24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2462)

232. mál, námslán og námsstyrkir

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þetta frv. gerir þá eina breytingu á l. um námslán og námsstyrki að heimila, að nemendur í framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri skuli eiga kost á lánum og styrkjum. Það er talið, að nemendur í framhaldsdeild Bændaskólans, sem munu vera milli 10–15 talsins, séu algerlega sambærilegir við þá í Tækniskóla Íslands, sem áður hafa fengið slík réttindi. Hér er um mjög litla breytingu að ræða, en þó mjög þýðingarmikla fyrir þessa fáu nemendur í Bændaskólanum, sem um er að ræða, og ég vil láta í ljós þá von, að þetta litla frv. geti fengið afgreiðslu, þó að það sé seint fram komið.