kæmist yfir byrjunarörðugleika. Þá var það ákveðið af Alþ. að veita með beinum ríkisframlögum hlutafé til þessa fyrirtækis, að vísu með nokkuð sérstæðum hætti, sem ég skal ekki ræða nánar um. Þá komu fram nákvæmlega þær sömu raddir eins og fram hafa komið hér m. a. frá hv. 4. þm. Vestf., að þarna væri um mjög varasamt fordæmi að ræða og það kynnu að koma fleiri aðilar á eftir. Auðvitað er þetta svo í ótalmörgum greinum og við verðum að fást við mörg viðfangsefni hér í þinginu, bæði í sambandi við þetta mál og mörg önnur mál, sem auðvitað er alltaf hætt við, að skapi hættu á fordæmum og sem Alþ. verður að taka afstöðu til eða þeir aðilar, sem valdið er fengið hverju sinni, að hve miklu leyti menn þora að fara út í þetta eða hitt í þessum efnum. Hins vegar álít ég, að hættan um fordæmi megi ekki alveg útiloka það, að menn skoði einstök viðfangsefni, eins og t. d. það, sem hér liggur fyrir, ef það virðist nokkurn veginn samdóma álit manna, sem um það eiga að fjalla, að það sé eðlilegt og nauðsynlegt frá þjóðhagslegu sjónarmiði að bjarga við einhverjum fyrirtækjum.

Ég held að það sé eðlilegt, að þessi heimild sé veitt Framkvæmdasjóði Íslands og það sé heppilegra heldur en þingið þurfi að fást við þessi mál hverju sinni, þó að það að sjálfsögðu hindri ekki það og verði að vera svo, að til kasta Alþ. komi með þátttöku ríkisins sem slíks við uppbyggingu meiri háttar fyrirtækja. Og þess vegna er það rétt, sem bent hefur verið á hér, að það er í rauninni ekki með þessu frv. gert ráð fyrir því, að farið verði út í uppbyggingu nýrra fyrirtækja, heldur verði þetta meira mat á afkomu eldri fyrirtækja og þá fyrst og fremst þeirra, sem Framkvæmdasjóður hefur lánaskuldbindingar við með einhverjum hætti, svo sem reynslan hefur þegar leitt í ljós, að hefur að mati sjóðsins reynzt óumflýjanlegt. Það er alveg rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að það er almennt ekki gert ráð fyrir því, að Framkvæmdasjóður hafi lánveitingar til einkaaðila, heldur fyrst og fremst opinberra sjóða. Þó er það ekki útilokað í l. sjóðsins, að slíkt megi verða, og það hefur átt sér stað í einstaka tilvikum. En gera má ráð fyrir, að fyrst og fremst yrði þarna um að ræða lán, sem sjóðurinn hefur tekið við og einmitt af þessari ástæðu, sem hv. þm. benti á, yrði hér alltaf um mjög takmarkað svið að ræða vegna þess, að það er aukaatriði í starfsemi Framkvæmdasjóðs, að beinar lánveitingar eigi sér stað, heldur er hann fyrst og fremst sjóður stofnsjóðanna. Hins vegar hefur með því ákvæði, að Framkvæmdasjóðurinn lúti yfirstjórn fjmrh. en ekki bankamálaráðh., verið við haldið þeirri hugsun, sem lá að baki Framkvæmdabankalögunum, að þetta væri meira en fyrirgreiðslustofnun, þó að óbeint væri af hálfu ríkisins, heldur en ættu sér stað varðandi lánveitingar hinna almennu stofnsjóða í landinu. Þess vegna tel ég ekki, þótt þetta kunni að vera eðlilegt, að veita Framkvæmdasjóðnum slíka heimild, að það þurfi að leiða til þess, að það eigi að veita slíka heimild í sambandi við hina almennu stofnsjóði atvinnuveganna. Þá álít ég vera annars eðlis, þó að eðlilegt sé að sú spurning rísi í huga manna, þá er það a. m. k. ekki mín skoðun í dag, að slíkt eigi að vera, og ég endurtek það, sem ég lagði áherzlu á áðan, að hér er ekki gert ráð fyrir, að verið sé að marka almenna stefnu heldur undantekningaratriði, sem eru metin mjög strengilega hverju sinni, alveg eins og Alþ. á sínum tíma mat það mál, sem ég gat um varðandi Norðurstjörnuna í Hafnarfirði. Þar var talið nauðsynlegt að bjarga fyrirtæki, sem var þjóðnýtt fyrirtæki og talið eiga sér framtíð. Þá er fyrst og fremst hugsunin með þessu einmitt sú, sem hér hefur réttilega verið bent á, að aðstoða fyrirtæki, sem komin eru á laggirnar, en ekki að eiga aðild að stofnun nýrra fyrirtækja með hlutafjárframlögum. Það álít ég að eigi heldur að koma fram með sérstakri löggjöf um það efni, sem raunar var lögð fram hér í Alþ. í fyrra, en hefur ekki verið lögð fram hér enn, er ekki ólíklegt að komi fyrir þetta þing — að sett verði á laggirnar sérstök lánastofnun, sem hafi það hlutverk að aðstoða við uppbyggingu fyrirtækja með hlutafjárkaupum, en þá verður auðvitað jafnhliða að vera til frjáls verðbréfamarkaður í landinu, sem er hin brýnasta nauðsyn að komist á. Að því hefur verið unnið bæði af Seðlabanka og ríkisvaldinu að vissu leyti með athugun bæði á skattamálum og ýmsum öðrum atriðum, sem þarf að taka til íhugunar í sambandi við uppbyggingu slíks frjáls verðbréfamarkaðar.

Ég held ekki, að ástæða sé til þess, að ég orðlengi frekar um þetta. Ég get fúslega fallizt á það sjónarmið, að það sé eðlilegt, að þetta mál sé skoðað, og ég hef gert mér fulla grein fyrir því, að þessu fylgja viss vandkvæði. En ég hefði haldið að vandkvæðin væru minni, að opna þessa hurð í hálfa gátt með því að hafa slíka heimild til hjá aðila, sem er nátengdur ríkinu, eins og Framkvæmdasjóður, heldur en að fara að taka upp hverju sinni heimildir í fjárlögum, eins og átti sér stað varðandi Norðurstjörnuna. Það mundi vera vel treystandi þeirri stjórn, sem Framkvæmdasjóður hefur, þar sem saman er komin sérstök þingkjörin stjórn sjóðsins og hins vegar framkvæmdastjórn sjóðsins, yfirstjórn Seðlabankans. Þá ætti það að vera nokkurn veginn öruggt að það yrði farið með nauðsynlegri varfærni í það að nota þessa heimild, sem hér er lagt til að verði veitt. Þess vegna óttast ég ekki að heimildin sé veitt. Það kom aldrei til neinna vandkvæða varðandi Framkvæmdabanka Íslands, að þar risu erfiðleikar, þó að þessi heimild væri þar í l. Ég hygg ekki einu sinni, að hún hafi nokkru sinni verið notuð, og ég er ekki viss um, að almenn fyrirtæki kærðu sig um þetta nema þá að mjög takmörkuðu leyti, vegna þess að flestir þeir, sem ráðast í atvinnurekstur, vilja helzt ráða honum sjálfir, en ekki hafa einhverja sjóði, sem eru kannske að meiri hluta eignaraðilar að fyrirtækjunum, þannig tel ég að heimildin sé ekki hættuleg, þó að ég geri mér ljósa grein fyrir, að hún getur verið vafasöm í framkvæmd. Hins vegar tel ég, að hún sé nauðsynleg og reynslan hafi sýnt og sannað, að svo sé, og á þeim grundvelli er frv. flutt.