15.01.1970
Neðri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2445)

140. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn og gjaldheimta o.fl.

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þær ábendingar, sem fram komu hjá honum, og till. þær, sem fram eru settar og hann vitnaði til. Þær eru vissulega athygli verðar. N. tekur þessar ábendingar til athugunar eflaust samkv. venju. En það fléttast inn í þetta önnur stærri mál, sem þm. réttilega gerði grein fyrir að snerta ekki þetta mál, eins og hann vék að áðan, en ég vil minna á í því sambandi, að þegar rn. lagði fram hér á Alþ. skýrslu um dómsmálastörf fyrir 2–3 árum, þá var um leið af hálfu dómsmrh. skipuð dómsmálanefnd, sem átti að hafa það verkefni að athuga m. a. hugsanlega breytingu á lögsagnarumdæmunum í landinu og dómsmálakerfinu. Ég hef nú ekki heyrt neitt um það frá þeirri n. utan það, að ég veit, að það hefur verið rætt í n. og ekki verið eftir atvikum talin mikil ástæða til þess að breyta lögsagnarumdæmunum af þeirra manna hálfu, sem þar um fjalla, sérstaklega né dómsmálakerfinu. Nú þarf það ekki að þýða, að það væri ekki full ástæða til þess. Og þótt það væri ekki gert í stórum stíl í heild, þá kæmu sjálfsagt til athugunar minni háttar breytingar, sem eru meira framkvæmdaatriði, eins og hv. þm. vék að.

Í sambandi við lögreglustjórnina og sameiginlega rannsóknarlögreglu og stjórn rannsóknarlögreglumála á vissu svæði, eins og hv. þm. benti á hér í Reykjavík og í kringum Reykjavík, þá vaknar auðvitað sú spurning, sem nú hefur verið nokkuð til athugunar, hvort það bæri ekki að stefna að því, að öll lögreglan í landinu væri á vegum ríkisins og kostuð af ríkinu. Það snertir auðvitað skiptingu á kostnaðarliðum milli ríkis og sveitarfélaga og þýddi það, að yrðu það á viðkomandi svæðum lögreglustjórar, eins og verið hefur, sem stjórna lögreglunni, en sú lögregla er kostuð, eins og við vitum, af sveitarfélögum og ríki, háðum þessum aðilum. Á vissan hátt, held ég, að það gæti verið nokkuð til bóta, að löggæzlumenn í minni sveitarfélögum og kaupstöðum væru ekki á vegum sveitarfélaganna, eins og nú er, og hluti af kostnaði þeirra borgaður af ríkinu, heldur eingöngu á vegum ríkisins ásamt stjórn á embættismanninum, lögreglustjóranum, á viðkomandi stað. En þetta yrði að gera í einhverri endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og bæja. Ég hygg, að þetta gæti orðið nokkur framför, og þá á ég við, að með þessu móti mundi kannske verða meiri skipting á aðsetri löggæzlumanna. Þó að á einstökum stöðum lánist ákaflega vel að hafa vinsælan lögregluþjón, kunnan öllum í þorpinu, þá er á sumum stöðum einnig mjög erfið starfsaðstaða fyrir slíka menn, og slík náin kynni löggæzlunnar og borgaranna lukkast ekki alls staðar jafnvel. Fram hjá þeim erfiðleikum yrði t. d. komizt með því, að alls staðar væri ríkislögregla, og það væri með í ráðningarkjörum löggæzlumanna að láta þá fara á milli staða og dvelja á mismunandi tímum á mismunandi stöðum.

Fleiri orð skal ég svo ekki um þetta segja. Þetta eru allt atriði, sem vissulega þurfa að koma til athugunar, og þær ábendingar, sem hv. þm. kom með, eru einnig þess eðlis, að það gæti vel komið til álita að athuga alveg sérstaklega þær, sem snerta framkvæmdir þessa frv.