07.04.1970
Neðri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (2494)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þetta virðist ætla að verða eitthvað flóknara mál en við höfðum gert okkur grein fyrir í heilbr.- og félmn., þegar við afgr. málið þar. Okkur fannst þetta liggja ákaflega ljóst fyrir, og ég vil taka það fram, að ég hef síður en svo nokkuð við það að athuga, að málið verði ekki endanlega afgr. úr þinginu, fyrr en álit sýslunefndar N.-Múlasýslu liggur fyrir, þó að ég hins vegar telji það eðlilegt, að það verði afgr. hér við 2. umr., eins og lagt hefur verið til í nál. meiri hl. Það skal þó á það bent, að eins og frsm. meiri hl. n. réttilega benti á, hefur sýslunefnd N.- Múlasýslu vissulega haft málið til meðferðar hjá sér og mælir með því, eins og fram kemur í aths. við frv., að þetta sveitarfélag verði sameinað öðru sveitarfélagi. Ég geri alveg ráð fyrir því, að í þeim umr., sem hafa orðið í sýslunefndinni hafi komið til greina, hvaða sveitarfélagi þessir hreppar ættu að sameinast, en einhvern veginn er það svo, að sýslunefndin hefur ekki séð ástæðu til þess að marka þar neina stefnu. Það má vera, að hún hafi ekki óskað að blanda sér í málið að því leyti, a. m. k. kemur það þar fram, að hún hefur ekki markað þar neina stefnu né sett fram neitt sjónarmið um, hvaða sveitarfélögum hún teldi eðlilegast, að þetta sveitarfélag yrði sameinað.

Þær umræður, sem hér hafa orðið og ábendingar, sem fram hafa komið, hljóta að koma til athugunar í sambandi við þau mál önnur, sem nú liggja fyrir þessari hv. d., þ. e. stjfrv. um sameiningu sveitarfélaga og einnig frv., sem hér hefur verið borið fram af hv. 9. landsk. þm.; um stækkun lögsagnarumdæmis Húsavíkurkaupstaðar. Í því frv. er gert ráð fyrir, að Flatey í Flateyjarhreppi verði lögð undir lögsagnarumdæmi Húsavíkurkaupstaðar. Nú liggur það einnig fyrir, að sýslunefndin, sem þessi hreppur heyrir undir, er því andvíg, að þessi hluti Flateyjarhrepps verði lagður undir Húsavík, enda þótt enginn íbúi sé í Flatey í dag. Þegar svo er komið, að það mætir andstöðu hjá sýslunefndum og kostar nokkrar umr. hér á Alþ. að sameina hreppa eða sveitarfélög, hvað verður þá með hið stóra mál, að stefna að því að stækka sveitarfélögin, þó að ekki sé farið lengra í því máli en að þar komi til greina sameining á öðrum sveitarfélögum en þeim, sem hafa færri en 50 íbúa. Ég held, að Alþ. verði að marka sér ákveðna stefnu í þessu máli. Það þýðir ekki að láta ráðamenn einstakra sveitarfélaga eða einstakar sýslunefndir marka stefnuna. Ég tel, að Alþ. sjálft verði að taka einu sinni af skarið í þessum málum og afgreiða málið eftir því, sem rök mæla með, að eðlilegast sé, að það sé afgr. Ég vildi benda á þetta hér í sambandi við þessa umræðu, að fyrir hv. heilbr.og félmn. liggja þessi tvö frv. einnig, sem ég ætlast til, að n. afgreiði nú á þessu þingi, og þá kemur vissulega til þess, að þingið verði að marka einhverja ákveðna stefnu, en ekki endilega að fara eftir umsögnum manna, sem þarna munu kannske standa næst, því það er vitað, að þetta er mjög viðkvæmt mál og mikið sárindamál í einstökum sveitarfélögum, hvernig með sveitarfélög fer. Þegar svo er komið, að einn íbúi er orðinn í sveitarfélagi og enginn í öðru, og frv. liggur fyrir þinginu að sameina þau öðrum, þá hélt ég nú satt að segja, að það væri full ástæða til þess að afgreiða slík mál.