30.10.1969
Neðri deild: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (2546)

47. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. neitt að ráði, enda gaf ræða hæstv. fjmrh. ekki tilefni til þess. Hann viðurkenndi, að þær upplýsingar, sem ég hef flutt hér, hefðu verið réttar, og ég hygg, að það sama geti ég sagt um það, sem hann sagði, eða a. m. k. mest af því, hann hafi eiginlega gert nokkuð hreinskilnislega grein fyrir afstöðu sinni til þessara mála og á hverju hann beri ábyrgð sem fjmrh.

Ég vildi aðeins segja í sambandi við þann samanburð, sem hann var að gera hér á sköttunum 1953 og nú, að eins og hv. seinasti ræðumaður benti á, þá er þar alls ekki um sambærilegar tölur að ræða, vegna þess að 1953 var söluskatturinn ekki kominn til sögunnar, en nú greiðir Dagsbrúnarfjölskylda 7.5% af eiginlega öllum þeim vörum, sem hún kaupir, í söluskatt, sem hún gerði ekki þá, og fleiri skattar hafa komið til sögunnar, og það breytir að sjálfsögðu stórkostlega þessu dæmi. Ég vil jafnframt minna á það, að þegar söluskatturinn var lagður á 1960, var hann rökstuddur með því, að hann ætti að vera til þess að koma í veg fyrir, að það þyrfti að leggja tekjuskatt á almennar launatekjur, sem í túlkuninni þýddi það, að t. d. Dagsbrúnarmenn ættu alveg að vera undanþegnir tekjuskatti. Eins og hann las upp hér áðan, þá er fjarri því, að svo sé, að þeir séu undanþegnir tekjuskatti í dag, og ég hygg, að í mörgum tilfellum séu skattarnir, sem þeir greiða, miklu hærri en hann nefndi, vegna þess að það er náttúrlega mjög mismunandi, hvað verkamenn hafa í tekjur. Það fer eftir því, hvað þeir vinna mikið, hvað þeir hafa mikla eftirvinnu og hvort það eru einhverjir af fjölskyldunni, sem þeir vinna með eða ekki, þannig að ég þekki allmörg dæmi þess, að verkamannafjölskyldur, sem hafa haft sæmilega atvinnu nú, — það náttúrlega gildir ekki um alla, — komast í hæsta skattstiga, eins og þessum málum nú er háttað.

Hann taldi það óvíst, hvort þetta frv. mundi ná til útsvaranna. Ég tel, að það sé ekki. Hér er um að ræða breyt. á 53. gr. skattal., umorðun á henni, og það sjá náttúrlega allir, að sú vísitala, sem hér er átt við í þessu frv., er skattvísitalan, en í útsvarsl. segir, að stigar þeirra og frádrættir skuli breytast til hækkunar eða lækkunar í samræmi við þá skattvísitölu, sem sé ákveðin í 53. gr. skattal. En þetta frv. fjallar um breyt. eða umorðun á þeirri gr., svo að ég held, að það hljóti að liggja í augum uppi, að ef þetta frv. yrði samþ., mundi það einnig ná til útsvarsog skattal. Ef það er ekki nógu greinilegt, þá er sjálfsagt að breyta orðalagi í þá átt. (Gripið fram í.) Já, það er að sjálfsögðu ætlazt til þess, vegna þess að í útsvarsl. segir, að frádrættir og skattstigar útsvaranna skuli breytast samkv. þeirri skattvísitölu, sem sé ákveðin í 53. gr. skattal. og það frv., sem hér liggur fyrir, er ekki annað en bara umorðun á 53. gr. Og það er tilgangur og ætlun flm., að þetta nái einnig til útsvara í samræmi við það, sem ég hef nú rakið.

En það, sem varð nú aðallega þess valdandi, að ég kvaddi mér hljóðs, voru þær upplýsingar hæstv. fjmrh., að við gerð fjárlagafrv. hafði verið reiknað með því, að skattvísitalan hækkaði ekki nema um 8 stig, held ég, að hann hafi sagt. Og það tel ég vera fjarri lagi og allt of lítið, og ég hef reyndar áður rakið ástæðurnar fyrir því. Ég vil aðeins nefna það til glöggvunar á þessu máli, að á árunum 1966–1967 hækkar framfærsluvísitalan eitthvað í kringum 25 stig, en þar á móti kemur skattvísitala, sem er 29 stig, þannig að framfærslukostnaðurinn hefur fengizt að fullu bættur á þessum tíma og jafnvel ríflega það. En síðan 1967 hefur framfærsluvísitalan hækkað um ein 43% og vísitala vöru og þjónustu enn þá meira, og þetta á ekki að bæta nema með 8 stigum á skattvísitölunni. Ég held, að það liggi alveg í augum uppi, að ef breytingin verður ekki meiri en þetta, þá fæst dýrtíðarhækkunin að sama og engu bætt, sú mikla dýrtíðarhækkun, sem orðið hefur á þessum tíma. Hins vegar er það ljóst, að á árunum 1968 og 1969 hefur kaupið hækkað sennilega í krónutölu um rúmlega 20%, og því liggur það alveg í augum uppi, að við skattlagningu á næsta ári, ef það verður ekki nema 8 stiga hækkun á skattvísitölunni, þá hljóta skattar á einstaklingum að stórhækka, þrátt fyrir það að kaupmátturinn hafi stórlega dregizt saman, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á. Ég treysti á það, að við nánari athugun verði hæstv. fjmrh. það ljóst, að þessi hækkun skattvísitölu er allt of lítil. Það má vel vera, að af ýmsum ástæðum treysti hann sér ekki til þess að fallast á það að þessu sinni, sem felst í þessu frv., en ég held, að hann hljóti við nánari athugun að gera sér grein fyrir því, að hann gengur allt of lítið til móts við það sjónarmið, sem í því felst, ef það verður ekki nema 8 stiga hækkun á skattvísitölunni.

Það má vel vera, ef það yrði svo rífleg breyting á skattvísitölunni, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., að það teldist eðlilegt að afla ríkissjóði einhverra tekna í staðinn, ég skal ekkert um það fullyrða, eða það á þá að draga úr útgjöldunum, og að sjálfsögðu ber að taka tillit til þess og vega það og meta, hvað er heppilegast fyrir launþega í þessum efnum. En ég held, að sú almenna þróun hér og annars staðar hafi verið sú, að þó að mönnum sé illa við óbeina skatta, sem leggjast á eyðsluna fyrst og fremst og þyrftu þá helzt að vera stighækkandi eftir því, um hvaða vöru væri að ræða, að launþegar hafa talið sér það heppilegra að fallast frekar á hækkun óbeinna skatta, ef það fengi fram lagfæringar á beinum sköttum, því að beinu skattarnir eru líka þannig vaxnir, þrátt fyrir alla skattalögreglu og hvað sem hún er holl, að þeir leggjast með miklu meiri þunga á launþega en allar aðrar stéttir. Aðrar stéttir hafa meiri möguleika til þess að komast fram hjá beinu sköttunum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða meira um þetta mál að sinni, en ég vænti þess, að það takist að athuga þetta mál þannig í n., að það náist samkomulag um einhverjar meiri endurbætur í þessum efnum en komu fram í ræðu hæstv. ráðh.