13.01.1970
Efri deild: 33. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (2484)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni um það, að ég get fallizt efnislega á þá brtt., sem hér liggur fyrir. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs voru hins vegar þau orð, sem hv. 2. þm. Austf. lét falla um það, að það væri óeðlilegt og einsdæmi, að sveitarfélag væri ekki ein samfelld heild. Ég var nú ekki með Seyðisfjarðarhrepp í huga, ég er með annað, sem er miklu, miklu nærtækara okkur en það. Það er Kópavogskaupstaður. Jörðin Lækjarbotnar tilheyrir Kópavogskaupstað, en er algerlega slitin úr tengslum við annað land þess sveitarfélags og lögsagnarumdæmis, Kópavogs, vegna jarðarkaupa fyrr á árum af hálfu Reykjavíkurborgar úr Seltjarnarneshreppi hinum forna og vegna laga, sem Alþ. sjálft samþykkti á sínum tíma vegna Heiðmerkurinnar, þannig að lögsagnarumdæmi Kópavogskaupstaðar er klofið í tvennt af þessum sökum. Ég vildi aðeins skjóta þessu hérna fram, það geta verið fleiri dæmi þessu lík, en ég var með þetta í huga, þannig að það er ekki einsdæmi, þó að einhvers staðar væri stofnað til þessa annars staðar á landinu, að svona hittist á.