11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (2577)

66. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Stefán Valgeirsson) :

Herra forseti. Við hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmur Hjálmarsson, höfum leyft okkur að koma hér fram með brtt. við l. um tekju- og eignarskatt nr. 90 frá 1965. 1. gr. frv. er þannig:

„Síðasti málsl. 3. málsgr. 3. gr. l. orðist svo: Aldrei kemur þó hærri upphæð til frádráttar en 50.000 kr.“

Frv. þetta var flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki samþykki. Í l. um tekjuskatt og eignarskatt eru ákvæði, er heimila hjónum að draga frá skattskyldum tekjum sínum 50% þeirra tekna, er konan vinnur fyrir, enda sé teknanna ekki aflað hjá fyrirtæki, sem hjónin, annaðhvort eða bæði, eða ófjárráða börn þeirra eiga eða reka að verulegu leyti. Vinni konan við eigin atvinnurekstur hjónanna, eiga þau rétt á því, að metinn sé hlutur konunnar af sameiginlegum, hreinum tekjum hjónanna miðað við beint vinnuframlag hennar við öflun teknanna og dregin 50% frá hlut hennar, áður en skattgjald er lagt á hinar sameiginlegu tekjur hjónanna. En hér fylgir böggull skammrifi, því að eins og stendur í l. má þessi upphæð aldrei vera hærri en 15 þús. kr.

Sú mismunun, sem þarna á sér stað, er í eðli sínu mjög hæpin. Kona, sem vinnur við atvinnurekstur fjölskyldunnar, á að njóta sama réttar við skattlagningu og hin, sem starfar hjá öðrum. Hins vegar getur verið mjög erfitt að meta vinnuframlag konunnar við öflun teknanna, og höfum við flm. þessa frv. því ekki lagt það til að breyta þessu ákvæði í þetta sinn. Breyting sú, er þetta frv. felur í sér, er aðeins sú að hækka þá upphæð, sem ákveðin er í l., til samræmingar við annað verðlag í landinu. Þetta ákvæði í l., að ekki megi draga hærri upphæð en 15 þús. kr. frá skattskyldum tekjum vegna vinnu konu í eigin atvinnurekstri, er frá árinu 1960. Þessi upphæð hefur haldizt óbreytt síðan, þó að allt verðlag og kaupgjald hafi meira en þrefaldazt síðan. Er því kominn tími til að leiðrétta þetta. Árið 1958 var þetta lögákvæði á þann veg, að frádráttarupphæðin mætti aldrei vera hærri en tvöfaldur persónufrádráttur konunnar, en persónufrádráttur einstaklings árið 1958 var 6500 kr. og því frádráttarupphæðin 13 þús. kr. Þannig var þetta fyrir 11 árum, og enn þann dag í dag er þessi upphæð aðeins 15000 kr. Á þessu sést, að umrætt ákvæði l. er gersamlega úrelt og ekki í neinu samræmi við það, sem ætlazt var til, þegar þessi l. voru sett, og því vona ég, að hv. þd. geti fallizt á að samþykkja þessa breyt.

Herra forseti. Ég legg svo til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn. að lokinni þessari umr.