21.04.1970
Efri deild: 75. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (2513)

226. mál, ríkisreikningurinn 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um samþ. á ríkisreikningnum fyrir árið 1968, er nokkuð síðbúið, þannig að það er vitanlega naumast hægt að ætlast til þess með neinni sanngirni, að hið háa Alþ. geti endanlega afgr. reikninginn nú, áður en þingi lýkur, þó að auðvitað væri það æskilegast. En ég legg það að sjálfsögðu á vald þessarar hv. d. eða fjhn. hennar, hvað hægt er að gera í því efni. En ástæðan til þess, að frv. er svo seint á ferðinni, sem raun ber vitni, er eingöngu sú, að þetta er fyrsti ríkisreikningurinn, sem saminn er eftir hinum nýju l. um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Þessi reikningur hefur því krafizt mjög mikillar frumvinnu, sem leiðir af breytingu á reikningunum, og þessi frumvinna, sem stafar af þessum víðtæku breytingum, hefur leitt til þess, að í þetta skipti hefur ekki verið auðið, þrátt fyrir mjög mikið álag á ríkisbókhaldinu, að ljúka reikningunum fyrr en þetta. Það er raunar nokkuð síðan reikningunum er lokið, en hins vegar hafa yfirskoðunarmenn aldrei talið mögulegt að fara að vinna í alvöru að endurskoðun reikningsins, fyrr en hann lægi nokkurn veginn fyrir. Eins og hv. þm. sjá, þá eru aths. dagsettar 12. marz, þannig að það hefur verið unnið af kappi að því að ljúka aths. og svörum við þeim, vegna þess að svörum var safnað mjög skjótlega, og síðan hafa yfirendurskoðunarmenn lokið úrskurðum sínum 9. apríl.

En með hliðsjón af því, að hér er um jafnveigamiklar breyt. að ræða og raun ber vitni um, þá þykir mér rétt að gera hv. þd. nokkra yfirlitsgrein fyrir því, hvað felst í þeim breytingum, sem hér er um að ræða. En til þess að gera einnig grein fyrir því, hversu veigamiklar þessar breytingar eru fyrir framtíðina, þá er rétt að taka það fram, að ef tekizt hefði að fá skil frá öllum ríkisstofnunum og fyrirtækjum nægilega snemma árs, þá hefur þessi breyt. þau áhrif til bóta í framtíðinni, að auðið yrði innan tveggja vikna að ljúka algerlega reikningnum fyrir árið 1969, þannig að í framtíðinni má vænta þess, að það verði hægt að ljúka reikningnum mjög fljótlega, eftir að reikningsári lýkur.

L. um ríkisbókhald og gerð ríkisreiknings og fjárl. voru sett samkvæmt sérstöku markmiði, sem mótað er í þessari löggjöf, en þar segir, að fjárlög og ríkisreikningur verði þannig úr garði gerð, að þau þjóni bezt þörfum fjárveitingarvalds og fjármálastjórnar, almennrar stjórnsýslu og hagstjórnar, þjóðhagsreikninga og hagskýrslugerðar yfirleitt. Jafnframt sé stefnt að því, að reikningskerfið sé svo einfalt og aðgengilegt, sem unnt er miðað við þann tilgang, sem því er settur. Enn fremur er að því stefnt, að meiri festa skapist en verið hefur í skráningum á fjárreiðum ríkisins og meira samræmi verði á milli reikninga ríkisins og ríkisfyrirtækja innbyrðis.

L. sjálf um gerð ríkisreikninga beindust að þessu markmiði, og af því leiðir algera umbyltingu ríkisreiknings saman borið við reikninga fyrri ára, bæði að því er varðar efni og form. Efnisbreytingum á reikningnum frá eldri reikningum, má skipta í efnisbreytingar almenns eðlis og efnisbreytingar, sem aðallega eru bókhalds eðlis. Sú almenna efnisbreyting, sem mestu máli skiptir, er fólgin í því, hversu reikningur ársins 1968 tekur mun stærri hluta af rekstri ríkisins en reikningar fyrri ára. Sú hneigð hafði verið áberandi og vaxandi á undanförnum árum og áratugum, að ýmis starfsemi ríkisins, einstakir tekjustofnar og ráðstöfun þeirra var ekki tekið inn í fjárlög. Í ríkisreikningi hefur ávallt verið gerð grein fyrir innheimtu og ráðstöfun flestra þeirra tekjustofna, sem renna til ákveðinna aðila að undanteknum tekjustofnum Tryggingastofnunar ríkisins. Hins vegar hefur í flestum tilvikum ekki verið gerð grein fyrir starfsemi þessara aðila, þótt hún tilheyri ríkinu. Nú eru þessar tekjur felldar inn í aðalrekstrarreikning og gerð grein fyrir flestum ársreikningum, og efnahags- og rekstursreikningum þeirra, er njóta mörkuðu teknanna. Þannig gefur reikningurinn tölulega heildarmynd af öllum rekstri ríkisins, eins og hann var árið 1968, með þeim fáu undantekningum, sem áðurnefnd l. gera ráð fyrir, þar eð hreinar lánastofnanir ríkisins, ríkisbankar, stofnlánasjóðir atvinnuveganna og fleiri, eru ekki inni í reikningunum, og svo er ekki heldur um fáein fyrirtæki, sem ekki hafa skilað reikningum. Sama eðlis er sú breyting á eldri reikningi að markaðir tekjustofnar, sem með l. er ráðstafað til tiltekinna þarfa, eru teknir í reikninginn meðal tekna og gjalda. Þannig má fullyrða, að í ríkisreikningi þessum gefist Alþ. heildarsýn yfir rekstur ríkisins, sem það hefur ekki átt kost á í eldri gerð reiknings. Um grg. fyrir þessari breytingu að öðru leyti má vísa til grg. með frv. til fjárl. fyrir árið 1968, sem lagt var fyrir Alþ. í október 1967, en þar var gerð ítarleg grein fyrir því, hvaða áhrif þessi nýja skipan hefði á uppsetningu fjárlagafrv.

Mikið er um efnisbreytingar í reikningunum, sem kalla má bókhaldslegs eðlis. Er álitamál, hversu langt má fara út í grg. með þeim breyt. á þessum vettvangi, en hv. n. getur að sjálfsögðu, eftir því sem hún telur þörf, kynnt sér þessi atriði með viðtölum við ríkisbókara. Segja má, að meginmarkmið þeirra bókhaldslegu atriða, sem hér um ræðir frá eldri reikningi, sé að tryggja samræmda meðferð sams konar upplýsinga innan alls ríkisrekstrarins og örugglega sambærilegar tölur í reikningi frá ári til árs. Má fullyrða, að á hvoru tveggja hafi verið verulegur misbrestur í reikningi, eins og hann hefur verið undanfarna áratugi.

Nokkrar þessara bókhaldslegu efnisbreytinga verða hér taldar. Í fyrsta lagi hefur verið mörkuð afgerandi stefna og framkvæmd við gerð reikningsins um það, hvernig tekjur og gjöld skulu færast á reikningi ársins. Á eldri reikningi voru tekjur og gjöld færðar til ársins á undan, ef þær höfðu komið fram í greiðslum fyrir lok marzmánaðar (apríl eða maí eftir atvikum) næsta árs á eftir. Í öðru lagi eru tekjur þannig færðar eftir því, sem þær hafa fallið til án tillits til þess, hvort eða hvenær þær eru innheimtar. Þannig er álagning skatta grundvöllur tekjufærslu, en ekki þar með skattainnheimta, eins og verið hefur. Í þriðja lagi er sambærileg regla tekin upp, að því er varðar gjöld, þannig að áfallin gjöld eru færð til gjalda án tillits til þess, hvort þau eru greidd á árinu eða síðar. Í fjórða lagi er gjaldfærsla á ónotuðum fjárveitingum nú ekki gerð eins og tíðkazt hefur með færslu á geymdu fé, enda þótt fjárhagsleg skuldbinding eða áfallin gjöld hefðu ekki komið til. Hins vegar er heimilt í sumum tilvikum að geyma þann hluta fjárveitingar, sem ónotaður reynist í árslok. Sú geymsluheimild er ekki skráð í sjálfu fjárhagsbókhaldinu og hefur því ekki áhrif til gjalda, fyrr en hún er notuð. Í fimmta lagi, þegar um er að ræða markaða tekjustofna, eru álagðar tekjur færðar til gjalda á reikningsárinu. Mikill hluti þessara tekna var utan reiknings ríkissjóðs áður. Grg. um þessa mörkuðu tekjustofna er að finna í reikningnum sjálfum á bls. 52. Í sjötta lagi er allur stofnkostnaður í A-hluta ríkisreiknings færður til gjalda í hinum nýja reikningi. Sérstakt yfirlit um þennan kostnað er að finna á bls. 121 í reikningnum. Í eldri reikningi var þetta nokkuð á reiki og oftast var þessi stofnkostnaður færður til eignar hjá hlutaðeigandi ríkisstofnun.

Í sjöunda lagi: Í reikningnum, eins og hann er nú, eru öll framlög ríkissjóðs til B-hluta, fyrirtækja ríkisins, færð til gjalda í A-hluta og til tekna hjá hlutaðeigandi fyrirtæki B-hluta. Í eldri reikningi var hluti slíkra framlaga færður til gjalda, en hluti færður á eignahreyfingar og sem eign í efnahagsreikningi.

Í áttunda lagi: Sé litið á efnahagsreikning hins nýja ríkisreiknings, er meginbreytingin fólgin í því, að í A-hluta reikningsins eru efnislegir fjármunir ekki færðir til eigna, enda verða framlög til slíkra fjárfestinga færð til gjalda í rekstrarreikningi A-hluta. Í eldri reikningi voru nettóeignir fyrirtækja, sjóða og stofnana, sem á annað borð voru teknar með í reikninginn, færðar upp til eigna í aðalefnahagsreikningi ríkissjóðs. Þetta er nú ekki gert með sama hætti. Þannig er uppistaða efnahagsreiknings A-hluta reikningsins samtala einstakra efnahagsliða úr efnahagsreikningum allra A-hlutastofnana ásamt efnahag ríkissjóðs en án efnislegra fjármuna, sbr. það, sem áður sagði um það efni. Innbyrðis kröfur og skuldbindingar A-hlutastofnana eru þó dregnar út úr aðalefnahagsreikningi A-hlutans, eins og sjá má á bls. 36 og 158 í efnahagsreikningnum.

Á bls. 162–166 í reikningnum er að finna grg. um það, hvernig efnahagsliðir ríkisreikningsins 1967 eru felldir inn í hið nýja kerfi. Uppistaða efnahagsreiknings B-hluta reikningsins er með sama hætti samtala úr efnahagsreikningum allra B-hluta fyrirtækja og sjóða, sem í samræmi við l. um ríkisbókhald færa upp sína efnislegu fjármuni. Hér hefur því verið gert samræmt kerfi reikningsfærslu fyrir allan þann hluta ríkiskerfisins, sem Alþ. hefur kosið að fella inn í ríkisreikninginn. Í stórum dráttum má því fullyrða, að með þessum nýja ríkisreikningi hafi verið gert innbyrðis samræmt bókhaldskerfi fyrir ríkið og stofnanir þess að því marki, sem Alþ. hefur kosið að láta ríkisreikning taka til ríkisrekstrarins. Þetta bókhaldskerfi á að geta skilað Alþ. og öðrum þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, þeim upplýsingum, sem ætla má, að þessir aðilar þurfi á að halda bókhaldslegs eðlis um rekstur ríkisins. Breyt. eru allar miðaðar við, að aðgengilegt sé, þegar tímabært þykir, að vélvinna bókhald ríkissjóðs og ríkisstofnana í skýrsluvélum, þegar það þykir hagkvæmt.

Af sjálfu sér leiðir, að verulegar formbreytingar eru gerðar á reikningnum um leið og þær efnisbreytingar, sem raktar hafa verið. Öllum reikningum er skipt í tvo hluta, A og B, þar sem í A-hluta er gerð grein fyrir fjárreiðum ríkissjóðs og ríkisstofnana, og svarar hann þannig í stórum dráttum til alls eldri reikningsins að undanskildri 3. gr. og fáeinum stofnunum í öðrum gr., svo sem flugmálastjórn, ríkisspítölum o. fl. Í B-hluta reikningsins er hins vegar að finna yfirlit yfir rekstur ríkisfyrirtækja og sjóða í ríkiseign samkvæmt nánari skilgreiningu l. um ríkisbókhald. Að því leyti sem þessi hluti reikningsins er sambærilegur við eldri reikning, svarar hann til 3. gr. eldri reikningsins. Að því er varðar formbreytingar er í rauninni tilgangslaust að ætla að bera saman eldri reikning og hinn nýrri. Hins vegar er vert að benda á, að sú meginregla gildir í framsetningu reikningsins, að A-hluta og B-hluta reikningsins er haldið algerlega aðskildum. Þá er sú meginregla í framsetningu, að fremst í hvorum hluta er mjög saman dregið heildaryfirlit á hvorum hluta fyrir sig. Má sem dæmi taka heildaryfirlit yfir A-hluta ríkisreiknings á bls. 9, þar sem dregið er saman yfirlit um rekstur og endurmat, um fjármagnshreyfingar og loks niðurstöður efnahagsyfirlits allt á einni síðu, en á næstu tveimur síðum er yfirlit um rekstrarreikning og á næstu tveimur þar á eftir um efnahagshluta A-hluta. Síðan er frekari sundurliðun, eftir því sem aftar kemur í reikninginn. Að því er varðar einstaka eignaliði í reikningnum er það vinningur frá eldri reikningi, að þeir eru algerlega samræmdir milli stofnana, og sama máli gegnir um skiptingu útgjalda eftir tegundum þeirra, sem sömuleiðis er algerlega sambærileg.

Þess er að vænta, að reikningurinn þyki ekki aðgengilegur við fyrstu sýn. Hins vegar fullyrði ég, að þær upplýsingar, sem hann gefur, eru samræmdari og yfirgripsmeiri en upplýsingar þær, sem Alþ. hefur átt völ á í eldri ríkisreikningum. Ríkisreikningnum fylgja að sjálfsögðu að venju aths. yfirskoðunarmanna, sem nú eru 24 að tölu. Að vísu eru allmargar þeirra ekki beinlínis aths., heldur fsp. um ýmis þau atriði, sem yfirskoðunarmenn hafa óskað eftir að fá nánari upplýsingar um. Í svörum ráðh. við þessum aths. hefur verið reynt, eftir því sem föng hafa verið á, að gefa þessar upplýsingar, og í till. yfirskoðunarmanna Alþ. er svo að finna ákvarðanir og úrskurði þeirra í sambandi við þessi svör ráðh.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þessar aths. né svörin í einstökum atriðum. Það er skýrast fyrir hv. þdm. að kynna sér það sjálfir eftir því sem þeir óska. Í flestum tilfellum hafa yfirskoðunarmenn talið, að svör við aths. þeirra séu annað hvort fullnægjandi, eða þá það, sem fram hefur komið, leiði til þess, að málið skuli vera til ath. eftirleiðis svo sem venja hefur verið í sambandi við slíkar aths. á undanförnum árum. Það eru aðeins tvær aths., sem er hafður sá háttur á að vísa til Alþ. Önnur aths. af þessum tveimur snertir mál, sem var hér til meðferðar á síðasta þingi, í sambandi við ríkisreikninginn þá, en það er um húsameistaraembættið og þær aths., sem ríkisendurskoðunin hafði gert við fjármál þess embættis. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja aths. yfirskoðunarmanna um það, né heldur svör ráðh. og rn., en úrskurðurinn er sem sagt þess eðlis, að málinu er vísað til Alþ., án þess að nokkur sérstök till. sé um það gerð, hvernig ætlazt er til að Alþ. taki á því máli.

Hitt atriðið, sem vísað er til Alþ., er um reikningshald Bjargráðasjóðs, en þar hefur komið upp ágreiningur milli stjórnar Bjargráðasjóðs og ríkisendurskoðunar um það, hvernig hafi átt að haga styrkveitingum í vissum tilvikum úr sjóðnum — úr hvaða deild sjóðsins hafi átt að leggja fram það fé. Í annan stað er ágreiningur um það, að sjóðurinn hefur gefið Sambandi ísl. sveitarfélaga eftir húsaleigu, sem ríkisendurskoðunin telur, að sjóðstjórninni hafi verið óheimilt að gera. Yfirskoðunarmenn vitna til þessa ágreinings og benda á það, að þarna sé fyrst og fremst um túlkun lagaatriða að ræða og telji því yfirskoðunarmenn rétt, að málinu sé vísað til Alþ. Ég tek það fram, að þarna er í rauninni ekki deila um það, að þarna hafi átt sér stað nokkurt misferli. Það er aðeins spurning um það, hvort heimilt hefði verið með þeim hætti, sem þar er gert af hálfu stjórnar sjóðsins, að úrskurða þau atriði, sem ágreiningi hafa valdið. Hvað Alþ. út af fyrir sig getur í þessu efni gert, skal ég ekkert um segja. Það væri sennilega eðlilegast, að hv. fjhn. kannaði þau rök, sem fram eru sett af hálfu ríkisendurskoðunar annars vegar og stjórnar Bjargráðasjóðs hins vegar, og þykir mér sennilegt, að ef n. tæki afstöðu til þess máls á annan hvorn veginn og hv. Alþ. samþ. það, þá mundu aðilar telja það vera endanlegan úrskurð um það, hvernig bæri að haga því í sambandi við þessi umdeildu atriði.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Ég hef talið mér skylt, vegna þess að hér er um veigamiklar breytingar á uppsetningu ríkisreiknings að ræða, að gera grein fyrir þeim, en það hefur ekki verið sérstök venja á undanförnum árum, þegar reikningur hefur frá ári til árs verið í sama formi. Ég legg á það sérstaka áherzlu að lokum, að enda þótt reikningurinn sé núna svo síðbúinn sem raun ber vitni, þá stafar þessi töf eingöngu af þessari miklu og víðtæku kerfisbreytingu, og þar með er alveg ljóst, að framvegis er auðið að ljúka ríkisreikningi miklu fyrr en áður hefur verið mögulegt einmitt vegna þessa nýja skipulags, sem ég vona, að allir hv. þdm. fallist á, að sé til mikilla bóta og gefi mun gleggri upplýsingar heldur en áður hafa fengizt.

Ég legg þá til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.