15.12.1969
Efri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í tilefni af orðum hv. 1. þm. Norðurl. v., get ég verið honum í verulegum atriðum sammála, að það sé óeðlilegt, að sveitarfélag sé klofið sundur landfræðilega í tvennt eins og þetta nýja sveitarfélag, eða m. ö. o. að það séu sameinuð tvö sveitarfélög, sem eiga ekki landamörk saman. Að vísu eru kannske fleiri tilfelli á döfinni eins og Húsavík og Flatey á Skjálfanda, þó að auðvitað verði það ekki sambærilegt, af því að þar er um eyju að ræða. En það, sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á í sambandi við þetta tiltekna mál hér, er í fyrsta lagi, að það er ákaflega brýn nauðsyn að ráðstafa Loðmundarfjarðarhreppi, þar sem hann er að verða íbúalaus. Í öðru lagi, að þau hreppsfélög, sem eiga landamerki að honum, vilja ekki við honum taka. Það er auðvitað hugsanlegt, að menn hefðu valið Seyðisfjörð, enda þótt nágrannahrepparnir hefðu sýnt meiri áhuga. En það, sem í mínum huga er nú aðalatriðið í þessu, er, að sá hreppur, sem þarna er á milli, Seyðisfjarðarhreppur, er mjög fámennur. Þar eru bara 47 íbúar, og ef þetta frv., sem nú liggur fyrir Alþ. um sameiningu sveitarfélaga, verður að lögum, sem við skulum ekki fullyrða fyrirfram, þá er tiltölulega einfaldur hlutur að sameina hreppinn Seyðisfjarðarkaupstað. Það er fyrst og fremst þess vegna, sem í mínum huga er, af því að ég tel, að innan tíðar muni þessi litli hreppur, sem þarna er á milli, sameinast Seyðisfjarðarkaupstað, og þá verði úr þessu bætt. Þannig að þetta yrði einungis tímabundið fyrirbrigði, að Loðmundarfjörður og Seyðisfjörður væru eitt sveitarfélag, en þó landfræðilega aðskilin, enda er ég í grundvallaratriðum sammála hv. 1. þm. Norðurl. v. um það, að slík framkvæmd sveitarstjórnarmála er með nýrri skipan og hefur ýmsa annmarka og er ekki til fyrirmyndar til frambúðar.