17.03.1970
Neðri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

182. mál, útvarpslög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þessu frv. til nýrra útvarpslaga, sem hér liggur fyrir, var útbýtt að mig minnir í gær, og er nú komið til umr. hér í hv. d. Ég vil láta í ljósi þá von, að þetta tákni ekki það, að það eigi að stuðla að því, að þetta frv. verði afgreitt með hraði hér á Alþ., eins og stundum hefur átt sér stað um vandasöm mál flutt af hæstv. ríkisstj., því að reynslan sýnir, að slíkt er ekki vænlegt til góðrar úrlausnar.

Það eru aðeins örfá orð, sem ég ætla að segja um þetta að öðru leyti. Það stendur í 1. gr. frv., að ríkisútvarpið eigi að vera sjálfstæð stofnun, í eign íslenzka ríkisins. Ég hefði nú kosið, að í grg. frv. og í framsöguræðu hefði því verið nánar lýst, hvað átt er við með þessum orðum „sjálfstæð stofnun“. Sjálfstæðið hlýtur eftir eðli málsins að verða nokkuð takmarkað, t. d. mun varla verða komið í veg fyrir það, þó að þetta frv. verði að lögum, að síðar verði gerð á Alþ. breyting á þeim l., ef mönnum sýnist svo.

En í sambandi við þetta ákvæði um sjálfstæðið, langar mig til að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. menntmrh. og hjá hv. þm., sem hér talaði síðast og á sæti í undirbúningsnefndinni, hvort ekki hafi komið neitt til orða í þeirri n. að breyta eða setja ákvæði um kjörgengi manna í útvarpsráð. Það er gert ráð fyrir, að Alþ. kjósi útvarpsráðið, eins og verið hefur, og mig langar til að spyrja um það, hvort ekki hafi komið fram neinar till. um kjörgengi manna í ráðið. En um þau atriði hefur nokkuð verið rætt manna á milli, að það þyrftu að vera einhverjar takmarkanir á kjörgengi manna í ráðið. Nú er ég ekki að láta í ljósi neina skoðun um það, að svo stöddu, hvað heppilegt sé í því efni, en mig langar til að spyrja um þetta, hvort það hafi ekki komið til orða, t. d. að ekki gætu átt sæti í útvarpsráði menn, sem taka mikinn þátt í deilum um opinber mál hér á landi og eru þar á öndverðum meiði.

Þá vildi ég spyrjast fyrir um það og óska svars við, ef það er til staðar, hvort orðið „tjáningarfrelsi“ í 3. gr. frv., eigi að vera sömu merkingar og orðið skoðanafrelsi, sem er í núgildandi útvarpslögum.

Loks vil ég svo taka undir það, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér áðan, að ég hefði kunnað betur við það, að ráðh. hefði ekki falið þessari ríkisstofnun, sem hér er um að ræða, að endurskoða l. um sjálfa sig á þann hátt, sem hér má segja, að gert hafi verið, þar sem meiri hl. n. eru yfirmenn úr sjálfu útvarpinu, en aðeins einn maður aðkominn. Ég er ekki viss um, að slíkt hafi áður verið talið heppilegt, en með því dreg ég ekki á neinn hátt í efa kunnugleika þessara manna á þessu efni, síður en svo. En mér finnst þetta vera réttmæt aths. hjá hv. 3. þm. Vesturl.

Ég er einn af þeim, sem hef talið athyglisverðar þær till., sem uppi hafa verið um að breyta innheimtu afnotagjaldanna, og þá fyrst og fremst í sparnaðarskyni. Mér hefur sýnzt, að það kynni að vera óþarft nú, að útvarpið sjálft ræki sérstaka stofnun til þess að annast þessa innheimtu, og að þessu mætti koma þannig fyrir, að innheimtumenn ríkisins önnuðust innheimtuna. En ég hef jafnframt látið mér skiljast, að til þess, að svo gæti orðið, þyrfti sennilega að breyta álagningu afnotagjaldanna, þannig að þau verði ekki lögð á alveg á sama hátt og nú er gert. Og ekki fæ ég nú séð, að það væri endilega nauðsynlegt, ef þarna væri um persónugjald að ræða, að leggja það á á sama hátt og almannatryggingagjaldið. Ég vil beina því til n. og taka undir það, sem hér hefur áður verið sagt, að hún athugi þessar till. gaumgæfilega, sem áður hafa verið uppi um breytingu á innheimtu gjaldsins, og þá fyrst og fremst þannig, að sparnaður mætti verða á þessum innheimturekstri. Sumar opinberar stofnanir eru farnar að fela bönkunum að hafa slíka starfsemi.

Um ákvæði frv., sem að því lúta að fela innheimtumanni útvarpsins fógetavald, þá verð ég að segja það, að mér brá nokkuð í brún, þegar ég sá þetta ákvæði, og fór að hugsa til ýmissa stofnana á vegum ríkisins, að þeim mundi þykja það hentugt við innheimtu, ef menn þeirra fengju fógetavald. Ég verð að svo stöddu að draga mjög í efa, að þetta sé fordæmi, sem rétt sé að gefa með löggjöf.