13.11.1969
Neðri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (2584)

67. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Helgi Bergs) :

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. kvartaði nú hér áðan undan því hlutskipti, sem honum hefur fallið í skaut, að þurfa að andmæla hér öllum frv., sem lögð eru fram til endurbóta á skattal., en hann telur það víst í samræmi við embættisskyldu sína. Ég verð nú að láta í ljós nokkurn vafa um, að það sé nú nákvæmlega réttur skilningur, en andmæli hæstv. fjmrh. í þessu máli voru nú ákaflega hófleg, og ég get raunar þakkað honum fyrir undirtektirnar, vegna þess að hann var í grundvallaratriðum sammála þeirri hugsun, sem þetta frv. byggir á, og ég hef þess vegna í rauninni engu að svara. Ég get þvert á móti tekið undir ýmislegt, sem hæstv. ráðh. sagði.

En mig langar til þess að segja örfá orð um nokkur atriði þess, sem hann drap á, sem ég hafði ekki minnzt neitt á á undan, og í ræðu hæstv. ráðh. komu raunar fram fróðlegar upplýsingar, sem ég þakka fyrir. Það var það, sem hæstv. ráðh. upplýsti um, að efnislega hefði þetta mál legið fyrir sem eitt atriði bókhaldsl. fyrir nokkrum árum, en þá ekki fundið náð fyrir augum hv. Alþ. Þetta sýnir auðvitað ekkert annað en það, að skýrum getur líka skotizt, og það verður bara að taka málið til nýrrar skoðunar og setja það í brennidepil með því að taka það út af fyrir sig, eins og hér er gert.

Ég vil líka í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. upplýsti, að heimildin, sem samþ. var hér til endurmats eigna fyrir nokkrum árum, hefði verið notuð í tiltölulega fáum tilfellum. En mér er nú nær að halda, að hún hafi verið notuð mikið af ýmsum heilbrigðustu fyrirtækjum landsins. Ég á við það, að t. d. fjölskylduhlutafélög og önnur slík munu kannske ekki hafa notað hana mjög mikið, en ýmsir aðrir munu hafa notað þessa heimild, og ég skildi heldur ekki hæstv. ráðh. þannig, að hann hefði ekki talið, að þessi heimild hefði verið eðlileg og það hefði verið rétt að setja hana.

Hæstv. ráðh. drap á það, að það kynni að orka tvímælis, þegar fasteignamat hefur nú verið fimmtánfaldað, hvort það eigi að halda áfram að leyfa frádrátt 4% fyrninga eða hvað það er í raun og veru á venjulegum húsum. Hér er ég þeirrar skoðunar, að það, sem máli skiptir, sé að hafa fyrningar sem allra mest í samræmi við raunveruleikann. Ef mönnum finnst, að skattabyrðar húseigenda séu léttar allt of mikið með því móti, þá kemur miklu frekar til greina að mínum dómi, að athuga breytingar á fasteignasköttum en vera með fyrningar, sem eru ekki í neinu samræmi við raunverulegt verð eignanna. Og alveg með sama hætti hef ég ekki verið neitt voðalega hrifinn af því, að á sumum tegundum framleiðslutækja, eins og skipum og vissum vinnslustöðvum, eru leyfðar feiknamiklar afskriftir fyrstu árin, til þess að lækka verðmæti eignanna niður strax í byrjun. Þetta er heldur ekki í samræmi við það, sem mér virðist vera eðlileg fyrning eignanna, því að auðvitað eru eftir miklu meiri verðmæti í þessum eignum en 20% eftir fjögur ár. Hæstv. ráðh. gat um það, að fyrningarreglurnar hér væru ekki svo mjög slæmar, vegna þess að fyrningarprósentan væri nokkuð rífleg og tíminn, sem væri til afskriftanna ætlaður, væri tiltölulega stuttur. Mér virðist, að þetta geti ekki komið í staðinn fyrir réttan fyrningarstofn. Mér virðist, að við eigum að reyna að hafa líka þetta sem næst sanni.

Hæstv. ráðh. upplýsti það, að n. væri nú starfandi, sem m. a. væri að athuga fyrningarreglurnar í sambandi við athugun á stöðu atvinnurekstursins yfirleitt, og ég tel þess vegna mjög eðlilegt, að sú n., sem væntanlega fær þetta frv. til athugunar, leitaði upplýsinga hjá þeirri n., sem hefur verið að starfa að þessum efnum, og ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að ítreka till. mína um það, að þessu frv. verði vísað til hv. fjhn. og til 2. umr.