17.03.1970
Neðri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (2452)

182. mál, útvarpslög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Út af aths. hv. 1. þm. Norðurl. e. um innheimtu, skal ég með ánægju fullvissa hann um, að ég mun, ef málinu verður vísað til þeirrar n., sem ég á sæti í, eins og lagt hefur verið til, leggja á það ríka áherzlu, að það verði athugað enn einu sinni mjög vandlega, hvort rétt er að gerbreyta innheimtukerfinu. Er þá fyrst fyrir að líta á athuganir, sem gerðar voru af fjölmennum nefndum fyrir einum 2–3 árum síðan og fara síðan yfir allt það mál. Ég er honum sammála um, að það er mikið áhugamál allra aðila, að innheimta hjá ríkisútvarpinu verði eins ódýr og hægt er að hafa hana. En eitt af því, sem fram hefur komið í mörgum athugunum á þessum málum og mér hefur verið frá sagt, er, að Gjaldheimtan í Reykjavík treysti sér ekki til að ábyrgjast sömu innheimtuprósentu og útvarpið fær sjálft fyrir sambærilegan kostnað.

Ég vil biðja menn að athuga vel fógetavaldið, sem þegar er komið á laggirnar, hvað snertir hálfa þjóðina, en ég vil benda á eitt atriði, sem er sérstakt varðandi sjónvarpstæki. Það er sama á hvaða sviði maður lendir í vanskilum. Ef það á að gera eitthvað upptækt hjá honum, þá er alltaf byrjað á sjónvarpstækinu. Þetta er af þeirri augljósu ástæðu, að það virðist vera það húsgagn, sem fólk vill sízt án vera. Í þessu felst ekki eingöngu það, að það sé verið að veita ríkisútvarpinu sérréttindi, heldur hitt, að því er þarna gefið tækifæri til að verja sjálft sig fyrir ásókn annarra.

Hv. þm. vildi fá frekari skýringar á því, hvað það þýddi að tala um, að ríkisútvarpið yrði sjálfstæð stofnun í eign íslenzka ríkisins. Ég hygg, að það hafi komið skýrt í ljós í ræðu hæstv. menntmrh. Að sjálfsögðu verður slík stofnun að lúta yfirstjórn ráðherra, hvað stjórnun og rekstur hennar snertir, en ástæðan til þess, að það er talað sérstaklega um sjálfstæði í slíkri stofnun, er, að hin pólitísku völd á hverjum tíma hafi ekki sams konar ráð yfir henni, hvað efni dagskrár snertir. Alþ. setur almennar reglur um efnisflutning ríkisútvarpsins, en það er á því sviði, sem sjálfstæðið á að koma fram. Þess vegna er því slegið föstu í þessu frv., sem hefur verið lagaregla, viðurkennd af þekktustu lögfræðingum okkar, t. d. Ólafi Jóhannessyni, að í reynd væri svo, að ríkisstj. gæti hlutazt til um ýmislegt varðandi fjármál og rekstur ríkisútvarpsins sem annarra stofnana, en ekki dagskrárefnið. Um þetta eru fyrirmyndir í nálægum löndum, sem við höfum lært mikið af, og satt að segja get ég játað, að orðalagið er mjög svipað því, sem notað er, t. d. um danska og norska útvarpið. Sænska útvarpið er aftur á móti hlutafélag með mjög sérstöku móti, og brezka útvarpið lýtur sérstökum l., en það mætti nefna fjöldamörg dæmi um þessa fyrirsögn.

Hv. þm. spurði, hvort orðið tjáningarfrelsi ætti að þýða það sama og skoðanafrelsi. Það er ekki alveg það sama. Við athugun fannst n., að ríkisútvarpinu kæmi við, hvort menn hefðu frelsi til að tjá sig eða ekki, en ekki hvaða skoðanir þeir hefðu. Ég veit ekki, hvort menn sjá muninn á þessu, en hann er samt sem áður fyrir hendi.

Að lokum vil ég nefna þá spurningu hv. þm., hvort fjallað hafi verið um kjörgengi í útvarpsráð. Það var sannarlega gert, og var mikið um það rætt. Á því eru ýmsar hliðar. Það var t. d. rætt um, hvort starfsmenn ríkisútvarpsins eigi að geta verið í útvarpsráði. Þetta er vandamál í mörgum opinberum fyrirtækjum, sem nú kemur víða upp, hvort sami maður getur verið undirmaður stjórnenda fyrirtækisins og líka yfirmaður þeirra. Hins vegar átti hv. þm. við þá gagnrýni, sem verið hefur á útvarpsráði fyrir að vera skipað mönnum, sem væru allt of nátengdir stjórnmálaflokkum. Það var athuguð löggjöf um skipan útvarpsráða í fjöldamörgum öðrum löndum, og það var líka farið vandlega yfir þær breytingar, sem hafa orðið á skipun útvarpsráðs hér á landi. Í öðrum löndum er algengast — og á þá við þau Vestur-Evrópulönd, sem eru okkur nálægust — að útvarpsráð eða sambærilegar stofnanir séu skipaðar ýmist af þjóðþingum eða ríkisstjórnum. Það eru enn örfá dæmi til um, að háskólum er ætlað að skipa einn og einn útvarpsráðsmann. Í hlutafélaginu, sem myndað var um sænska útvarpið, eru alþýðuhreyfingarnar aðili, samvinnuhreyfingin og verkalýðshreyfingin fyrst og fremst, og þar eru dagblöðin aðili. En þrátt fyrir þessa aðild, er öllu þannig fyrir komið, að það er sænska ríkisstjórnin, sem hefur töglin og hagldirnar. Hún hefur tryggt sér þar meiri hl. Í landi eins og Austurríki er þessu tvennu mjög blandað saman. Það eru að vísu mörg ráð, sem gegna því starfi, sem útvarpsráð hefur hér, og í einu valdamiklu dagskráratriði er beinlínis fyrirskipað, að svo og svo margir menn skuli vera pólitískir frá flokkunum, og svo og svo margir skuli ekki vera pólitískir, og það þýðir, að þeir mega ekki hafa verið á þingi, á fylkisþingi eða í bæjarstjórn, ég held í 5 ár, áður en þeir eru skipaðir í þetta embætti. Í Austurríki má maður, sem skipaður er útvarpsstjóri, ekki hafa verið alþm., fylkisþingmaður eða bæjarstjórnarmaður í 5 ár á undan, en þetta er nú næst hlutlausasta landið í allri álfunni, svo að það getur verið, að þeir gangi lengra en allir aðrir.

Ef litið er á okkar eigin reynslu í þessum málum, þá er rétt að minnast þess, að við byrjuðum á því að reyna að láta ýmsa aðila þjóðfélagsins skipa í útvarpsráð. Það voru teknir menn frá Háskólanum og svo 1930 var bætt inn fulltrúum frá kennurum og fulltrúa frá prestastéttinni, en þetta þótti ekki gefast vel. Hvar átti slíkt kerfi að enda? Hvaða stéttir og hópar úr þjóðfélaginu áttu að fá fulltrúa og hverjir ekki? Þetta kerfi var því afnumið 1934, á mjög eftirminnilegan hátt. Þá var tekið upp hér á landi það kerfi, að helmingur útvarpsráðsmanna, að oddamanni undanskildum, skyldi vera kosinn á Alþ. og hinn helmingurinn kosinn af hlustendum í beinum, almennum útvarpsráðskosningum. Vorið 1935 fóru slíkar kosningar fram hér, þannig að 10 þús. hlustendur gengu að kjörborðinu og kusu um 3 lista eftir spennandi kosningabaráttu. Síðan skipaði menntmrh. oddamanninn, sem var Sigfús Sigurhjartarson, og þetta 7 manna útvarpsráð sat síðan til 1939. En reynslan virðist hafa verið sú, að það var á mjög hljóðlátan hátt og eftir litlar umr. hér á Alþ. breytt þessu kerfi í það einfalda kerfi, sem við höfum haft síðan, að Alþ. skuli kjósa útvarpsráðsmenn alla. Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að þetta sé farsælasta skipunin og það þýði ekki að segja Alþ. fyrir verkum um, hvers konar menn það megi kjósa. Ég vona, að við lærum það með tímanum að finna menn og kjósa í þetta ráð, eins og önnur, sem þjóðin getur treyst og treystir.