13.11.1969
Neðri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2582)

67. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Helgi Bergs) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli, því að hér er um að ræða atriði, sem er alkunnugt og hefur oft komið til umr., en það er breyt. á l. um tekju- og eignarskatt í þá átt, að heimilaðar verði fyrningar á föstum fjármunum í samræmi við endurkaupsverð þeirra, þannig að fyrningarsjóðir svari til endurkaupsverðs hins fyrnda hluta eignarinnar á hverjum tíma.

Þetta vandamál, sem er auðvitað ein af mörgum afleiðingum þeirrar verðbólguþróunar, sem hér hefur legið í landi um áratugi, hefur oft komið til umr. á ýmsum vettvangi, og ég sé t. d. í blaði í morgun, að á iðnþingi hefur Landssamband ísl. iðnaðarmanna samþykkt till., sem ganga í þessa stefnu, og fyrir nokkrum vikum var svipuð till. samþ. í Verzlunarráði Íslands, ein af 9 till. um skattamál, sem það afgreiddi. Vandamálið er sem sagt fólgið í því, að þegar fyrningar eru miðaðar við kostnaðarverð, sem fer svo síhækkandi allt fyrningartímabilið, verður fyrningarsjóður að tímabilinu enduðu ekki nema fyrir broti af því, sem kostar að endurnýja hina fyrndu eign. Vissulega skapar verðbólgan okkur mörg fleiri vandamál af þessu tagi en þetta eitt. Það er í sjálfu sér alveg sama vandamálið, sem kemur fram, þegar menn leggja sparifé á banka og sækja það svo aftur eftir árabil. En á því vandamáli höfum við þó reynt að ráða nokkra bót með l., sem hér voru samþ. fyrir nokkrum árum um verðtryggingu fjárskuldbindinga, þótt þau l. hafi því miður ekki komið til framkvæmda enn.

Fyrir allmörgum árum, það mun hafa verið árið 1963 eða 1964, var samþ. breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, sem gekk í þá sömu stefnu og þetta frv. að því leyti til, að heimilað var endurmat eigna í eitt skipti fyrir öll, þeirra eigna, sem keyptar voru eða aflað var fyrir árið 1962. Það var heimilað endurmat þeirra til nýs verðlags, þar sem hið nýja verðlag yrði síðan notað sem fyrningarstofn, og auðvitað var þetta til mikilla bóta að sjálfsögðu fyrir allan atvinnurekstur, en það sótti á hinn bóginn fljótt í sama horfið, og við flm. þessa frv. erum þeirrar skoðunar, að það nægi ekki að breyta slíku mati öðru hverju, heldur þurfi að haga fyrningum frá ári til árs, þannig að fyrningarsjóðir séu í samræmi við það verðlag eignanna, sem á hverjum tíma er. Þetta frv. gengur sem sagt í þá stefnu.

Okkur er það auðvitað ljóst, flm., að það er ekki nóg að hafa heimildir í skattal. til þess að fyrna eignir með þessum hætti, ef afkoma reksturs landsmanna er yfirleitt á þann veg, að tekjur nægja ekki til slíkra afskrifta, en okkur virðist á hinn bóginn, að ef svo er, þá er enginn vinningur í því að fela það með afskriftarreglum, sem eru í raun og veru ekki í samræmi við neinn raunveruleika. Þetta frv. felur ekki aðrar breytingar í sér en þessa, og má vera, að það sé tæknivöntun í frv. Ég hef að vísu leitað til sérfróðs manns í sambandi við það, en það má vera eigi að síður, að af samþykkt þessa frv. mundi leiða, að það þyrfti að gera nokkrar fleiri breyt. til samræmis á l. um tekju- og eignarskatt. Ég geri ráð fyrir því, ef þetta frv. fær þá eðlilegu meðferð að vera sent til umsagnar, þá komi það fram, og má þá bæta úr, ef nauðsynlegt væri t. d. að breyta einnig 22. gr. til samræmis við þetta.

Ég skal svo ekki hafa þessa framsögu lengri, herra forseti, en legg til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.