23.10.1969
Neðri deild: 5. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (2434)

34. mál, utanríkisþjónusta Íslands

Utanrrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Það var í marzmánuði 1968, að samþ. var hér á Alþ. svohljóðandi þál. um endurskoðun l. um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða löggjöfina um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis. Með þeirri endurskoðun skal einkum stefnt að því að gera utanríkisþjónustuna hagkvæmari og ódýrari en nú er. Endurskoðunin skal gerð í samráði við þingflokkana og skulu niðurstöður hennar lagðar fyrir næsta þing.“

Með skírskotun til þessarar þingsályktunar voru skipaðir eftirtaldir menn í n. til að endurskoða l. um utanríkisráðuneytið á þann hátt, sem þáltill. greinir: Benedikt Gröndal alþm., Gils Guðmundsson alþm., Ólafur Jóhannesson alþm., Sigurður Bjarnason alþm. og Agnar Kl. Jónsson ráðuneytisstjóri. Eins og ljóst er af þessari upptalningu er meiri hl. í n. skipaður mönnum úr utanrmn., og átti það að vera til þess að hafa nánara samband á milli þessarar þingn. og utanríkismálan.

N. hefur nú unnið í þessu máli, síðan hún var skipuð, og liggur hér fyrir frv., sem hún hefur samið. Hún segir að vísu í grg. fyrir frv., að hún hafi aðeins orðið sammála um að leggja þetta frv. fram, en það séu nokkur atriði þó, sem nm. væru kannske ekki á einu máli um, og þeir áskilji sér þess vegna rétt til að hafa óbundnar hendur um brtt., sem fram kunna að koma við frv. Ríkisstj. ákvað að leggja frv. fram hér á Alþ. alveg eins og n. gekk frá því án þess að gera till. til breyt. við það, þó að sum atriði að hennar dómi kunni e. t. v. að orka nokkurs tvímælis, en það kemur þá fram síðar. Ríkisstj. þótti ekki rétt að fara að gera á þessu stigi till. til breyt., heldur mundi hún láta till. n. koma fram alveg eins og n. gekk frá þeim.

Það er í grg. fyrir frv. rakin saga utanríkismála hér á landi frá upphafi vega, svo að ég þarf ekki að fara langt út í það. Þessi saga er stutt, og hún er einföld. Danir fóru með þessi mál fram til ársins 1918, þegar sáttmálinn við Danmörku var gerður, og eftir 1918 var utanríkisþjónustunni dönsku einnig falið að halda þessum málum áfram fyrir Íslands hönd, þangað til samningurinn rynni út að 25 árum liðnum fyrir það fyrsta. En þetta varð ekki raunveruleikinn, því að styrjöldin brauzt út, áður en samningstímabilinu var lokið, og eftir að Danmörk var hernumin 1940 rofnaði alveg sambandið milli Danmerkur og Íslands, og þess vegna var útilokað að halda sama fyrirkomulagi áfram eftir það. Þá voru fyrst gefin út brbl. um meðferð utanríkismála, sem síðan voru staðfest hér á Alþ. með l. nr. 31 1941 um utanrrn. Íslands og fulltrúa þess erlendis. Þessi l. hafa verið óbreytt frá upphafi, en þegar þau voru undirbúin fór ráðun. Íslands með konungsvald, og styrjöldin olli, að óhætt er að segja, svo miklum breytingum í meðferð þessara mála, að þetta frv. var í upphafi eiginlega ekki hugsað nema að tjalda til einnar nætur eða í stuttan tíma a. m. k., þó að það hafi nú verið í gildi í 28 ár. En þau hafa gilt svo að segja óbreytt og ekkert verið við þeim haggað síðan.

Nú hefur það gerzt upp á síðkastið, eins og allir vita, að það hafa orðið miklar breytingar í heiminum, ný alþjóðasamtök hafa verið stofnuð, og þátttaka Íslendinga í þeim hefur verið ráðin. Þess vegna var nauðsyn að breyta þessum l. eða a. m. k. að endurskoða þau og athuga, hvort ekki væri rétt að breyta þeim með nokkrum hætti. Þetta hefur sem sagt verið gert, og þetta frv. liggur hér fyrir.

Ég skal aðeins fara nokkrum orðum um einstakar gr. frv., þó að þær skýri sig að mestu leyti sjálfar. Í 1. gr. frv. segir, að utanríkisþjónustan sjái um stjórnmálasamband hins íslenzka ríkis við önnur ríki, samningagerðir, þátttöku í alþjóðastofnunum eða ráðstefnum og því um líkt og gæti yfirleitt hagsmuna íslenzka ríkisins og íslenzkra ríkisborgara, hvar sem er utan Íslands. Í niðurlagi gr. segir, að n. leggi á það alveg sérstaka áherzlu, að utanríkisþjónustan eigi ekki hvað sízt að einbeita sér að utanríkisverzluninni og fylgjast með öllu, sem henni við kemur, einkum og sér í lagi að greiða fyrir sölu íslenzkra afurða með leit að nýjum mörkuðum fyrir þær og yfirleitt greiða fyrir aukinni sölu þeirra, sem frekast er unnt. Þetta mál um þátttöku utanrrn. í utanríkisverzluninni og meðferð þeirra mála hefur verið nokkuð laust á undanförnum árum. Viðskmrn. hefur haft til meðferðar mikið af þeim málum og tekið þátt í ýmsum alþjóðasamtökum og undirbúningi mála á erlendum vettvangi, eins og síðast hefur ljóst verið af EFTA málunum, sem mjög hafa verið hér til umr., sem samkomulag varð um við viðskmrn., að það tæki að sér að hafa forystu um. Ég vildi benda á þetta atriði sérstaklega, því að ég veit, að þykkjur manna um það fara ekki allar saman, þannig að sumir vilja láta utanríkisráðuneytið hafa meiri afskipti af þessu heldur en aðrir, og svo eru aftur aðrir, sem hugsa öfugt. Þannig að ég held, að þetta atriði þurfi einmitt að takast til mjög gaumgæfilegrar athugunar hjá þeirri n., sem málið fær til meðferðar, og hafa samráð við bæði rn., bæði utanrrn. og viðskmrn. um endanlega lausn þess.

Síðan eru nokkrar gr., sem skýra sig sjálfar og eru meira og minna endurtekning á því, sem er í núverandi l., en í 4, gr. frv. er rætt um, hvernig skipa skuli ambassadora. Í l. frá 1941 er svo fyrir mælt, að ríkisstj. ákveði með tilskipun, á hvaða stöðum skuli vera sendiráð. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að þetta verði ákveðið með forsetaúrskurði, og er raunar ekki mikill munur á því að öðru leyti en því, að í l. eru einnig ákvæði um, að þessir forsetaúrskurðir skuli taka til þátttöku í sendin. hjá eða við alþjóðastofnanir og hvar stofna skuli ræðismannsembætti.

Ég held, að það sé rétt, að ég gefi hér yfirlit yfir það, hvernig okkar erlendu fulltrúum er niður skipt, en útsendir ambassadorar Íslands eru nú 10. Það er í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, London, Bonn, Moskvu, París og Washington. Auk þess eru svo fastar sendin. hjá Sameinuðu þjóðunum og NATO og tekið þátt í með ambassadorunum, sem eru á viðkomandi stöðum, í OECD, Evrópuráði og UNESCO. Þetta eru, eins og hv. þm. taka eftir, ekki nema 10 staðir eða 10 útsendir ambassadorar, en þjóðirnar í heiminum eru nú allmiklu fleiri, og ef vel ætti að vera, þá ættu þessir útsendu ambassadorar okkar að vera á miklu fleiri stöðum. Það hefur verið reynt að bæta úr þessu með því að láta þessa útsendu ambassadora okkar hafa fleiri en eitt land, þó að þeir sætu í einu landinu, þá væru þeir líka sendiherrar okkar hjá tveimur og upp í fjórum, fimm löndum öðrum. Danmörk hefur t. d. á sinni könnu Tyrkland og Írland, Noregur hefur Ítalíu, Ísrael, Pólland og Tékkóslóvakíu. Svíþjóð hefur Austurríki og Finnland. Bretland hefur Holland, Portúgal og Spán. Þýzkaland hefur Íran, Japan, Sviss og Alþjóðakjarnorkumálastofnunina. Í Moskvu hefur ambassadorinn Búlgaríu, Rúmeníu og Ungverjaland auk Sovétsambandsins. Frakkland hefur Belgíu, Grikkland, Júgóslavíu og Luxemburg, og OECD og Evrópuráðið og UNESCO. Washington hefur hvorki meira né minna heldur en alla Ameríku, norðan frá Kanada og suður til Argentínu. Við höfum að vísu ekki diplómatískt samband við þessi ríki öll, en þau lönd, sem við höfum samband við eru Argentína, Brasilía, Kúba, Mexíkó og Kanada. Síðan hefur verið talað um að fjölga þessum stöðum, sem diplómatískt samband væri við, og meira en talað um það, því að það er einn nýr ambassador, sem kom hingað fyrir stuttu. Það er fulltrúi fyrir Egyptaland, og síðan er meiningin að hafa annan fulltrúa fyrir Ethiópíu, sem hvort tveggja eru Afríkulönd, sem geta orðið þýðingarmikil fyrir okkur, og verða þau að sjálfsögðu lögð undir eitthvert sendiráðsembætti, sem fyrir er, en ekki sendir út nýir sendimenn til þessara staða. Ethiópía hefur verið valin vegna þess að svertingjasamböndin hafa þar sínar höfuðstöðvar og verða þess vegna nærtæk til þess að hafa samband við, ef um viðskiptamál og önnur verður að ræða þar.

Það er svo einstaka nýmæli í þessu frv. Þau eru nú ekki mjög mörg, en ég skal nefna nokkur. Það er nýmæli í 11. gr., að það megi skipa viðskiptafulltrúa til takmarkaðs tíma. Þeir hafa ekki verið skipaðir áður utan einn, sem er ólaunaður, og það er viðurkennt, að viðskiptafulltrúar gætu sjálfsagt gert talsvert mikið gagn. En það er gert ráð fyrir, að þeir verði þá skipaðir í samráði við þá útflutningsatvinnuvegi, sem þeir verða helzt líklegir til þess að vinna fyrir og launakjör þessara viðskiptafulltrúa ákveðin í hverju einstöku tilviki í samráði við hlutaðeigandi aðila, þó þannig að ríkissjóður greiði að jafnaði ekki yfir helming launa þeirra.

Í 13. gr. er svo heimilt að skipa í utanrrn. eftirlitsmann sendiráða. Það er alveg nýtt starf, og tel ég, að það sé fullkomlega eðlilegt og nauðsynlegt, að í það verði skipað. Það gera ýmsar aðrar þjóðir, er hafa fastamenn, sem ferðast á milli sendiráðanna og líta eftir starfseminni þar og gera aths. við það, sem þeim finnst athugavert og gera till. til breytinga, ef þeim finnst það eðlilegt. Við verðum alltaf að hafa það í huga, að utanríkisþjónusta okkar er tiltölulega dýr. Hún kostar talsvert á annað hundrað millj. kr. núna, eins og hún er, og það er náttúrlega ekki hægt að hafa hana eins fullkomna og við raunverulega þyrftum að gera. Þess vegna hefur verið gripið til þess ráðs að nota sem mest og meira en áður kjörræðismenn í ýmsum löndum, sem vinna sitt verk margir hverjir ágætavel, en taka engin laun fyrir störf sín. Það eru núna talsvert á annað hundrað kjörræðismenn, eitthvað kringum 120–130, ég man ekki nákvæmlega töluna, sem eru staðsettir í fjölda landa. Í sumum löndum eru nú raunar fleiri en einn, og allir hafa þeir starfi að gegna fyrir íslenzka ríkið og íslenzku þjóðina og gera það margir og flestir, held ég, að ég megi segja, ágætavel og okkur alveg að kostnaðarlausu. Ef við þyrftum að hafa útsenda menn á þessum stöðum öllum, þar sem kjörræðismennirnir eru starfandi, mundi bætast álitleg upphæð við okkar kostnað við utanríkisþjónustuna.

Þá er enn nýmæli í þessu frv. Það er tekið sérstaklega fram, að starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sem dveljast langdvölum erlendis, skuli fá greiddan hluta af kostnaði við að senda börn sín í skóla á Íslandi. Þetta er mjög eðlilegt og þarft, því að margir af þessum útsendu mönnum okkar vilja ekki, að börn þeirra verði alin upp við erlend skilyrði eða erlendar aðstæður, og óska eftir því, að þeir geti sent börnin sín heim til Íslands í skóla, og í frv. er gert ráð fyrir að taka þátt í þeim kostnaði.

Miklu fleira held ég, að ég þurfi ekki að taka fram. Það var, eins og ég segi, gengið frá frv. af hálfu mþn., sem til þess var skipuð að semja það. Hún kom sér saman um að leggja þetta frv. fram, eins og hér er gert, án þess að farið væri mikið nánar út í þau atriði, sem þeir væru ekki fyllilega sammála um, og ríkisstj. var sama sinnis. Hún lætur frv. koma hér fyrir hv. Alþ. alveg eins og n. gekk frá því, en áskilur sér rétt að gera aths. við það og óskar eftir því, að sú n., sem þetta frv. fær til meðferðar, hafi samband við utanrrn., þegar farið verður að ræða málið, og ég held, að það væri þarft og rétt, að það yrði haft samband við viðskmrn. líka, til þess að einnig frá þeirri hlið gætu fengizt þær skoðanir, sem þar eru uppi um meðferð viðskiptamála við erlend ríki.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til. að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.