16.10.1969
Neðri deild: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

4. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég beindi nokkrum fsp. til hæstv. fjmrh., en hef ekki fengið svör við nema nokkrum þeirra. Ég beindi þeirri fsp. til hans, hvort Framkvæmdasjóður hefði veitt, eða hvaða fyrirtækjum Framkvæmdasjóður hefði veitt slíka fyrirgreiðslu, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., en hæstv. ráðh. upplýsti það í framsöguræðu sinni, að sjóðurinn hefði veitt slíka fyrirgreiðslu, þó að bein lagafyrirmæli hefðu ekki verið fyrir hendi. Ég beindi einnig þeirri fsp. til hans, hvort þetta frv. væri fram komið vegna þess, að það stæði eitthvað svipað á með önnur fyrirtæki, sem talið væri þurfa að veita slíka fyrirgreiðslu og þess vegna væri þetta frv. flutt. Ég álít, að það sé mikilsvert að fá upplýsingar um þetta, því að það gæti glöggvað þm. á því, að hverju væri raunverulega stefnt með þessu frv.

Ég verð að segja, að ég er ekki sammála hæstv. fjmrh. um það, að hér sé um mjög takmarkaða heimild að ræða og miklu takmarkaðri en var í l. um Framkvæmdabankann, þar sem fyrst og fremst var átt við ný fyrirtæki. Hér er veitt heimild til þess að Framkvæmdasjóðurinn geti veitt eiginlega hvaða gömlu fyrirtæki sem er þá fyrirgreiðslu, sem hér er um að ræða, og ég er hálfhræddur um, ef þetta verður látið fara fram að tjaldabaki á lokuðum fundum hjá stjórn einhvers stofnunarsjóðs, að þá geti þau orðið býsna mörg eldri fyrirtækin, sem eru komin í fjárþröng af einhverjum ástæðum, réttmætum eða eðlilegum eða óeðlilegum, sem reyndu að fara þessa leið. Ég tel, að þegar um það er að ræða að veita gömlum fyrirtækjum slíka fyrirgreiðslu, að þá sé það miklu eðlilegri leið, að Alþ. fjalli um það hverju sinni og það sé fyrir allra augum, að talið sé nauðsynlegt að gera það, en að þessi fyrirgreiðsla sé ekki látin fara fram bak við tjöldin. Ég óttast að það geti orðið til þess, að það verði farið lengra og lengra inn á þá leið, sem mætti kalla það að þjóðnýta töpin hjá vissum atvinnufyrirtækjum. Það sé miklu minni hætta á, að slíkt eigi sér stað, ef Alþ. fjalli um þetta hverju sinni, eins og gert var hér í sambandi við Norðurstjörnuna á sínum tíma. Þegar um það er að ræða að veita stórfellda fyrirgreiðslu eldri fyrirtækjum — hvort sem það er með því að afskrifa skuldir, eða skuldum er breytt yfir í hlutafé — þá er að mínum dómi heppilegasta leiðin í þeim efnum sú, sem farin var í sambandi við Norðurstjörnuna — að Alþ. fjalli um málið hverju sinni, en það sé ekki á valdi stofnana, sem vinna bak við tjöldin og almenningur fær ekki að fylgjast með nema takmarkað, að ákveða það, hvaða fyrirtæki skuli fá slíka fyrirgreiðslu. Það getur veruleg hætta fylgt þeirri aðferð. Við getum fljótlega, ef hún er farin, verið komin inn á þá braut, sem ekki er neitt geðfelld.

Sem sagt, ég tek undir það, sem hér hefur komið fram eiginlega hjá öllum ræðumönnum, að það er mikil ástæða til þess að athuga þetta vandlega frá öllum hliðum, áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar.