11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (2561)

58. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það ber vissulega að fagna sérhverjum áhuga í þá átt að gera skattkerfið og skatteftirlitið virkara og jafnframt að draga úr kostnaði við það. Ég hef margoft lagt áherzlu á nauðsyn beggja þessara atriða og tel ekki þurfa að leggja áherzlu á þau rök, en það eru aðeins nokkur orð, sem ég vildi segja í tilefni frv., sem hér liggur fyrir. Ég er ekki því andvígur á neinn hátt, að það verði valin prósentutala framtala til nákvæmrar rannsóknar.Hugsunin á bak við það er góð að því leyti til, að hún gæti stuðlað að því, að það væru engar efasemdir um það, að það væri ekki fullkomin hlutlægni látin ráða við val framtalanna. Hins vegar er málið ekki enn komið á það stig, að það sé talið heppilegt að fara þá leið. Þetta var rannsakað bæði í fyrra og árið þar áður í samráði við ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, og þeir töldu ekki heppilegt að fara þá leið, og það mundi beinlínis auka stórlega vinnu hjá skatteftirlitinu, ef ætti að fara að taka úr 10% framteljenda, vegna þess að það væri aldrei hægt að komast hjá því, a. m. k. ekki enn sem komið er, að það yrði að halda áfram hinu almenna eftirliti með skattframtölum engu að síður. Ekki er hægt að láta sér nægja þessa 10% úrtaksreglu. Nú er þessi úrtaksregla, að því er mér skilst, við það miðuð, að hún gildi ekki aðeins varðandi skattrannsóknirnar, heldur verði hún viðhöfð við skattálagninguna yfir höfuð, þannig að önnur framtöl verði tekin góð og gild. Hugmyndin, sem ég gat um áðan, hefur oft verið fram sett í sambandi við skattrannsóknardeildina, að hún ætti að taka 10% framtala til heildarathugunar, og þá gert ráð fyrir, að skattstofurnar ynnu sem áður að athugun framtalanna. En hv. flm. þessa frv. virðast miða við það, að það sé nægilegt að taka 10% framtalanna og láta hitt lönd og leið, vegna þess, að ef menn viti það, að þeir verði teknir til rækilegrar athugunar, þá mundi það leiða til þess, að þeir telji réttar fram. Ég held ekki, að þetta hafi mikil áhrif í þessa átt, og það kemur m. a. fram í því, sem hv. þm. sagði, að við höfum núna síðustu tvö árin til þess að hraða álagningu útsvara og auðvelda hana látið leggja á skattana án þess að láta fara fram athugun á skattframtölum. Þau hafa svo verið athuguð eftir á. En eins og hv. þm. sagði, hefur þetta leitt til þess í stórum stíl, að það hafi þurft að lagfæra. Að vísu er þetta nú ekki í mjög stórum stíl. Það er ótrúlega lítið, sem hefur þurft að breyta. Það leikur þó á allverulegum fjárhæðum. Því er ekki að leyna. En þetta stafar ekki af því, að þessir aðilar allir séu að svíkja undan skatti, og það mundi ekki breyta ákaflega miklu um nákvæmni þessara aðila, nema kannske síður sé, þó að þeir vissu, að það væri einhver 10% regla, sem gilti og 90% af framtölunum væri alls ekki horft á, af því að í langflestum tilfellum hefur það komið í ljós, að þetta er meira og minna gáleysi, sem hér er um að ræða. Menn hafa gleymt upphæðum, launagreiðslum og ýmis misskilningur veldur því, að framtöl eru með öðrum hætti en rétt er, og auðvitað er ekki hægt að refsa mönnum fyrir þetta. Það er engin sanngirni í því nema því aðeins, að menn sjái, að vísvitandi sé verið að skjóta undan fé frá skattlagningu, þannig að ég mundi telja það ósköp gott, ef það væri hægt að tryggja öryggi í þessu með því að skoða aðeins 10% skattframtala og láta hitt eiga sig. En ég held, að það sé skoðun skattyfirvalda, að þetta hlyti að leiða af sér fremur tjón en hitt í sambandi við innheimtu skatta einmitt af þeim sökum, eins og ég sagði, að mikið af þessu, sem fram kemur við endurskoðun skattframtala, er lagfært, án þess að um kæru sé að ræða, vegna þess að það sýnir sig að stafa af öðrum ástæðum en vísvitandi skattsvikum.

Ég skal hins vegar ekkert vera að hafa á móti þeirri hugsun, sem hér er á bak við, eða gagnrýna hv. þm. Ég veit, að það vakir ekki nema gott fyrir þeim að reyna að koma hér við auknum sparnaði, en ég held, að þessi sparnaður yrði á kostnað öryggisins. Og án þess að ég ætli að ræða þetta mál nánar, vildi ég mjög beina því til hv. n., sem fær þetta til meðferðar, að hún ræði þetta ýtarlega bæði við ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, hvort hér sé ekki farið út á varasama braut.

Varðandi hitt atriðið, sem í rauninni er ekki það, sem þetta frv. á við, en sem ég gat um í upphafi míns máls, að fara þá leið, sem stundum hefur verið hér borin fram till. um í sambandi við skattrannsóknirnar sem slíkar, að miða þær við 10% framtala samkv. útdrætti, er það einnig mjög vafasöm aðferð, og til þessa hefur skattrannsóknarstjóri lagzt gegn því, að það væri gert. Það hafa verið gerðar tilraunir með þetta varðandi einstök sveitarfélög að athuga, hvernig slíkur útdráttur mundi koma fram, og það er ljóst, að með því mundi verða lagt í margvíslega vinnu, sem er gersamlega ástæðulaus, vegna þess að svo og svo mikið af framteljendum eru menn, sem aldrei kemur til álita, að þurfi að skoða, og það yrði í rauninni fyrst að velja úr vissa hópa manna og flokka, sem ekki skipta neinu máli eða eru þannig settir, að það er ljóst, að það getur ekki verið um nein skattsvik eða undanskot fjár að ræða, og taka síðan 10% regluna út úr þeim, sem eftir yrðu, sem er takmarkaðri hópur. En kjarni málsins er sá, a. m. k. miðað við þann mannafla, sem nú er fyrir hendi hjá skattrannsóknardeildinni, þá mundi þetta leiða af sér auknar kröfur um mannafla, vegna þess að það falla alltaf til svo mörg mál, sem er augljóst, að ekki er hægt að varpa frá sér, sem er sýnilega grunsamlegt og gruggugt á bak við, að það er auðvitað ekki hægt að leggja slík mál til hliðar, þó að þau féllu ekki undir neina slíka 10% reglu.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja umr. um þetta mál. Ég er alls ekki að gagnrýna þá hugsun, sem hér liggur að baki, að það væri æskilegt að leita úrræða, til þess að skatteftirlitið gæti orðið sem ódýrast, jafnframt því, sem ég veit, að við hv. frsm. erum sammála um, að það eigi að vera sem virkast. En ég er hræddur um það, að með þessari aðferð, sem hér er lögð til, stefni ekki í þá átt, og án þess að leggja frekari dóm á það sjálfur, þá eru það sem sagt ákveðin tilmæli mín til hv. n., að frv. verði rætt ýtarlega við þá menn, sem bezt þekkja til þessara mála, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, áður en endanleg afstaða verður tekin til málsins í n.