15.12.1969
Efri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Frsm. minni hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Það er ekki ástæða fyrir mig að ræða þetta mál mikið. Það er náttúrlega fullljóst, hver eru meginatriði þess. Ég hef ekki séð þessa umsögn sýslumanns Norður-Múlasýslu, sem hv. frsm. meiri hl. er að tala um, en ég efast ekki um, að hann hafi hana rétt eftir. Ég veit ekki, hvort hún er úr bréfi eða símtali. Hins vegar hef ég átt tal við þennan kollega minn og spurt hann að því, hvort það hafi ekki verið hrein gleymska, að þeir skyldu ekki í sýslunefndinni 3. júlí, þegar þeir gáfu sína umsögn að öðru leyti, hafa tekið fram, hver væri þeirra vilji — hvort það væri ósk þeirra, að hreppurinn með öllu, sem honum tilheyrir, færi yfir til kaupstaðarins, ef hann héldist innan marka sýslunnar. Hann sagði, að þetta hefði verið hálfleiðinleg gleymska og hefði náttúrlega átt að taka þetta fram af hálfu sýslunefndar. Hér er alveg ákveðið prinsipmál.

Spurningin er því, hvort viðkomandi sýslunefnd á að fá tækifæri til þess að segja álit sitt, þegar breyta á í meginatriðum mörkum sýslunnar. Við í minni hl. teljum, að svo eigi að vera, og höldum okkur fast við það og teljum, að þessu máli liggi ekki meira á en svo, að það megi leita álits sýslunefndarinnar, jafnvel þurfi ekki að halda sýslufund um þetta. Ef n. hefði skrifað sýslumanni og óskað eftir því, að hann héldi aukafund eða næði tali af sýslunefndarmönnunum um þetta atriði, þá er ég viss um, að slíkt álit kæmi þegar.

Að öðru leyti þykir mér ekki rétt að vera að eyða tíma d., frekar en orðið er, í málið, og ég er viss um það, að hv. dm. er málið vel ljóst, þannig að óhætt er að ganga strax til atkvgr. Við í minni hl. leggjum kapp á það, að umsögn sýslunefndarinnar liggi fyrir og teljum það afgerandi og enga ástæðu til þess að ganga fram hjá sýslunefndinni að því leyti.