17.03.1970
Neðri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (2454)

182. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Mig langaði aðeins til að bæta örfáum orðum við þær umr., sem hér hafa fram farið um innheimtu afnotagjaldanna, og með hverjum hætti henni skuli hagað. Síðan ég tók við forstöðu menntmrn., hefur tvisvar sinnum á vegum þess verið efnt til mjög ítarlegra athugana á því, hvaða innheimtuform sé heppilegast á greiðslu afnotagjalda hljóðvarpsins. Báðar athuganirnar fóru fram, áður en sjónvarp kom til skjalanna, og ég veit ekki betur en í sambandi við flutning frv. um þetta mál í hv. Ed. fyrir skömmu, hafi einnig verið efnt til athugunar á því, hvaða fyrirkomulag í þessum efnum væri hentugast. Ég man vel niðurstöðu þeirra athugana, sem menntmrn. efndi til á sinum tíma, og hún varð sú í bæði skiptin, að nefskattur væri að ýmsu leyti ranglátur. Það mætti benda á mjög skýr dæmi þess, að nefskattur í stað gjalds fyrir ákveðið tæki, gæti komið mjög illa niður, og þá alveg sérstaklega á þeim, sem byggju í dreifbýli. Það voru fyrst og fremst forsvarsmenn dreifbýlisins, þ. e. a. s. menn, sem töldu sig vilja bera hag fólks þar fyrir brjósti, sem töldu að nefskattshugmyndin hefði þvílíka galla í för með sér, að hana ætti ekki að taka upp. Því fer ekki víðs fjarri, að útvarp hafi verið, þegar báðar athuganirnar voru gerðar, á svo að segja hverju heimili í þéttbýli, í kaupstöðum og kauptúnum, en mikill misbrestur var á, að útvarpstæki væri á hverju heimili í dreifbýli, svo að skiptingin hefði, svo að auðvelt var að sýna fram á miklu meiri fjölda manns, heldur en við höfum satt að segja áður haldið, að um væri að ræða, sem yrði að greiða nefskatt vegna afnotaréttar af hljóðvarpstæki, sem fólkið hafði alls ekki.

Meginsjónarmiðið varðandi bílaskattinn er það, sem hv. 5. þm. Vesturl. lét getið áðan, að menn hafi ekki treyst sér til þess að afnema skattinn á tækjunum í bifreiðunum vegna þess að þeim tekjum, sem þá töpuðust, hefði orðið að jafna niður á hljóðvarpsgjald allra annarra, og það er breyting, sem menn töldu bitna óþarflega hart á tekjulágu og gömlu fólki, en vera í þágu manna, sem augljóst væri, að væru meðal hinna tekjuhærri í þjóðfélaginu. Þetta er ástæðan fyrir því, að ekki hefur verið efnt til þeirrar breytingar. En á síðustu árum er komið til atriði, sem var raunar meiningin með þessum fáu orðum að vekja athygli á, sem gerir rökin gegn nefskatti miklu sterkari en þau hafa nokkru sinni verið fyrr, burt séð frá þeim atriðum, sem hv. 5. þm. Vesturl. og ég höfum nú verið að nefna, en það er það, að engum dettur í hug að hægt sé að innheimta sjónvarpsafnotagjaldið sem nefgjald. Um það hefur engin till. komið fram, svo að ég viti. Ástæðan er einfaldlega sú, að þó að sjónvarpið nái nú til um 85–90% landsmanna, eru samt sem áður svo mörg heimili enn, sem eru sjónvarpslaus, sérstaklega í dreifbýlinu, að augljóst ranglæti væri að ætla sér að innheimta sjónvarpsafnotagjaldið sem nefskatt. Þetta veldur því, að ríkisútvarpið þarf, hvort eð er, að hafa innheimtustarfsemi vegna sjónvarpsins. Það þarf að hafa spjaldskrá yfir alla sjónvarpsnotendur, og þá munar satt að segja mjög litlu í kostnaði, þó að sú spjaldskrá sé líka látin taka til hljóðvarpsnotenda. Sá kostnaðarauki eða sá sparnaður, sem útvarpið mundi geta efnt til með því að losna við innheimtu hljóðvarpsgjaldsins af hverju töldu tæki, yrði áreiðanlega ekki meiri en sá kostnaðarauki, sem hin almenna ríkisinnheimta skatta mundi verða fyrir við það að taka að sér innheimtu hljóðvarpsgjaldsins sem nefskatts. Þessi breyting, sem hefur verið að verða á málefnum útvarpsins undanfarin 2–3 ár með tilkomu sjónvarpsins, hefur eiginlega breytt þessu máli mjög verulega frá því, sem var fyrir 3–10 árum, þegar hvað eftir annað var rætt um þetta, svo að niðurstaðan hefur alltaf orðið sú, eins og oft hefur komið fram, að að vandlega athuguðu máli hefur nefskattsleiðin ekki verið talin í réttlætisátt. Hitt er annað mál, og ég fyrir mitt leyti skal síður en svo hafa á móti því, að þetta mál sé tekið enn einu sinni vandlega til athugunar hér á hinu háa Alþ. einmitt í sambandi við þetta frv. Ég tel, að það mundi hreinsa loftið, og ég er persónulega þeirrar skoðunar, að menn muni sannfærast um það við nánari athugun á málinu að nefskattur yrði ekki til bóta.

Það er sérstakt vandamál, sem hv. þm., Halldór E. Sigurðsson, hefur verið að vekja athygli á, og það er rétt hjá honum, að það er um tvísköttun að ræða á þeim, sem bæði hafa hljóðvarp á heimili sínu og í bifreið sinni. En rökin gegn því að breyta þessu eru þau, sem ég nefndi áðan, að hér er um að ræða viss tekjujöfnunarsjónarmið, sem núgildandi regla helgast af, og ég býst við því, að það muni verða niðurstaða hv. alþm. við grandskoðun á málinu, að það sé rétt að halda því tekjujöfnunarsjónarmiði, sem mótað hefur framkvæmdina fram að þessu. En ég endurtek, að ég tel það beinlínis æskilegt, að sú hv. þn., sem um málið fjallar, taki þetta mál enn einu sinni til rækilegrar skoðunar og láti þingheimi í ljós niðurstöður sínar í þessu efni.