16.10.1969
Neðri deild: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

4. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. ráðh. fyrir mjög greinargóð svör við fsp. mínum. Ég tel, að málið liggi miklu ljósara fyrir eftir en áður og það sé greinilegra, hvað hér er um að ræða. Það er vafalaust alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það er miklu þægilegra að leysa mál eins og þessi, mál Norðurstjörnunnar og mál Álafoss og mál Slippsins á Akureyri, á lokuðum fundum sjóðstjórna eða sjóðstofnana heldur en hér á Alþ. Ég álít hins vegar, að þegar um jafn stór mál og þessi er að ræða, sem geta skapað jafn mikilvæg fordæmi, sé það betri og hreinni og heiðarlegri aðferð að leysa þessi mál fyrir opnum tjöldum hér á þinginu heldur en að vera að gera það á öðrum stöðum, þar sem fólk fylgist minna með því, sem raunverulega er gert.