30.10.1969
Neðri deild: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (2547)

47. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér finnst þessar umr. vera mjög fróðlegar, og ýmislegt athyglisvert hefur komið fram í þeim og ekki sízt í síðari ræðu hv. 4, þm. Reykv., sem er fullkomlega þess virði að íhuga. Hann gerði sér fulla grein fyrir því, að mér skildist, að vitanlega þyrfti að afla ríkissjóði tekna, og hann gaf í skyn, að hann væri vel fáanlegur til að íhuga það mál að hækka óbeina skatta til þess, að hægt væri að lækka beinu skattana. Ég fyrir mitt leyti tel það ekki fráleita hugmynd, að ræða það atriði nánar. Það, sem fyrir mér vakir fyrst og fremst sem fjmrh., er, að ég verð með einhverjum hætti að fá peninga til að standa undir þeim útgjöldum, sem Alþ. leggur ríkissjóði á herðar. Það verður ekki hjá því komizt, og ef það fæst ekki með beinum sköttum, þá verður það að gerast með óbeinum sköttum.

Varðandi það atriði, sem einnig hv. 2. landsk. þm. kom inn á, að samanburður minn væri ekki nógu raunhæfur, vegna þess að ég tæki ekki tillit til óbeinu skattanna, þá tel ég það ekki rétt, að samanburður minn varðandi beina skatta sé neitt óraunhæfur að því leyti. Það var aldrei farið dult með það, eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði, að breytingin, sem gerð var 1960 með stórfelldri lækkun beinna skatta, átti að miðast við það, að menn með almennar launatekjur, eins og það var orðað, held ég, af þáv. fjmrh., væru skattfrjálsir til ríkisins. Það væri eingöngu hægt að gera með því að leggja á óbeina skatta, sem fyrst og fremst var þá gert með söluskatti, þannig að það fer ekkert á milli mála, hvað við erum hér að tala um í því efni.

Ég tel ekki, að það séu út af fyrir sig stórfelld vandamál að hækka söluskattinn um 1–2% til þess að ná fram stórfelldri lækkun á beinum sköttum til ríkissjóðs. En ég er ákaflega hræddur um það, að sveitarfélögin færu heldur harkalega út úr því, ef ætti að hækka skattvísitölu upp um 64–68 stig án þess að sjá þeim fyrir nýjum tekjustofnum. Það yrði að gera mjög róttækar ráðstafanir, til að þar yrði ekki algert öngþveiti, sem af þessari breytingu mundi leiða. Og ég vil jafnframt benda á það, og ekki sízt tel ég nú ástæðu til, að verkalýðsleiðtogar athugi það, hvaða afleiðingar þetta hefur, ef þessi ákvörðun er tekin. Þessi till., sem hér er um að ræða, hlýtur að leiða til þess, og það verða menn að gera sér ljóst, að fyrir þá menn, sem hafa hærri tekjur í þjóðfélaginu, eru þetta mjög veruleg hlunnindi. En fyrir margt fólk eru þetta engin hlunnindi, þ. e. a. s., það eru nokkur hlunnindi út af útsvörunum, en varðandi skattana til ríkisins eru þetta engin hlunnindi, vegna þess að enn í dag er það svo, að það stendur, sem ákveðið var á sínum tíma, að það eru ekki greiddir skattar af almennum launatekjum, því að þá var miðað við Dagsbrúnartaxta, þegar fjmrh. í þann tíma talaði um almennar launatekjur. Og maður með almennt Dagsbrúnarkaup og 8 tíma vinnu greiðir engan skatt til ríkisins, og jafnvel þó að fjölskyldur fari allverulega hærra en það með einu eða tveimur börnum, þá greiða þær heldur enga skatta til ríkisins, þannig að það er eins og rétt var sagt hjá öðrum hvorum hv. þm., að það eru vitanlega sveitarfélagaskattarnir, sem fyrir þessa aðila skipta meginmáli. Þó að persónufrádráttur verði aukinn til ríkissjóðs, þá eru það auðvitað engin hlunnindi fyrir fólk, sem ekki borgar neina skatta. Það eru hlunnindi þá fyrst og fremst fyrir þá, sem borga skattana í dag. Ég er ekkert að mótmæla þessum kenningum út af fyrir sig. En það getur vel verið, að menn vilji heldur fara inn á það að auka fríðindi skattborgaranna almennt svo stórkostlega, sem hér er talað um, og ég veit, að það munu margir fagna því, og leggja þá aftur á almenna og óbeina skatta. Þetta er atriði, sem er sjálfsagt að íhuga.

Varðandi það atriði, að þetta væri algerlega á valdi fjmrh., þá er það nú heldur ekki rétt. Það er formlega á valdi fjmrh, að vísu, en það liggur í rauninni alltaf ljóst fyrir, þegar tekjuskattaáætlunin er ákveðin frá Alþ. í fjárl., hvort það er reiknað með að nota skattvísitölu eða ekki. Og þess vegna get ég sagt það nú, að skattaáætlunin í fjárl. er miðuð við 8 stiga hækkun á skattvísitölu. Ef á að hækka þá vísitölu um 30–40 stig, þá náttúrlega gefur auga leið, að það verður þá að hækka óbeinu skattana í fjárlagaáætluninni, sem þessu nemur. Það koma þá væntanlega fram till. frá þeim, sem vilja styðja það, um að gera þá áætlun þetta miklu lægri, og þá vitanlega verður að grípa til einhverra óbeinna skatta til þess að mæta þessu, þannig að að þessu leyti fer þetta aldrei neitt dult og er ekki komið aftan að mönnum, hvort gert er ráð fyrir skattvísitöluhækkun eða ekki, því að þetta er miðað við áætlun Efnahagsstofnunarinnar. Að vísu getur hún aldrei orðið nákvæmlega rétt, en nokkurn veginn er hún rétt, þegar fer að nálgast áramót, um það, hvað er líklegt, að verði skattskyldar tekjur á næsta ári, þannig að þá má nokkurn veginn sjá þetta, þegar fjárl. eru afgreidd, hvað hugsanlegt er, að skattvísitala geti orðið. Um allt þetta er ég vissulega fús til þess að ræða, og mér finnst þetta hafa verið rætt hér öfgalaust, og þetta er aðeins spurningin um það, hvaða leiðir menn vilja fara til að ná tilteknu marki.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja það frekar, að við höfum mismunandi skoðun á, hvernig skattvísitölu skuli skilja. Ég hef mína ákveðnu skoðun á því, að hún eigi ekki að vera nein kjarabót, heldur eigi að sjá til þess, að það sé ekki hlutfallslega tekinn stærri hluti af tekjum manna en áður var. Þó að það hafi orðið kjararýrnun með öðrum hætti, þá sé það ekki skattvísitölunnar að bæta það upp. Aðrir hafa annað sjónarmið á því, og það má vel hugsa sér, að hið háa Alþ. vilji ganga inn á það sjónarmið og þá sjá ríkinu fyrir teljum með öðrum hætti.

Ég vil svo aðeins leiðrétta það, sem kom fram hjá hv. 2. landsk. þm., um uppreisnarástandið, sem hann talaði um, 1964. Það er náttúrlega ekkert hliðstætt því, sem er verið að tala um nú, vegna þess að ástandið, sem þá var, byggðist á því, að skattarnir hækkuðu svo geysilega vegna þeirra miklu tekjuhækkana, sem urðu, án þess að það yrði nokkur umreikningur á tekjunum. Nú hefur slíkt ekki átt sér stað, því miður, að tekjur manna hafi hækkað neitt teljandi, þannig að skattahækkanir hafa ekki orðið nema sáralitlar hjá hinum almennu borgurum, svo að það eru ekki hliðstæð viðhorf nú, sem gæti leitt til uppreisnarástands á sama hátt og þá var, og ég játa, að þá var mikil ólga, vegna þess að menn sáu, þegar þeir sáu skattskrána, að þeir komust í miklu hærri skatta en þeir höfðu haft árið áður. Ég held sannast sagna ekki, að skattgreiðendur geri ráð fyrir því, þótt það hafi orðið kjararýrnun og peningarnir endist ekki vel, að þeir muni með því borga lægri skatta af sambærilegum tekjum. Það held ég nú ekki, að sé almennt skilningur fólks.

En ég aðeins endurtek það að lokum, ég er ekki að deila við þessa ágætu þm., heldur aðeins að reyna að draga fram mismunandi sjónarmið og hliðar á þessu máli, sem þeir einnig, veit ég, hafa velt fyrir sér, og mér finnst þetta mál hafa verið rætt af raunsæi og viðurkenningu á staðreyndum, og hér þurfa menn bara að gera upp sinn hug, hvaða leiðir þeir vilji velja.