15.12.1969
Efri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (2478)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er eitt atriði í þessu máli, sem mig langar til að spyrja um og fá nákvæmar en mér fannst það koma fram. Hér er um spurningu að tefla um breytingu á mörkum sveitarfélaga. Nú held ég, að það sé alveg algild regla frá upphafi, að sveitarstjórnarumdæmi hafi verið samfelld. En mér sýnist og skilst af því, sem sagt var hér, að það sé með þessu frv. stefnt að því, að leggja land og hrepp undir kaupstað, en þó þannig, að á milli þess hrepps og kaupstaðar sé annar hreppur. Ég skal ekkert segja um það út af fyrir sig, hvort þetta er eðlilegt eða óeðlilegt. En ég held að það sé óhætt að segja, að þetta væri algert nýmæli í íslenzkri sveitarstjórnarlöggjöf. Ég vænti þess, að n. hafi íhugað þetta atriði og gert sér grein fyrir því, til hvers það mundi leiða, ef sveitarstjórnarumdæmi — við skulum segja eins og kaupstaðir — færu að afla sér svona ítaka hér og þar. Mér finnst, að þetta megi athuga, og ég heyrði ekki, að það kæmi neitt sérstaklega fram um þetta atriði. Ég efa það ekki, að n. hafi hugleitt það, og ég vildi gjarnan fá nánari grg. hennar um það, og hvort hún er þeirrar skoðunar, að það séu engir agnúar á því að taka upp nýja skipan að þessu leyti.

Nú vitum við það, því miður, að það eru fleiri sveitarfélög en þetta, sem eru fámenn. Og við vitum, að það er nú stefnt að sameiningu sveitarfélaga. En ég hef skilið þá stefnu, sem í því frv. er, þannig, að það ætti ekki að hverfa frá hinni eldri stefnu um það, að sveitarstjórnarumdæmin ættu að vera samfelld. Ef horfið er að þessu ráði, sem þarna er gert ráð fyrir, sýnist mér, að það gæti vel komið til greina, að það vildu aðrir fylgja á eftir því í svipað far, þegar svo stendur á, að það þarf að leggja niður fámennt sveitarfélag. Þegar svo stendur á, hefur það alltaf verið í mínum huga sjálfsögð regla, að það sveitarfélag ætti að leggjast til næsta sveitarfélags landfræðilega séð og alveg án tillits til þess, ef í eindaga er komið, hvað vilja um það efni líður, því að þá verður löggjafinn auðvitað að láta málið til sín taka.