06.11.1969
Neðri deild: 11. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (2535)

35. mál, fjárhagsaðstoð ríkisins til að jafna aðstöðu barna og ungmenna til skólagöngu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í ræðu sumra þeirra þm., sem hafa rætt þetta mál, þá hefur þetta mál verið rætt mikið á undanförnum þingum og þáltill. samþ. á síðasta þingi, og eins og kom fram í ræðu menntmrh., er von á því, að frá þeirri könnun, sem fram fór eftir samþykkt þeirrar till., verði skýrt ítarlega hér á hv. Alþ. í næstu viku. Ég hygg, að það sé ekki ágreiningsefni hjá a. m. k. öllum þorra þm., að nauðsyn beri til að kanna þessi mál, sem hér eru til umr., mjög náið og finna grundvöll til þess að gera enn minni þann aðstöðumun, sem er hjá fólki, sem býr í strjálbýli og því, sem í þéttbýli býr. Ég hefði talið, að það hefði verið rétt að bíða eftir þessari skýrslu og gera sér í raun og veru grein fyrir því, hver þessi aðstöðumunur er nú að krónutölu en það kemur ekki fram í grg. með þessu frv. neinn rökstuðningur fyrir því og ekki heldur í framsöguræðu hv. flm. frv.

Það er margt hér, sem kemur til, og það má líka geta þess og má gjarnan halda því á lofti, að það hefur margt verið gert til þess að jafna aðstöðumuninn á undanförnum árum, og það er fleira, sem á auðvitað að koma til, en beinar greiðslur þeirra, sem þurfa að senda börnin sín í skóla, og ríkisvaldsins. Þar kemur til einn þáttur annar, sem er þáttur sveitarfélaganna í þessu máli. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að með nýju skólakostnaðarlögunum er ríkið að taka á sig meiri kostnað í byggingu heimavistarhúsnæðis, og í beinni byggingu heimavistarhúsnæðis greiðir ríkið allt upp í 100% af þeim byggingarkostnaði. Við skulum einnig gera okkur grein fyrir því, hvað greiddur er mikill þáttur í rekstrarkostnaði heimavistarskólanna. Þar greiðir ríkið vinnulaun við alla matseld, það er ekki reiknuð húsaleiga eða húsnæði, heldur má segja, að þar sé um hráefniskaup að ræða. Þetta er auðvitað ærið nóg fyrir þann, sem hefur úr tiltölulega litlu að spila, að greiða þann kostnað, þó sérstaklega ef börn eða unglingar frá einu og sama heimili eru fleiri en eitt.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, finnst mér vera of laust í reipunum. Það er slegið hér fastri ákveðinni tölu og ákveðinni upphæð til greiðslu á hvern nemanda, og mér fannst einhvern veginn, — ég vona, að það sé ekki misskilningur, — að hv. flm. frv. hafi í raun og veru ekki gert sér grein fyrir, hvað þetta geta orðið mikil útgjöld fyrir ríkissjóð, og sömuleiðis, hvort orðalag 1. gr. frv. nái yfir það, sem flm. ætlast til, en hann talar um, að ríkið greiði af kostnaði við námsdvöl í ríkisskólum, hvort heldur er á barnaskólastigi, í skólum gagnfræðastigsins eða í menntaskólum. Hæstv. menntmrh. benti réttilega á, að ekki næði þetta til háskólans, en ef ríkissjóður á að borga til nemenda á barna-, gagnfræðaskóla- og menntaskólastiginu, hvers eiga þeir nemendur þá að gjalda, sem fara í hina ýmsu sérskóla? Við skulum segja verzlunarskóla, samvinnuskóla, tækniskóla, sjómannaskóla, vélskóla, af hverju eiga þeir að vera undanskildir? Er ekki nákvæmlega sami aðstöðumunurinn, hvort nemandinn er í menntaskóla eða einhverjum þeirra skóla, sem ég taldi upp? Einnig má nefna t. d. húsmæðraskóla, þeir eru ekki í þessu dæmi.

Það kom hér fram hjá hv. síðasta ræðumanni og fleirum, að hann taldi, að margur væri sá, sem ekki hefði komizt í skóla á s. l. hausti vegna erfiðleika í þjóðfélaginu. Þetta getur allt verið rétt, en þó verðum við að segja það, að það séu yfirleitt færri nemendur í skólum hjá þjóðum almennt en hjá okkur Íslendingum, því að samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. menntmrh. gaf hér áðan, þá eru í heimangönguskólum 38 þús. nemendur og í heimavistarskólum rúmlega 3000 nemendur og í menntaskólum 2200 nemendur. Auk þess eru þá eftir háskólinn og hinir ýmsu sérskólar, svo að það mun ekki vera fjarri sanni að segja að um 50 þús. Íslendingar sitji á skólabekk í vetur. (Gripið fram í.) Já, eða yfir 60 þús., eða yfir fjórðungur þjóðarinnar, og ég held, að það verði nú ekki hægt að segja það, að fólki almennt hafi ekki gefizt tækifæri til menntunar í okkar landi.

Ég er alveg sammála þeim skilningi, sem fram kemur í þessu frv., að minnka þarf þennan aðstöðumun, og ég er ekki búinn að gera mér grein fyrir því, hvað er sanngjarnt og eðlilegt að leggja hér til grundvallar, og við verðum líka jafnframt því að leggja til grundvallar, hvað sú breyting kostar, sem við ætlum að gera, og ef við lítum á heimavistarskólana, þá eru um 3000 nemendur í þeim skólum, og ég hygg, að það séu ekki nema örfáir, sem eiga heima á þessum stöðum, þar sem heimavistarskólar eru, svo að útgjöldin, samkv. þessu frv. nú, af heimavistarskólunum einum, muni nema um 75 millj. kr. Þar við bætast auðvitað menntaskólarnir, og þeir eru æði margir. Nú skulum við líta á það, sem einstaka ræðumaður hér hefur getið áður um, eins og t. d. hv. 4. landsk. þm., að við erum að mörgu leyti enn á eftir með menntun í strjálbýli. Við erum ekki alveg komnir yfir farkennsluna, þó að við séum óðum að nálgast það mark, og við eigum enn þá eftir á nokkrum stöðum á landinu að koma á viðhlítandi skyldunámi.

Ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil aðeins hugsa mig um, áður en við tökum þessa fjárhæð til að greiða aðstöðumuninn, ef það skyldi verða til þess, að við yrðum enn að hægja á okkur í að koma á þeirri menntun, sem við öll stefnum að, að komist á alls staðar á landinu. Ég vil ekki taka eitt dæmi út úr og segja: Svona skulum við afgreiða það. Og það er auðvitað alltaf létt verk að segja, að við viljum fá þessi útgjöld til þessara mála eða hinna og segja, að hver, sem ekki vill ganga inn á það orðalaust, sé á móti að gera slíkar breytingar. Og mönnum verður æði oft á að kenna fjmrh. um allt það, sem ekki nær fram að ganga, þegar það kostar útgjöld fyrir ríkissjóð. En hins vegar finnst mér oft og tíðum, að þegar flutt eru frv. um aukna skatta, verði aftur sömu menn uppvísir að því að kenna fjmrh. um skattana.

Við skulum alveg gera okkur ljóst, að við eigum í mörg horn að líta, og ef við lítum á fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþ., þá er varið 33.2% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til almannatrygginga og annarra félagsmála, 14.6% til fræðslumála, og ef við tökum listir og önnur menningarmál, þá er þetta hlutfall komið upp í 16.3%. Til samgöngumála verjum við 12.5% og til hinna ýmsu atvinnumála 12.4% og niðurgreiðslu á vöruverði 7.1%. Hér er ég kominn upp í 81.5% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Ég hef ekki heyrt nokkra rödd hér á hv. Alþ., sem telur, að of litlu sé varið til félagsmála, atvinnumála, samgöngumála eða fræðslumála. Allir krefjast þeir þess, að við aukum stórlega framlög til allra þessara mála. Og vissulega viljum við allir auka þessi framlög. En sá böggull fylgir skammrifi, að ef við ætlum að auka öll þessi framlög, þá verðum við að afla okkur nýrra tekna, og það er höfuðvandinn. En þá fer það oft svo, að þeir, sem hæst láta, þegar þeir krefjast útgjalda og koma með hugsjónamál sín, snúa aftur við blaðinu margir hverjir og segjast ekki bera neina ábyrgð á því, þegar þarf að fara að afla fjár til þessara hluta. Það sé fjmrh. og ríkisstj. þá að kenna, ef það þarf að grípa til nýrra skatta. En hér verður þetta að fara saman.

Ég bið hv. flm. þessa frv., hv. 9. þm. Reykv., að taka þetta ekki til sín, því að ég á ekki þar neitt við neinn þm. öðrum fremur, og ég held, að þm. séu sekir í þessum efnum, bæði úr röðum stjórnarandstöðu og stjórnar, svo að þegar við tölum um leiðréttingar á misræmi, þá verðum við auðvitað að stilla því í hóf, og ég tel, að það sé betra að fara gætilega í þetta, reyna að jafna í skrefum þennan aðstöðumun, en umfram allt að það, sem gert kann að vera í þessu, verði ekki til þess að tefja fyrir því að ná því marki, sem Alþ. og þjóðin hefur sett sér í fræðslumálum, en þar erum við sorglega á eftir, eins og 4. landsk. þm. gat réttilega um í sinni ræðu.

Ég vil svo að síðustu segja það, að ég tel, að það sé síður en svo óeðlilegt, að frv. um þetta efni sé flutt, og ég er sammála málinu í heild, að við verðum að finna leið til þess að jafna eitthvað þann aðstöðumun, sem fólk í strjálbýlinu verður að búa við. En hitt tek ég fram, að ég vil fara rólega að því og gætilega, en taka ekki of mikið upp í okkur í bili, ef það skyldi svo aftur verða til þess, að við verðum að hægja á okkur í ýmsum öðrum efnum, sem við megum alls ekki hægja á okkur í.