23.10.1969
Neðri deild: 5. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

34. mál, utanríkisþjónusta Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Haustið 1967 lagði ég ásamt tveimur hv. þm., Lúðvík Jósefssyni og Hannibal Valdimarssyni, fram frv. til l. um breyt á l. um utanrrn. Íslands og fulltrúa þess erlendis. Fyrir þessu sama þingi lá sú þáltill., sem hér var vitnað til áðan, og sú till. og frv. okkar kom til utanrmn. frá allshn. og var fjallað um hvort tveggja þar á sama fundi. Ég var viðstaddur á þessum fundi og þar kom í ljós, að utanrmn. var þeirrar skoðunar að samþykkja þáltill., og hún taldi þá einnig eðlilegt, að sú n., sem fjallaði um endanlega endurskoðun á utanrrn., fjallaði einnig um þær hugmyndir, sem fólust í frv. okkar þremenninganna. Ég lýsti því yfir á þessum fundi, að ég væri algerlega sammála þeirri málsmeðferð og fyndist hún eðlileg.

Nú sé ég í því frv., sem hér hefur verið lagt fram, að þær hugmyndir, sem við þremenningarnir vorum með, eru alls ekki teknar með, hvort sem það stafar af því, að láðst hafi að fjalla um þær eða ekki hefur verið samstaða um þær í n. En í þeim atriðum, sem voru í frv. okkar þremenninganna, fólst ekki nein allsherjarendurskoðun á þessum lagabálki, heldur einvörðungu einn þáttur þessara mála, þ. e. afskipti Alþ. af utanríkismálum. Við lögðum til, að í l. um utanrrn. Íslands yrðu tekin upp ákvæði, sem tryggðu það, að um utanríkismál yrði fjallað hér á þingi á svipaðan hátt og önnur mál, og þetta tel ég ákaflega veigamikið atriði. Við vitum það allir þm., að á þessu hefur verið misbrestur stundum, og að um utanríkismál er alls ekki fjallað á jafngaumgæfilegan hátt og ýmis önnur mál, jafnvel hrein smáatriði.

Frv. okkar var ekki mikið að vöxtum. Meginefni þess fólst í 1. gr., en þar var lagt til, að ný gr. bættist í l. svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta :

„Um allar meiri háttar ákvarðanir í utanríkismálum skal hafa samráð við utanrmn. Alþ., bæði meðan Alþ. er að störfum og milli þinga. Sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna er skipuð af ráðh. til eins árs í senn, og skulu þingflokkarnir hafa rétt til að tilnefna einn fulltrúa hver í n. Árlega skal ráðh. gefa Alþ. skýrslu um viðhorf ríkisstj. til utanríkismála og um störf íslenzku sendinefndarinnar á þingi Sameinuðu þjóðanna ásamt rökstuddri grg. um afstöðu Íslands til einstakra mála á þinginu.“

Við töldum eðlilegt, að þessi atriði öll væru í l. um utanríkisþjónustu Íslands. Fyrsta atriðið, sem þarna er nefnt, um utanríkismálanefnd Alþingis, er í þingsköpum, sem hafa að sjálfsögðu lagagildi, eins og kunnugt er, en hins vegar vita allir alþm., að á löngu árábili voru þessi ákvæði þingskapa þverbrotin. Hæstv. núv. utanrrh. hefur breytt þessum vinnubrögðum, sem betur fer, og nú hefur verið tekið upp eðlilegt samstarf við utanrmn. Hins vegar tel ég alveg sjálfsagt, að þessi ákvæði verði einnig í sjálfum l. um utanrrn. Íslands.

Annað atriðið, sem þarna er nefnt, um aðild þingflokkanna að sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, hefur einnig verið framkvæmt í verki af hæstv. núv. utanrrh. síðustu árin. Hins vegar tel ég, að sjálfsagt sé að þetta ákvæði sé í sjálfum l. Ég tel það skipta ákaflega miklu máli, að Alþ. líti á það sem eitt af verkefnum sínum að fylgjast með og taka þátt í störfum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Mér fyndist, að þingflokkarnir ættu að hugleiða það, hvort ekki sé hægt að taka þau störf dálítið fastari tökum en verið hefur. Ég held, að það væri ákaflega skynsamlegt fyrir flokkana að reyna að koma sér upp hópum manna, sem tryggi sér sem mesta sérþekkingu á þessum sviðum, bæði til þess að fjalla um mál hér á þingi og eins, ef hæstv. utanrrh. eða ráðun. hefur hug á því að bera vandamál undir menn.

Í þriðja lagi er þarna gert ráð fyrir, að ráðh. gefi árlega skýrslu um viðhorf til utanríkismála og um starfshætti og ákvarðanir utanrrn. á erlendum vettvangi. Einnig þetta atriði hefur hæstv. utanrrh. framkvæmt á síðustu árum, en ég tel mjög eðlilegt, að þetta sé ákveðið í l., svo að það sé tryggt, að þannig sé að verki staðið, hvaða einstaklingur, sem er í embætti ráðh. Um þetta hefur verið rætt, eins og kunnugt er, í mörg ár, en það er ekki fyrr en síðustu árin, að þetta hefur komið til framkvæmda, og vel er hugsanlegt, að síðar geti valizt í starf utanrrh. maður, sem ekki hefði sama áhuga á því eins og núv. hæstv. utanrrh. að gefa slíkar skýrslur. Ég tel það algerlega nauðsynlegt, að Alþ. fjalli um þessi mál á formlegan hátt, og ég sé ekki, að það verði tryggt með öðru móti en því, að það sé talinn sjálfsagður liður í störfum Alþ., að slík skýrsla sé gefin og rædd. Ég tel sem sé, að það sé sjálfsagt og mjög veigamikið atriði frá Alþ. séð, að ákvæði um þetta séu í l. um utanríkisþjónustu Íslands.

Í 2. gr. frv. okkar fólst önnur breyting. Hún var svo hljóðandi:

Ríkisstj. ákveður að fengnu samþykki Alþ., á hvaða stöðum skuli vera sendiráð.“

Breytingin er sem sagt fólgin í því, að borið skuli undir Alþ., hvar sendiráð séu. Nú tel ég, að þetta sé eitt þeirra viðfangsefna, sem eru einna nærtækust og á ýmsan hátt kannske erfiðust viðfangs, að endurskipuleggja alla sendiráðsþjónustu okkar erlendis.

Hæstv. ráðh. gat þess áðan, að við hefðum ekki tök á því að hafa nema takmarkaðan fjölda manna í þessum verkefnum, og hann greindi frá því, hvar þeir væru nú staddir í veröldinni. Frásögn hans sýndi, að langflestir þessir menn eru á tiltölulega litlum bletti í Evrópu. En það er enginn íslenzkur sendiherra með búsetu í Asíu, í Afríku eða í rómönsku Ameríku. Þetta er algerlega fráleitt ástand. Við getum hreinlega ekki komizt í eðlileg tengsl við gang heimsmála, ef við höfum ekki fulltrúa á þessum stöðum, þar sem mikill hluti mannkyns býr, og þar sem örlagaríkastar breytingar eru að gerast. Auk þess hygg ég, að það sé næsta öruggt, að í þessum heimshlutum geta okkur opnazt mjög mikilvæg viðskiptasambönd, ef við reynum að rækja þá hlið málsins, eins og nauðsynlegt er. Ég tel, að þetta sé svo veigamikið atriði, að það sé í sjálfu sér eðlilegt og sjálfsagt, að hæstv. ráðh. ræði þessi mál á Alþ. og leiti samþykkis Alþ. fyrir breytingum á þessari skipan.

Ég vildi minna á þessar till. okkar nú þegar við 1. umr., þó að mér hafi ekki unnizt tími til þess að leggja þær fram formlega sem brtt. Ég mun gera það og vildi mælast til þess við hv. allshn., að hún fjalli um þær brtt. ásamt sjálfu frv. og taki afstöðu til þeirra, svo að hægt sé að komast að niðurstöðu um þær við 2. umr. málsins.