06.11.1969
Neðri deild: 11. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2536)

35. mál, fjárhagsaðstoð ríkisins til að jafna aðstöðu barna og ungmenna til skólagöngu

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég get strax tekið það fram, að ég er mjög ánægður með þær umr., sem hér hafa farið fram um frv. mitt, þó að þær hafi að vísu farið inn á mörg önnur svið vandamála, sem við okkur blasa í fræðslu- og menntamálum heldur en frv. fjallar um. Ég er þakklátur menntmrh. fyrir þann skilning, sem hann sýndi á þessu máli. Hann viðurkenndi, að hér væri um brýnt og aðkallandi stórmál að ræða, sem þyrfti með einhverjum hætti að fá lausn á. Og auðvitað er það svo, að fyrir mér er það aðalatriði, að með einhverjum hætti verði ráðin bót á því þjóðfélagslega misrétti, sem við horfumst hér í augu við og sem verður enn alvarlegra, ef ekki er að gert. Ég er honum og þakklátur fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf um þá rannsókn, sem fram hefur farið, og tel, að það sé liður í því að undirbyggja þetta mál og þoka því til farsællegrar lausnar.

Þeir tveir hv. framsóknarmenn, sem hér hafa talað, hafa mjög undirstrikað það, að Framsfl. hafi á undanförnum árum komið auga á mikilvægi þessa máls og flutt um það nokkrum sinnum þáltill. og það sé vegna þessa tillöguflutnings þeirra, sem ríkisstj, hafi á s. l. sumri látið kanna málið og gera um það ítarlega skýrslu. Þetta er sjálfsagt allt saman rétt. En svo, þegar kemur að afstöðu þeirra til þessa frv., þá segjast þeir hvorugir reiðubúnir til þess að taka afstöðu til þessa frv., sem ætti að vera þeim öllum öðrum mönnum auðveldara að gera vegna forsögu málsins. En kannske er það svo, að það valdi meira um afstöðu þeirra, hvort það er flutt af framsóknarmanni eða ekki. Ég vona, að svo sé ekki. Ég vona, að málið sé þeim aðalatriði. Þegar skýrslan liggur fyrir og verður kunn hv. menntmn., sem fer með þetta mál, þá verður málið auðveldara viðfangs til þess að taka til þess afstöðu. Og ég fagna því, að þessi forsaga hefur átt sér stað. En ef ekki var flutt frv. um málið þrátt fyrir allan tillöguflutning framsóknarmanna á undanförnum árum í þáltill.- formi, þá hefði hér ekkert gerzt annað en skýrsla hefði komið um, hvernig ástandið væri. Eðlilegast var sem framhald þess því flutningur frv. til þess að koma málinu á framkvæmdastig og í höfn, ef mönnum var efni málsins vandamálið sjálft, aðalatriðið. Og vissulega er þetta mál svo, að þetta á ekkert skylt við flokksmál að neinu leyti, og menn eiga auðvitað ekki að skiptast í flokka um það. Mér er þess vegna hálfgerður viðbjóður í að fara að togast um það, hverjir eigi heiður af því, hverra flokka menn hafa hreyft málinu áður og hverjir eigi þar viðurkenningu skilda og hverjir ekki. Ég vil a. m. k. vona það, að það ráði ekki afstöðu manna til andstöðu gegn málinu, að það er nú ekki í höndum sama flokks að flutningi til, sem hefur flutt það í þáltill.-formi áður.

Hæstv. menntmrh. talaði meira um vandann, sem blasir við foreldrum þeirra unglinga, sem eru komnir af barnaskólastigi og unglingastiginu, þ. e. a. s. skyldunámsstiginu, en hinum, sem á þessum undirstigum menntamálanna eiga hlut að máli. En það er nú átakanlegast, að vandamálið er lítt viðráðanlegt því fólki, sem á að koma unglingum sínum til mennta í gegnum skyldunámsstigið, tryggja þeim undirstöðuna, og skilningur á því kom fram hjá hv. 4. landsk. þm. mjög glöggt. Þar eru miklir misbrestir á. Það er næsta algengt, að heimili þarf að sjá fyrir tveimur, þremur, fjórum, jafnvel fleiri nemendum á barnaskólastiginu og verða að koma þeim öllum í heimavistarskóla. Það er nokkuð algengt. Þegar kemur svo að unglinga- og gagnfræðaskólastigi, þá eru þetta venjulega færri nemendur frá hverju heimili, en kostnaðurinn á nemanda meiri. Og svo er það, þegar kemur á menntaskólastigið, þá er það kannske sjaldgæft, að nemendur, sem kosta verður að heiman, séu fleiri en einn. Það er miklu sjaldgæfara a. m. k., en þá er kostnaðurinn vaxinn enn á hvern nemanda. Það er þess vegna mjög vandasamt að gera upp á milli þess, hvernig ætti af fyllilegu réttlæti að leysa þennan fjárhagsvanda. En ef þessi fjárhagsvandi verður til þess, að heimili getur ekki tryggt börnum sínum fræðslu á barnaskólastiginu, þá er það mjög sárgrætilegt og getur leitt af sér alvarlegar afleiðingar langt fram eftir námsbrautinni. En það er því miður staðreynd, að svo getur hæglega farið oft og tíðum, að það verði að draga úr þeim rétti, sem nemendurnir eiga til skólavistar á barnaskóla- og unglingastigi, vegna þess að heimilin rísa ekki undir kostnaðinum. Það er ekki fjarri því, að heimavistarkostnaður á nemanda sé ekki undir 40–60 þús. kr. á vetri. En ég geri mér ljóst, að þetta er dálítið mismunandi á hinum ýmsu skólastigum, minni kostnaður tiltölulega á barnaskólastiginu, hærri eftir hækkandi skólastigum. Og kostnaðurinn, sem þeir nemendur verða að bera, sem komið er fyrir utan heimilis, þó að ekki sé í heimavist, er mjög áþekkur þessu og ekki undir þessum tölum, sem ég nefni. Þegar ég svo í frv. slæ því föstu, að ríkið þurfi að koma til með um 25 þús. kr. framlagi, þá á ég ekki við nákvæma tölu, heldur það, að ég telji sanngjarnt, að ríkið komi þarna og beri þennan bagga að hálfu eða eitthvað í kringum það til móts við nemendur. Engar þessar tölur eru mér heilagt mál og ég tel alveg sjálfsagt, að þær breytist, eftir því sem rannsókn málsins leiðir til um möguleika til framkvæmda á málinu og með tilliti til þess þó, að málið fái lausn, sem verði til þess að koma í veg fyrir, að námsbraut efnilegra nemenda lokist annaðhvort af landfræðilegum ástæðum ellegar af því, að þeir rísi ekki undir þeim kostnaði, sem af dvöl í heimavistarskóla leiðir.

Það var drepið á það, og ég minntist einmitt á það í minni framsöguræðu, að eins hefði kannske verið hægt að hugsa sér ákveðinn hundraðshluta, sem hið opinbera bæri af kostnaði hvers nemanda. En af hverju hvarf ég frá því að leggja það til? Ég gerði grein fyrir því með einni setningu. Ég sagði: Ég tel, að það væri kannske mjög erfitt að skjóta fullnægjandi rökum, þannig að tekið væri gilt af opinberum aðilum, undir kostnaðarhliðina í hverju einstöku tilfelli. Og ég hygg, að þegar menn athuga það mál, torveldi það mjög, að aðstoð ríkisins væri ákveðinn hundraðshluti af kostnaði í sérhverju tilfelli. Þess vegna hvarf ég a. m. k. frá því og lagði heldur til, að einhver upphæð yrði lögfest sem aðstoð frá ríkisins hendi til þeirra nemenda, sem kosta yrði út af heimili og hún væri einhvern veginn svona á miðri leið þarna, þ. e. a. s. dekkaði nokkurn veginn helming þess tilkostnaðar, sem heimilin að öðrum kosti verða að bera. Ég taldi og sjálfsagt, að þetta væri ekki föst tala, því að fastar tölur í okkar verðbólguþjóðfélagi vilja strax á næsta ári og síðan ár frá ári verða meira og meira úreltar, og þess vegna setti ég ákvæði um það, að upphæðin skyldi breytast í samræmi við breytingu á vísitölu framfærslukostnaðar.

Frv. er fyrst og fremst flutt af minni hendi, ekki til þess að stela máli frá Framsfl., heldur til þess að málið kæmist á framkvæmdastig, og úr því yrði bætt, svo að ungt fólk yrði ekki útilokað af námsbrautinni, eins og ég minnti á hið sorglega dæmi um skáldið Stephan G. Stephansson. En þar endurtekur sagan sig átakanlega frá ári til árs kannske í mörgum hundruðum tilfella, og gætu þau verið eins átakanleg og það dæmi, þegar maður horfir til baka á það.

Hins vegar get ég ekki annað sagt en að undirtektir allar við málið, anda þess og tilgang og þá brýnu nauðsyn, sem á bak við er, séu ánægjulegar og lofi góðu um það, að á málinu verði tekið af fullri alvöru, og ég treysti hv. menntmn. til þess að kanna málið til hlítar og finna við það form, sem framkvæmanlegt þyki og þó um leið leysi þennan gífurlega vanda, sem hér er við að fást. Þetta er fyrst og fremst fjárhagslega hliðin á vandamálinu, sem hér er tekið á í þessu frv. og mun vandinn samt reynast ærinn, svo að ekki sé blandað fleiri atriðum þar inn í. Sumir þm. segja að vísu nú: Þetta frv. tekur of lítið upp í sig. Aðrir segja, að þetta velti á hundruðum millj. o. s. frv., en ég veit það, að málið er stórt fjárhagslegt vandamál, og það var mér fyllilega ljóst, að ríkið hefur að ýmsu leyti búið í haginn fyrir landsbyggðina með stofnun heimavistarskóla víðs vegar um landið með skólakerfinu og lagt þar meira fé fram fyrir dreifbýlið en fyrir þéttbýlið rökum og eðli málsins samkv. Ég hafði heldur ekki uppi í minni framsöguræðu neinar ásakanir í garð ríkisins út af þessu. Ég vil bara benda á það, að einmitt vegna þess, hve ríkið hefur lagt í sölurnar þarna til að jafna aðstöðumun, þá kemur það ekki að gagni, nema því aðeins að hér sé hlaupið fjárhagslega undir bagga með því fólki, sem á að nota þetta kerfi, sem hæstv. menntmrh. var að lýsa. Annars standa heimavistarskólar auðir innan stundar nema þá að börnum og ungmennum frá efnuðum heimilum, og menntun á Íslandi og aðgangur til skólagöngu á ekki að vera háð efnahag eða landfræðilegum ástæðum eins og búsetu fólks í landinu.