13.11.1969
Neðri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (2573)

63. mál, söluskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Mér þykir leitt, að ég virðist hafa misskilið það, sem hv. þm. sagði í frumræðu sinni varðandi söluskattinn, að hann yrði þá hafður hærri á öðrum vörum. Ég hafði skilið það svo, að hann meinti mismunandi söluskatt, sem er ekki óþekkt fyrirbrigði, en eins og ég sagði áðan, er yfirleitt verið að hverfa frá þessu af framkvæmdaástæðum, sem ég gat um, sem raunar hv. þm. tók undir einnig.

En það breytir ekki hinni röksemdinni, sem ég gat um áðan, að það er illgerlegt að undanþiggja söluskatti vörur, þar sem um er að ræða blandaða sölu. Það er ómögulegt að hafa eftirlit með sölu í verzlunum, sem hafa á boðstólum bæði söluskattsskyldar og ósöluskattsskyldar vörur, eins og t. d. mundi verða um kaffi, sykur og kornvörur. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að það eru til vissar vörutegundir, sem eru aðeins seldar í algerum sérverzlunum, og það má auðvitað hugsa sér, að það sé hægt að undanskilja slíka vöru, enda eru til vörur, sem eru undanþegnar söluskatti, og ég skal efnislega fallast á, að það er framkvæmanlegt, hvort sem mönnum kann að þykja það æskilegt eða ekki, að hækka meir aftur söluskatt á öðrum vörum. Ég held þess vegna, að okkur út af fyrir sig beri ekki mikið á milli í þessu efni.

Mér skilst það, að hv. þm. telji við nánari athugun, að hann vilji ekki gerast talsmaður þess að valda neinu því, sem leiðir til aukinnar hættu á undanskoti söluskatts og þar af leiðandi ekki taka vöruflokka undan söluskatti, sem mundi valda erfiðleikum á eftirliti, og það kemur þá til athugunar á sínum tíma.

Ég veit það vel, að það er visst áhyggjuefni hjá bændasamtökunum, og það hefur komið fram hjá þeim, ef gengið yrði í EFTA og aukinn almennt söluskattur, að hækkun á söluskatti enn á búvörum mundi verða til þess að draga úr neyzlu þeirra. Það er rétt hjá hv. þm., þannig að þessi skoðun er manni ekki ókunn. Hvort hægt verður að einhverju leyti að mæta þeim óskum, skal ég ekkert um segja á þessu stigi. Hugleiðingarnar varðandi hækkun söluskattsins eru ekki komnar svo langt og ekki enn þá orðið ljóst gerla, hvaða útgjaldatjóni ríkissjóður yrði fyrir, ef gengið yrði í EFTA og framkvæmd 30% lækkun verndartolla nú um næstu áramót, að hægt sé að segja um það, hvað söluskattsprósentan þyrfti endilega að vera, þannig að ég tel mér ekki fært að ræða málið nánar um það atriði.

En mér þykir, eins og ég segi, vænt um að heyra, að okkur ber ekki á milli í því, hv. þm. og mér, þó að hann telji rétt að fella niður söluskatt af ýmsum vörum, að það verði gert með þeim hætti, að það leiði ekki til vandræða í framkvæmd og dragi úr eftirliti. Mér þykir einnig vænt um að heyra það, að hann gerir sér fulla grein fyrir því, að það sé ekki hægt að framkvæma svo stórfellda tekjuskerðingu, sem hér er um að ræða. Hvort hún er 250 millj. eða 350 millj., það auðvitað skiptir 100 millj., en í báðum tilfellunum er þar um svo geysilega upphæð að ræða, að það er auðvitað ekki hægt annað en mæta henni með einhverjum hætti, þar sem sparnaðurinn, sem kæmi fram í lækkaðri vísitölu, eins og ég gat um og byggi þar á þeim upplýsingum, sem hv. þm. gaf um, hver væri líkleg vísitölulækkun, mundi fyrir ríkissjóð sem slíkan ekki hafa nema tiltölulega sáralitla þýðingu.

Ég skal ekkert segja um það, eins og ég áðan sagði, hvor tala okkar hv. þm. er rétt. Útreikningurinn, sem ég taldi mig hafa hér í höndunum, átti að byggjast á því frv., sem hér liggur fyrir, en eins og ég segi, vil ég ekkert um það deila við hv. þm. Allavega eru tölurnar svo háar, að eins og ég áðan sagði, þó að við færum bil beggja í því og reiknuðum með, að það væru 300 millj., eða jafnvel þó að það væri tekin hans tala, 250 millj., þá er auðvitað um slíka upphæð að ræða, að það er ekki gerlegt fyrir ríkissjóð að missa þann tekjustofn, nema þá að finna önnur úrræði.

Ég tel sjálfsagt, að þetta mál verði skoðað í n., og það verður sjálfsagt að bíða endanlegrar meðferðar eftir því, hvernig mál skipast varðandi tekjustofnamál ríkissjóðs og varðandi endanlega afgreiðslu fjárlaga og síðan kæmi það væntanlega til athugunar þá hér, ef hér kemur til meðferðar á sínum tíma frv. frá ríkisstj. um breytingu á söluskattinum.