23.10.1969
Neðri deild: 5. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2436)

34. mál, utanríkisþjónusta Íslands

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 45 brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir, eða nánar tiltekið við eina gr. þess, 11. gr. Grein þessi kveður á um heimild handa utanrrn. að skipa viðskiptafulltrúa, þar sem þess er talin þörf. Ég tel, að gr., eins og hún kemur hér fram í frv., sé of laus, marki ekki neina stefnu nógu ákveðið, og hef ég reynt í till. minni að kveða þar nokkuð fastara á um. Ég skal gera grein fyrir þeirri breytingu, sem ég legg til, að gerð verði á gr., en það er í fyrsta lagi, að í upphafi gr, segir:

„Auk þeirra starfsmanna utanríkisþjónustunnar, sem taldir eru í 10. gr., má skipa, þar sem þörf krefur, sérstaka viðskiptafulltrúa.“

Ég tel, að það eigi að vera ákveðið, að þar sem það að dómi viðkomandi rn., sem hagsmuna hafa að gæta í þessu sambandi og ber að gæta hagsmuna landsins í sambandi við utanríkisþjónustuna, þar sem þessir aðilar telja, að þörf sé á sérstökum viðskiptafulltrúum, þar skulu þeir skipaðir, annað hvort við þau sendiráð, sem þar kunna að vera eða þá með því að opna þar sérstakar skrifstofur slíkra aðila. Þetta er fært í till. þar sem segir: „Skal skipa, þar sem þörf krefur, sérstaka viðskiptafulltrúa.“ Þetta er fært til samræmis því, sem gert er í 4. gr. frv., en þar segir: „Sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og ræðismannsskrifstofur skulu staðsettar erlendis á þeim stöðum, þar sem slíkt er talið nauðsynlegt.“ Ég tel, að það sé eðlilegt, að það sé einnig þannig kveðið á um skipun viðskiptafulltrúa, þar sem viðkomandi rn. telur, að þörf sé á slíkum aðilum.

Þá er í frv. gert ráð fyrir, að þá fulltrúa, sem kunna að verða skipaðir, megi skipa til takmarkaðs tíma. Þetta er fellt út úr orðalagi gr., eins og ég legg til í till. minni, að hún verði samþ. Ég tel, að því verði ekki við komið og sé ekki eðlilegt að skipa viðskiptafulltrúa einhvern takmarkaðan tíma. Ef þörf er á viðskiptafulltrúa á einhverjum stað í einhverju landi, hljóti að vera þörf þar fyrir hann allt árið, og hann verði að vera fastur starfsmaður utanríkisþjónustunnar og beri því að vera þar skipaður sem fastur starfsmaður allt árið. Ég tel, að annað komi tæpast til greina og verði ekki að mínum dómi við komið eftir eðlilegum leiðum.

Þá gerir 11. gr. frv., eins og það liggur fyrir nú, ráð fyrir, að viðskiptafulltrúar skuli skipaðir í samráði við tiltekin hagsmunasamtök, og að þeir skuli launaðir a. m. k. að hálfu leyti af þessum aðilum. Ég tel þetta mjög óeðlilegt. Þetta eiga að vera óháðir viðskiptafulltrúar allra landsmanna, ekki bundnir af neinum sérstökum hagsmunasamtökum hér uppi á landi, heldur að gegna starfi sínu sem starfsmenn utanríkisþjónustunnar fyrir þá aðila, sem til þeirra leita og hafa alveg óbundnar hendur í sambandi við starf sitt. En það myndu þeir ekki hafa að mínum dómi, ef þeir væru háðir með launakjör sín einhverjum ákveðnum aðila hér uppi á Íslandi, þó að störf þeirra hljóti að sjálfsögðu í sumum tilfellum í einstaka löndum að beinast að miklu leyti inn á svið sérstakra hagsmunasamtaka. Á ég þar t. d. við sölu íslenzkra afurða, eins og á saltfiski í þeim löndum, sem eru helztu viðskiptalönd okkar í þeim efnum. Þar er um að ræða Ítalíu, Spán og Portúgal, en ég tel, að viðskiptafulltrúar, ef þeir verða skipaðir í þessum löndum, eigi að vera skipaðir sem starfsmenn utanríkisþjónustunnar og geta að sjálfsögðu látið hagsmunasamtökum, í þessu sambandi t. d. hagsmunasamtökum saltfisksútflytjenda, í té alla þá aðstoð og fyrirgreiðslu, sem aðstaða þeirra sem viðskiptafulltrúa í þessum löndum kæmi til með að leyfa. Af þessu leiðir, að ég hef einnig fellt út í till. minni það ákvæði, sem í 11. gr. er, um greiðslu launa þessara aðila. Og enn fremur leiðir af þessu, að ég hef einnig fellt í till. minni það ákvæði, sem er í niðurlagi 11. gr. um, að við viðskiptasamtök og stofnanir skuli haft samráð við ráðningu þessara fulltrúa. Ég tel, að ef utanrrn. telur, að þörf sé á viðskiptafulltrúa, annað hvort í sambandi við sendiráð okkar í einhverju tilgreindu landi eða löndum eða ef ráðun. telur eðlilegt, að opnuð sé skrifstofa viðskiptafulltrúa í einhverju landi, þar sem sendiherra á Íslandi hefur ekki búsetu, þá skuli þessir aðilar, eins og ég hef áður sagt, vera ráðnir starfsmenn utanríkisþjónustunnar, laun þeirra ákveðin, að því er ég tel eðlilegast af utanrrn. í samræmi við launakjör annarra aðila, sem starfa að þessum málum á erlendum vettvangi, og vera í engan stað háðir einum né neinum hér uppi á Íslandi, bæði í sambandi við ráðningu þeirra í starfann og eins í sambandi við greiðslu eða ákvörðun um laun og kjör fyrir störf erlendis. Ég vildi mælast til við þá hv. n., sem þetta frv. fær til meðferðar, að hún taki einnig til athugunar þá till., sem ég hef leyft mér að bera hér fram á þskj. 75 og ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir.