17.11.1969
Neðri deild: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (2591)

77. mál, Útgerðarstofnun ríkisins til atvinnujöfnunar

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Togaraútgerð og endurnýjun togaraflotans eru mjög á dagskrá hjá Alþ. nú að þessu sinni, og má segja, að það sé kannske ekki neitt óeðlilegt, því að sú staðreynd blasir við, að samdráttur hefur verulega orðið í togaraútgerð hjá okkur, og endurnýjun skipa af þeirri gerð, sem við höfum fram að þessu átt, hefur ekki átt sér stað. Það, sem þó er sameiginlegt með þeim frv., sem fyrir liggja bæði í hv. Ed. og eins hér í þessari d., er það, að þar er því beint að ríkisvaldinu, að það taki þessi mál í sínar hendur og annist útgerð skipanna.Þetta frv. lá hér fyrir síðasta þingi, ef ég man rétt, eða frv. í svipuðu formi, og lýsti ég afstöðu minni til þess þá og tel ekki þörf á að endurtaka það núna, en ég sagði þá, eins og ég get reyndar alveg sagt við þetta tækifæri, að ég hef ekki trú á ríkisrekstri á togurum. Ég tel, að sú reynsla, sem fengizt hefur af bæjarrekstri þessara skipa, sé á þann veg, að það sé ekki það fordæmi, sem okkur kannske hentar bezt. Hvort það sé eðlilegt, að ríkið leggi eitthvað af mörkum og beiti sér beinlínis fyrir því, að endurnýjun togaraflotans eigi sér stað, er allt annað mál, og hef ég alltaf haft þá skoðun og hef hana enn, að það væri þá eðlilegast, að það gerðist í samráði við þá menn, sem mesta reynslu og bezta þekkingu hafa á þessum málum og mesta möguleika til að reka skip af þessari gerð með einhverjum árangri.

Í sambandi við þá hugmynd, sem hér er fram sett í þessu frv., er það ein fsp., sem ég hefði viljað beina til hv. flm. Það er þar talað um tvær gerðir skipa, sem hin fyrirhugaða Útgerðarstofnun ríkisins ætti að reka. Það er í fyrsta lagi skuttogarar af stærðinni 1500–2000 tonn. Ég hygg, að Íslendingar hafi enga reynslu í rekstri slíkra skipa. Ég held, að það sé rétt með farið hjá mér, að í eigu Íslendinga hafi aldrei verið til slík skip af þessari stærð. Ég tel, að það væri mjög fróðlegt og jafnvel nauðsynlegt fyrir þá n., sem fær þetta mál, og raunar fyrir hv. alþm. alla að fá upplýsingar frá flm., í fyrsta lagi um stofnkostnað skipa af þeirri stærð, sem þarna eru tilgreind, og í öðru lagi, hvort þeir hafi gert sér nokkra hugmynd um rekstrarmöguleika og hugsanlega rekstrarafkomu skipa af þessari stærð. Ég tel, að þetta frv. verði varla rætt hér í d. af neinni alvöru og megi varla vænta nokkurs árangurs af því, nema flm. geti veitt einhverjar upplýsingar í þá átt, sem ég hef hér minnzt á, bæði í sambandi við stofnkostnað og hugsanlegan rekstrarkostnað og rekstrarafkomu skipa af þessari stærð, því að það náttúrlega er varla hægt að bjóða Alþ. upp á það að fara alveg blindandi í það að ákveða með l., að stofnað skuli til útgerðar af tiltekinni stærð, án þess að fyrir liggi nokkrar upplýsingar um rekstrarmöguleikana og hve mikið það mundi kosta ríkið að reka slík skip eða hvort hugsanlegt væri, að af þeim gæti orðið rekstrarhagnaður.

Um hina hliðina á málinu, þar sem talað er um kaup á bátum af vissri stærð, 250–400 tonna, þá er það atriði, sem við þekkjum. Ég fór nýlega gegnum sjómannaalmanakið og sá af því, að í eigu Íslendinga eru nú 105 bátar af stærðinni frá 200–500 tonn. Við vitum nokkuð um stofnkostnað þessara báta, eins og hann hefur verið og jafnvel eins og hann er nú. Einnig vitum við nokkuð um möguleika á að reka þessi skip, þannig að þar horfir málið nokkuð öðruvísi við, og ætla ég ekki af þeim ástæðum að fara fram á það, að flm. leggi fram gögn eða veiti upplýsingar um stofnkostnað eða rekstrarkostnað, því að ég tel, að hægt sé að afla á nokkuð raunhæfan hátt upplýsinga frá þeim aðilum, sem eru eigendur slíkra skipa, sem nú eru í rekstri.

Eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem hv. flm. ræddi nokkuð í framsöguræðu sinni, var hugmyndin um að dreifa afla skipanna á hinar ýmsu hafnir landsins. Vissulega væri þetta mjög gott, ef hægt væri að beina togaraútgerð inn á þá braut, að aflanum yrði dreift á þá staði, þar sem helzt væri þörf fyrir aukna atvinnu hverju sinni. En á þessu er einn erfiðleiki, sem ég þekki og ég hygg, að allir, sem einhvern tíma hafa fengizt við togaraútgerð, þekki nokkuð, en það er í sambandi við áhafnir skipanna. Áhafnirnar eiga samkv. samningum visst landgönguleyfi og visst frí í landi, þegar skipið kemur í heimahöfn. Hvernig þessu yrði komið fyrir, ef skipið ætti að landa á 3, 4, 5 eða 6 stöðum úti á landi, er mér sannarlega ekki ljóst, og ég vissi, að á sínum tíma var mjög erfitt að fá menn til að skrá sig á skip úti í dreifbýlinu, sérstaklega menn héðan úr þéttbýlinu, og það er enn þá erfiðara að fá þá til þess að fara með hluta af farminum kannske frá Faxaflóa eða Vestmannaeyjum, meðan við rákum togarana, og eitthvað út á landsbyggðina. Þetta stóð í sambandi við þann rétt, sem þeir höfðu skapað sér í samningum við togaraeigendur, og þeir töldu með eðlilegu móti, að það væri tekjurýrnun fyrir þá, ef skipið væri tafið frá fiskveiðum með því að láta það landa víðar en í einni höfn og dreifa aflanum þannig á ýmsa staði út um landið. Þetta er alveg rétt. Það mundi tefja skipið um 4, 5 eða 6 daga í veiðiferð, ef það yrði sent frá Faxaflóasvæðinu vestur á firði, norður um land eða austur um land, og tekjumöguleikar áhafnar mundu minnka við það.

Nú má það vel vera, að þarna yrði kannske annað viðhorf, ef þarna er um stór skip að ræða, sem yrðu þá í burtu svo og svo lengi á fjarlægari miðum, því að ég geri ráð fyrir, að það vaki fyrir flm., að skip af þessari stærð, 1500–2000 tonn, hljóti að vera gerð út á fjarlægari mið, en ekki heimamið, því að það hygg ég, að engum kæmi til hugar, að gert yrði. En þetta er örugglega atriði, sem mun valda erfiðleikum í sambandi við rekstur slíkra skipa, ef til kæmi.

Ég skal nú ekki tefja umr. um þetta mál frekar að þessu sinni, en ég vil mjög eindregið fara fram á það, að flm. létu í té, annaðhvort nú við þessa umr. eða þá í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, upplýsingar um þessi tvö atriði, sem ég hef hér minnzt á, þ. e. stofnkostnað skuttogara af stærðinni 1500–2000 tonn og aftur rekstraráætlun yfir útgerðina.