06.11.1969
Neðri deild: 11. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2531)

35. mál, fjárhagsaðstoð ríkisins til að jafna aðstöðu barna og ungmenna til skólagöngu

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hér er á ferðinni, eins og hæstv. menntmrh. sagði réttilega áðan, stórmál, og það er ánægjulegt að heyra það, að hæstv. menntmrh. hefur fyrir sitt leyti skilning á því og fyrir sitt leyti vilja á að ráða á því nokkra bót, þessu vandamáli. Fyrir sitt leyti, segi ég. Reynslan hefur því miður sýnt, að góður skilningur og vilji hæstv. menntmrh. kemur stundum vægast sagt að harla litlum notum, ef framkvæmdin er jafnframt komin undir góðum vilja og skilningi annars hæstv. ráðh., þ. e. a. s. þess hæstv. ráðh., sem fer með fjármál. Reynslan hefur æði oft orðið sú varðandi embættisrekstur hæstv. menntmrh., að það góða, sem hann vill, gerir hann ekki, einfaldlega vegna þess, að hæstv. fjmrh. vill ekki, að hann geri það. Við skulum þó vona hið bezta. Það hefur sjaldan verið eins mikið í húfi og núna í sambandi við þetta mál, að það góða, sem hæstv. menntmrh. vill, vilji líka hæstv. fjmrh. Fjöldi ungra Íslendinga á undir því, að góður skilningur ríki og einlægt samstarf milli þessara hæstv. ráðh. um lausn þess mikla vanda, sem hér er um að ræða.

Það er ekki ýkjalangt síðan ég hafði lífsframfæri af kennslu. Það eru aðeins 2½ ár, síðan ég starfaði að staðaldri sem kennari við heimavistarskólann í Reykholti í Borgarfirði. Ég vann þar að því að búa unglinga undir landspróf og gagnfræðapróf. Í nemendahópi þeim, sem ég skildi við vorið 1967, voru margir þeir, sem vegna gáfna og dugnaðar virtust eiga fyrir sér bjarta braut, bjarta framtíð á veginum til frekari menntunar. Og það var ekki laust við, að maður fyndi til nokkurs stolts yfir því að hafa átt örlítinn þátt í því að koma þessu fólki af stað á þessari braut. En núna, þegar maður ferðast um Vesturland, þar sem stærsti hluti þessara nemenda á heima, og maður fer að forvitnast um það, hvernig þeim hafi farnazt á menntabrautinni, síðan skildi með okkur vorið 1967, þá kemur í ljós, að margir þessara unglinga hafa alveg stöðvazt á menntabrautinni. Þeir hafa ekki komizt að heiman til frekara náms, og það er allt útlit fyrir, að dugnaður þeirra og hæfileikar til frekari mennta verði þeim eða þjóðfélaginu að harla litlum notum. Efnahagur þeirra og foreldranna bannar það, að ráðizt sé í þann kostnað, sem fylgja mundi frekari skólagöngu. Af mörgu ömurlegu, sem versnandi þjóðfélagsástand veldur fólkinu úti í dreifbýlinu, þá held ég, að þetta sé einna ömurlegast. Af margs konar sóun, sem versnandi efnahagur veldur til lömunar á framtaksgetu fólksins úti í dreifbýlinu, þá er þessi sóun e. t. v. sú háskalegasta, sú sóun að láta dugnað og námsgáfur ungmenna ekki njóta sín. Það er þess vegna sízt of sterkt að orði kveðið hjá hv. flm. þessa frv., að hér sé um að ræða menningarlegt misrétti og háskalegt ranglæti og þjóðfélagið verði að rétta fram hjálpandi hönd, ef ekki eigi verr að fara.

Þeir efnilegu unglingar, sem ég var að nefna áðan, gamlir nemendur mínir, gætu eflaust flestir haldið áfram námi, ef þeir byggju svo nærri framhaldsskólunum, að þeir gætu sótt þangað námið heiman að frá sér. En aukakostnaður sá, sem dvöl þeirra fjarri heimilunum um skólatímann veldur, hefur það í för með sér, að námsferill þeirra stöðvast, á sama tíma og jafnaldrar þeirra í þéttbýlinu geta haldið áfram námi, jafnvel þó að fjárhagur þeirra og foreldranna sé kannske ekki miklu betri. Þetta margvíslega misrétti, sem fólkið úti í dreifbýlinu verður að sæta í samanburði við þá, sem í þéttbýlinu búa, hefur sem sé verið að aukast stórlega, sem stafar af mismunandi aðstöðu, að því er varðar öflun menntunar handa ungmennum. Og vegna hins slæma árferðis eins og t. a. m. í landbúnaði núna undanfarin sumur, sérstaklega nú s. l. sumar, þá má eflaust gera ráð fyrir, að þessi aðstöðumunur eigi eftir að aukast enn á þessum vetri og á þeim næsta, og þörfin á opinberri aðstoð verður þess vegna að sjálfsögðu þeim mun meiri.

Núna fyrir nokkru sá ég niðurstöður af athugun, sem einn kunningi minn gerði á því, hvaðan það fólk var, sem útskrifaðist sem stúdentar vorið 1967 og 1968. Hann tók tillit til fólksfjölda í ýmsum landshlutum. Hann miðaði sem sé við höfðatölu, prósentutöluna, og í hlutfalli við þessa tölu reyndust stúdentar frá þéttbýlissvæðunum í námunda við menntaskólana hér í Reykjavík og á Akureyri vera helmingi fleiri en stúdentar frá öðrum landshlutum. Af hverjum þremur stúdentum reyndust sem sé hlutfallslega tveir vera frá umræddum þéttbýlissvæðum, en aðeins einn annars staðar að af landinu. Þetta segir sína sögu um aðstöðumun þann, sem fólkið í dreifbýlinu hefur orðið að sæta í samanburði við þá, sem í þéttbýlinu búa, Og á nú þetta ástand kannske enn að versna? Á kannske endirinn að verða sá, að möguleikar til stúdentsmenntunar og síðan háskólanáms og e. t. v. alls svonefnds framhaldsnáms verði forréttindi þeirra, sem í þéttbýlinu búa?

En í sambandi við þennan þátt varðandi menntunarvandamál dreifbýlisins, sem hér er til umr., væri kannske engin vanþörf á því að ræða fleiri þætti þessara mála ofurlítið, því að enda þótt þessi mál hafi oft verið rædd hér á Alþ., og annars staðar á opinberum vettvangi, þá vantar áreiðanlega mikið á það, að þeir, sem landinu stjórna, og þjóðin, a. m. k. sá hluti hennar, sem í þéttbýlinu býr, hafi gert sér nokkra grein fyrir því, hvernig ástandið er í þessum efnum, hve alvarlegt það er.

Eða hvað til að mynda um sjálfa undirstöðuna, sjálfa undirstöðu allrar menntunar, þ. e. a. s. barnaskólamenntunina? Við gerðum á því athugun í Reykholti fyrir þremur árum, hve mikillar barnaskólamenntunar nemendur okkar hefðu notið, áður en þeir komu í Reykholt, hve mikillar undirbúningsmenntunar, hve mikla skólagöngu þeir hefðu fengið á barnsaldri. En nemendur í Reykholti eru hvaðanæva að af landinu, þó að hlutfallslega stærsti hluti þeirra sé að vísu úr nærliggjandi héruðum, þ. e. a. s. af Vesturlandi. Niðurstaðan af þessari rannsókn okkar varð sú, að það mátti teljast alger undantekning, — gott, ef þess var bara nokkurt dæmi, — að nemandi úr strjálbýlinu eða sveitum hefði notið þeirrar skyldufræðslu, sem nemendur í þéttbýlinu hafa allir notið. Sum þessara sveitabarna höfðu fengið svona tveggja, kannske þriggja mánaða skólagöngu eða svo þennan veturinn, síðan enga næsta, svo kannske tvo eða þrjá mánuði, og nokkur þeirra höfðu verið, að því er virtist, aðeins með höppum og glöppum hjá farkennara.

Og það mætti spyrja: Hvernig hefði verið frammistaða þessara nemenda, þegar þeir áttu að fara að keppa við jafnaldra sína, sem höfðu hlotið lögboðna skyldufræðslu í þéttbýlinu? Reynsla okkar var sú, að fyrst í stað nægði þeim dugnaðurinn og ástundunin til þess að halda nokkurn veginn í við jafnaldra sína úr þéttbýlinu. En þegar frá leið, fór undirbúningsleysið að segja til sín, og þessir nemendur, börn sveitanna, fóru að dragast aftur úr, og allmörg þeirra gáfust algerlega upp. M. ö. o., undirbúningsleysið batt þarna alveg enda á frekari menntun þeirra. Þegar ég segi undirbúningsleysi, þá á ég ekki við það, að börnin úr sveitunum hafi verið þetta síður þroskuð eða ekki eins mennileg og börnin úr þéttbýlinu. Þvert á móti voru þau að mörgu leyti þroskaðri og betur að sér um lífið og tilveruna yfirleitt heldur en börnin úr þéttbýlinu. En hins vegar skorti þau þjálfun við skólanám, og það var það, sem gerði þarna gæfumuninn.

„Já, en er þetta nú ekki allt að lagast?“ spyrja menn kannske. Jú, það þokast töluvert í áttina sums staðar og raunar allmikið á vissum svæðum. En þó er það þannig, t. a. m. í mínu heimahéraði, þar sem ástandið er þó miklu betra í þessum málum en víða annars staðar, eins og t. a. m. sums staðar á Vestfjörðum og í Húnavatnssýslum, að mér skilst, og Skagafirði og fyrir austan, þar sem farkennsla tíðkast enn þann dag í dag, að því fer víðs fjarri, að börnum okkar gefist kostur á skólagöngu, sem að lengdinni til að minnsta kosti jafnist á við það, sem börn í þéttbýlinu fá. 9 ára börn í þéttbýlinu hafa, eins og kunnugt er, fengið tveggja vetra kennslu og 8–9 eða a. m. k. — 7–8 mánuði hvorn veturinn. 9 ára börn uppi í Reykholtsdal höfðu í fyrra vor allt í allt verið í skóla 7–8 vikur, þ. e. a. s. jafnaldrar þeirra í þéttbýlinu höfðu fengið tvisvar sinnum fleiri mánuði í skólakennslu heldur en þessi börn höfðu fengið vikurnar. En ég tek það fram, að þetta er ekki viðkomandi skólastjóra eða skólanefnd að kenna, heldur því, að í þessum skóla er ekki aðstaða til þess að veita börnunum þá menntun, sem lög mæla fyrir um. Og sá árangur, sem ég var að nefna, var nokkuð afskiptari en ella hefði orðið, vegna þess að á þessum vetri var þarna í fyrsta sinn farið að kenna 7 ára börnum. Þegar þessi árgangur byrjar sitt nám 8 ára, er sem sé í fyrsta sinn í þessum skóla, Kleppjárnsreykjaskólanum, farið að kenna 7 ára börnum, þ. e. a. s. uppfylla skólalögin að þessu leyti. Og þrengsli og ýmsir skipulagserfiðleikar, sem stöfuðu af því, að tveir árgangar hófu þarna nám í skólanum á sama tíma, urðu þess valdandi, að þessi tiltekni árgangur fór verr út úr því en hann hefði ella farið, þ. e. a. s., maður gæti gert ráð fyrir, að hann hefði kannske annars fengið 14 vikur í staðinn fyrir 7.

En nú er það svo, að stórum hluta barna á þessu svæði, Kleppjárnsreykjasvæðinu, er ekið í skólann og heim aftur daglega, þannig að hægt er að komast af með miklu minna heimavistarpláss en ella. En að því er varðar flesta aðra barnaskóla í sveitum á Vesturlandi, þ. e. a. s. a. m. k. Varmalandsskólann og Laugagerðisskólann og Laugaskólann í Dölum, þá verður slíkum akstri ekki við komið af kostnaðarástæðum og ýmsu fleiru. Þar er það sem sagt heimavistarplássið, sem skammtar skólatímann. Og hver er þá skólatími barnanna á viðkomandi svæðum? Það vildi svo til, að ég hitti núna í síðustu viku einn þessara skólastjóra, skólastjórann á Varmalandi, og innti hann eftir þessum málum. Það vildi svo til, að ég hitti hann í einum bankanum í Reykjavík, og ég sá um leið bregða fyrir öðrum skólastjóra utan af landsbyggðinni. Það er nefnilega þannig með þessa skólastjóra og skólanefndarformenn viðkomandi skóla, að þeir þurfa oft að leggja á sig mikið erfiði og ferðalög hingað suður og liggja við í bönkum og öðrum opinberum stofnunum, svona álíka og gerist um útgerðarmenn og forstjóra úti í dreifbýlinu, sem ramba stöðugt á barmi gjaldþrots. En þetta er önnur saga. Ég notaði sem sagt tækifærið til þess að spyrja skólastjóra Varmalandsskólans, hvað hann gæti veitt börnum á sínu svæði mikla skólavist, hverjum árgangi, og hann gaf mér þessar upplýsingar: 7 ára börn fá 30 skóladaga á vetri. 8 ára börn fá 50 skóladaga, 9–10 ára börn fá 65 skóladaga, 11–12 ára börn fá 90 skóladaga. Börn í þéttbýli eru hins vegar í skóla 150–170 daga á vetri hverjum. Skóladagar þeirra á umræddu aldursskeiði, eða frá 7 ára til 12 ára, eru sem sé hátt í það þrisvar sinnum fleiri en hinna barnanna, þ. e. a. s. þarna í dreifbýlinu, eða næstum þúsund á móti 380–390. Og þó mega börnin á Varmalandssvæðinu, sem eiga aðgang að skóla, sem rekinn er eins vel og aðstæður frekast leyfa, skipaður ágætis starfsliði, sannarlega hrósa happi í samanburði við mörg börn úti í dreifbýlinu, sem verða t. d. að sætta sig við farkennslu enn þann dag í dag.

Þegar menningarforkólfar hér í Reykjavík eru að skrifa í blöðin um ástandið í skólamálunum, þá klifa þeir á því sýknt og heilagt, hvernig ástandið sé varðandi framhaldsskólana, það sé í hinum versta ólestri, og það er sannarlega satt. En þeir gleyma því, þessir góðu menn, eða virðast ekkert um það vita, að ástandið er enn verra, að því er varðar undirstöðu allrar menntunar, a. m. k. að því er varðar sveitirnar. Það er í enn verri ólestri.

Ég held, að það hafi verið í fyrra eða hitteðfyrra, að ungir sjálfstæðismenn hér í Reykjavík, Heimdellingar, samþykktu ályktun þess efnis, að stefnt skuli að því að annar hver Íslendingur, ef ekki 2 af hverjum 3, verði stúdentar. Afskaplega væri þetta nú gott og skemmtilegt til afspurnar fyrir okkur úti um heim. En okkur sveitamönnum hefði hins vegar fundizt, að þessum ungu mönnum hefði verið nær að beina því til ríkisstj. sinnar, hvort ekki væri rétt að ganga fyrst úr skugga um það, að Íslendingum yrði kennt að lesa og skrifa, áður en þeir yrðu gerðir að stúdentum í svo stórum stíl.

Ekki þar fyrir, að sveitabörn kunna yfirleitt sæmilega að lesa og skrifa og sennilega ekkert síður heldur en börn í þéttbýlinu, þrátt fyrir takmarkaða skólagöngu. Sennilega hafa þau meiri not þeirrar skólagöngu, sem þau fá, hlutfallslega heldur en börn í þéttbýlinu fá notið sinnar. En það, sem mestu skiptir, er það, að öll sæmileg heimili, allir sæmilegir foreldrar, taka að sér sjálfir þá kennslu, sem börnin geta ekki fengið vegna takmarkaðrar skólagöngu. Eða m. ö. o., það, sem hefur fyrirbyggt algert neyðarástand í þessum efnum, er sú einkakennsla, sem sveitabörn hafa notið hjá foreldrum sínum og öðrum fullorðnum á heimilum, og mundi vissulega muna um reikninginn, ef þjóðfélagið ætti að borga alla þá einkakennslu, jafnvel þó að það væri nú ekki nema því smánarverði, sem kennsla á Íslandi er yfirleitt greidd. Og neyðarástand er þetta að sjálfsögðu að því leytinu, að annríki er víða mikið í sveitum og ekkert síður en í þéttbýlinu og því alls ekki víst, að bændafólki öllu endist tími og þrek til þess að stunda að staðaldri kennslu jafnframt öðrum störfum sínum.

Nú er það að vísu rétt, að slæmt ástand í þessum efnum má að einhverju leyti kenna viðkomandi sveitarfélögum sjálfum, það skal játa. Þau hafa ekki gert það, sem þeim ber í þessum efnum. En ég held, að menn hljóti að vera sammála um það, að ef sveitarfélögin geta ekki, annaðhvort af fátæktar sökum eða einhverjum öðrum ástæðum, séð til þess, að börn þeirra fái nauðsynlega skólagöngu, þá verði að koma til aukinn stuðningur hins opinbera, þ. e. a. s. ríkisins, því að hér er um að ræða, eins og hv. flm. þessa frv. sagði hér áðan, vandamál, sem snertir þjóðfélagið í heild.