16.10.1969
Neðri deild: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (2430)

4. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég bið hv. 4. þm. Reykv. afsökunar á því, að ég hef sennilega ekki hlustað nógu glöggt á hans ræðu, en ég minnist ekki að hann hefði beint spurt að því, hvaða tilefni væru varðandi fyrirtæki fyrir þessum frumvarpsflutningi. Þá minnist ég ekki að hann hafi nefnt neitt sérstaklega í sinni ræðu, og þess vegna gerði ég það ekki að umtalsefni í minni svarræðu, en ekki það að ég væri að skjóta mér undan því að ræða það mál. En áður en ég vík að því atriði, þá vil ég taka það skýrt fram, að ég hélt því ekki fram, það er misskilningur á mínum orðum þá, eða ég hef ekki talað nógu greinilega, að ég hafi sagt, að hér væri um takmarkaðri heimild að ræða en hefði gilt í l. um Framkvæmdabankann. Það hef ég ekki sagt, enda er þessi heimild ekki takmarkaðri. Ég lagði áherzlu á það, að ég teldi, að stjórn Framkvæmdasjóðsins ætti að nota þessa heimild mjög takmarkað, þó að hún yrði veitt. Það er að vísu ekkert, sem hindrar það.

Það er rétt hjá hv. þm., að heimildin kann að verða notuð á annan veg heldur en þann, sem ég var að lýsa í því efni, en það skiptir þó máli að gera sér grein fyrir því, þegar í tíma, með skilning á l., hvað hefur vakað fyrir þeim, sem lagafrv. flytur, hvernig beri að túlka ákvæðið og framkvæmd þess. En ég segi það enn og aftur, að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því og tek undir það, sem hér hefur komið fram, bæði hjá þessum hv. þm. og öðrum, að hér er um erfitt, vandasamt og varasamt mál að ræða, og þess vegna tel ég, að þessa heimild eigi að nota af mikilli varúð og aðeins í undantekningartilfellum. Slík undantekningartilfelli hafa skapazt. Mér er að vísu ekki kunnugt um, eins og ég sagði áðan, að Framkvæmdabankinn hafi keypt hlutabréf í fyrirtækjum, enda var gert ráð fyrir því fyrst og fremst, eins og hv. 1. þm. Austurl. gerði hér grein fyrir, að Framkvæmdabankinn væri þar hluthafi í nýju fyrirtæki. Hins vegar gat ég þess, að Framkvæmdasjóður hefði í einu tilfelli a. m. k., ég hygg einu tilfelli aðeins, gerzt hluthafi í fyrirtæki, sem skuldaði sjóðnum mjög miklar fjárhæðir, sem Framkvæmdabankinn hafði á sínum tíma lánað. Því var það með analogiskri túlkun, þó að hún kannske kunni að reynast hæpin, talið svo, að þar sem þetta hafi verið frá tímum Framkvæmdabankans, bæri að líta svo á, að það væri ekki óeðlilegt, að sömu heimildir giltu og hefðu gilt um lánveitingar hans og starfshætti varðandi þetta mál. Því var það mat Framkvæmdasjóðsins, meðal annars til að forða frá stórfelldu tapi á útistandandi skuldum þessa sjóðs við þetta tiltekna fyrirtæki, að ákveðið var að breyta þessu a. m. k. um sinn í hlutafé og reyna að kanna til hlítar, hvort fyrirtækið gæti ekki komizt á eðlilegan grundvöll. Ég sé ekki, að það sé neitt slíkt launungarmál, að það sé ekki hægt að segja frá því hér. Það var rætt í blöðum um afskipti af því máli, og þar er um að ræða ullarverksmiðjuna Álafoss, sem er mjög stór framleiðsluaðili í þeirri grein. En talið var við nákvæma athugun, eftir því sem hægt er að hafa slíka athugun nákvæma, að það fyrirtæki gæti átt sinn starfsgrundvöll, en væri bundið með of miklar fjárfestingar að sinni og þess vegna var þessu fyrir komið í bili, með þessum hætti.

Það er alveg rétt, og ég sé heldur enga ástæðu til þess að leyna því hér fyrir hinu háa Alþ., að það er eitt tiltekið fyrirtæki, sem um er að ræða nú og hefur verið í athugun um margra mánaða skeið, bæði á vegum atvinnumálan. ríkisins og fjármálaráðuneytis og banka, sem er gert ráð fyrir að auðið kunni að verða að bjarga og endurskipuleggja með vissri aðstoð, þar sem ríkið með einhverjum hætti kæmi til. Þetta fyrirtæki er Slippstöðin á Akureyri, sem er nú stærsta skipabyggingarfyrirtæki landsins, en hefur átt í miklum örðugleikum, verið með mjög miklar uppbyggingar. Það þykir mjög líklegt, að þetta fyrirtæki geti átt sér verulega framtíð, ef skipabyggingar eflast í landinu, og orðið ein af traustustu stoðum undir atvinnulíf á Akureyri. Hlutafé þess fyrirtækis er ákaflega lítið, svo sem því miður er um allt of mörg fyrirtæki í landinu, og til þess að hægt sé að veita því aðstoð af opinberri hálfu, er talið óumflýjanlegt, að hlutafé þess sé aukið mjög verulega, og þá bæði með þátttöku Akureyrarkaupstaðar, ríkis og fleiri aðila. Þetta tel ég rétt, að komi hér fram, og það er ástæðulaust að vera að leyna því. Þetta er hugsað takmarkað, og það hefði mátt hugsa sér að taka þetta mál upp alveg eins og mál Norðurstjörnunnar hér í þinginu.

Hvort menn komast að þeirri niðurstöðu við athugun þessa máls, og geta fremur orðið sammála um þá lausn, að það sé tekin formleg ákvörðun um það t. d. í sambandi við fjárlög eða með einhverjum slíkum hætti, svo sem var um Norðurstjörnuna, þá hef ég út af fyrir sig ekkert á móti því, að þetta mál sé rannsakað frá öllum hliðum, það er langt í frá. Þetta er ekki neitt pólitískt ágreiningsefni og á ekki að vera, heldur spurning um það, hvort menn vilja hér ganga til móts við að leysa tiltekin vandamál. Það kann vel að vera, að Alþ. vilji heldur standa andspænis því, að leysa slíkt einstakt mál hverju sinni, svo sem gert var með Norðurstjörnuna. Ég hefði hins vegar haldið með hliðsjón af þeim erfiðleikum, sem þá komu fram, er margir hv. þm. töldu sig setta í vandræði með að þurfa að afgreiða það mál með þeim hætti að taka slíkt einstakt fyrirtæki, þá væri miklu þægilegra að hafa þessa heimild, sem hér um ræðir. Þar sem allir stjórnmálaflokkar eiga hlut að stjórn þessa sjóðs, og auk þess Seðlabanki Íslands, þá ætti ekki að vera hætta á því, að þarna yrði um neitt hættulegt baktjaldamakk að ræða, og þetta mál gæti legið alveg fyrir opnum tjöldum, eða það, sem yrði gert af hálfu þess sjóðs og það miklu fremur en það, sem gert er af hálfu annarra sjóða. Málefni Framkvæmdasjóðs eru miklu meira fyrir opnum tjöldum en málefni stofnsjóða atvinnuveganna.

Það voru á sínum tíma birtar skýrslur um það, t. d. þegar Framkvæmdabankinn starfaði, hvaða lán hann veitti. Ég tel að það hafi verið ágætt og eðlilegt miðað við starfsemi þess banka, sem er auðvitað allt annars eðlis heldur en gildir og hlýtur að gilda um bankakerfi landsins almennt.

En um starfsemi Framkvæmdasjóðsins er það líka að segja, að hún er að verulegu leyti opinber. Hans meginhlutverk er annar þáttur framkvæmdaáætlunar ríkisins á hverju ári, þ. e. a. s. vandamál stofnsjóða atvinnuveganna, og um það eru gerðar ákveðnar áætlanir, sem eru opinberlega birtar, þannig að þessi sjóður starfar mjög fyrir opnum tjöldum að þessu leyti. Ég er ekki að segja, að það geti ekki einnig skeð með fleiri sjóði og eigi að vera, en þetta er nokkur sérstaða að þessu leyti. Ég held því, að ég hafi sagt allt það, sem ég þarf í þessu máli, en ég tek það fram, að ég er síður en svo á móti því, að hv. þingdeild og Alþingi, við afgreiðslu þessa máls, íhugi allar hliðar þess. Ég þykist ekki vera í neinum vafa um það, að menn skilji almennt þann vanda, sem hér er við að glíma, en hvernig menn vilja mæta honum, er önnur saga. Ég er ekkert að halda því fram, að það, sem hér er lagt til, sé endilega það eina rétta, sem komi til álita, og er fullkomlega reiðubúinn til allrar samvinnu við þingið. En ég tel rétt, að það komi til athugunar í n., eins og ég sagði áðan, hvort það yrði talið heppilegra að hafa eitthvert annað form á þessu heldur en hér er gert ráð fyrir. Þannig tel ég, að þessar umr. út af fyrir sig séu þarfar og góðar og til þess fallnar að upplýsa það vandamál, sem við stöndum hér andspænis.