25.04.1970
Neðri deild: 82. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (2467)

232. mál, námslán og námsstyrkir

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, var ég ekki á þeim nefndarfundi menntmn. Nd., sem fjallaði um þetta frv. Ég er í sjálfu sér samþykkur þeirri breytingu, sem í frv. felst. Hins vegar finnst mér vera ákaflega erfitt fyrir Alþ. að gera breyt. á l. um námslán og námsstyrki án þess að taka þar nokkurt tillit til þess alvarlega ástands, sem nú er í þeim málum, bæði hjá námsmönnum innanlands og Íslendingum, sem stunda nám erlendis. Námsmenn hafa verið að minna á þetta alvarlega ástand nú að undanförnu á mjög eftirminnilegan hátt, og ég held, að við getum ekki afgr. þau vanbúnir með einhvers konar fordæmingu á aðferðum, sem okkur fellur ekki við — hér er um miklu alvarlegra mál að ræða. Það er undirrótin, það er ástandið, sem veldur þessum mótmælum og við þurfum að skoða. Ég vil minna á það, að þegar l. um námslán og námsstyrki voru samþ. 1967, var ætlunin sú, að lánasjóðurinn ætti að tryggja námsmönnum svo miklar greiðslur árlega, að þær nægðu til viðbótar við þær tekjur, sem námsmaðurinn aflaði sér sjálfur. Í 2. gr. l. er þetta orðað svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stefnt skal að því, að opinber aðstoð við námsmenn samkv. l. þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af árlegum námskostnaði, þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til aðstöðu hans til fjáröflunar.“

Sem sagt: stefnan er sú, að sjóðurinn eigi að geta fullnægt þessu hlutverki. En orðalagið er svona almennt, „stefnt skal að því“, og þá er að sjálfsögðu framkvæmdin í höndum ríkisstj. Þess vegna flyt ég hér ásamt hv. alþm., Þórarni Þórarinssyni, brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir. Við leggjum til að á eftir 1. gr. l. komi ný gr. svohljóðandi:

2. gr. l. orðist svo:

„Stefnt skal að því, að opinber aðstoð við námsmenn samkv. l. þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af árlegum námskostnaði, þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til aðstöðu hans til fjáröflunar. Skal ríkisstj. hlutast til um það, að gerð verði áætlun fyrir haustið 1970, sem feli í sér verulega aukningu á lánum og styrkjum til námsfólks, og verði það við það miðað, að frá og með námsárinu 1974–1975 verði unnt að fullnægja allri fjárþörf námsmanna umfram eigin tekjur þeirra.“

Þarna er sem sagt lagt til, að þessi skuldbinding verði felld inn í l., og að hæstv. ríkisstj. verði falið að vinna þetta verk. Og eins og ég sagði áðan, er þarna ekki um að ræða neinn nýjan tilgang. Þessi tilgangur var í l. í upphafi, og það er aðeins verið að tímasetja þetta, einmitt í samræmi við þær óskir, sem námsmenn hafa borið fram og mér finnst vera fullkomlega eðlilegar. Þessi brtt. er síðbúin hjá mér, og ég vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.