30.01.1970
Neðri deild: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

149. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég verð nú nánast að biðja afsökunar á því, að þetta frv. skuli aftur vera komið hingað til þessarar hv. d., því að það stafar af formgalla á frv., sem kom í ljós í Ed. Harma ég það mjög, því að frv. er útbúið í mínu rn. og ber ég að sjálfsögðu ábyrgð á því. Þetta er að vísu ekki stórkostlegt atriði, en var þó nauðsynlegt að lagfæra. En efni málsins var það, að það vantaði gildistökuákvæði í frv. og því var í Ed. áðan samþ. brtt. þess efnis, sem hv. þm. vita, að er hin almenna klásúla með öllum lögum, að lög þessi taka nú þegar gildi. Það er sú breyting ein, sem hefur verið gerð á frv. í hv. Ed., en gerði nauðsynlegt, að það færi aftur til þessarar hv. d.

Vonast ég til, að það geti fengið hér þá sömu meðferð og áður, að menn geti fallizt á frv. almennt, eins og það liggur fyrir með þessari breytingu.