12.12.1969
Neðri deild: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

126. mál, söluskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um breyt. á l. um söluskatt, sem hér liggur fyrir, felur í sér þá breytingu, að í stað þess, að söluskattur er nú 7 1/2%, verði hann 11% og er gert ráð fyrir, að þessi breyting taki gildi frá 1. marz n.k. Frv. þetta er í sambandi við aðildina að EFTA og þá breytingu á tollskránni, sem ég gerði hér grein fyrir í gær og vék ég þá í meginefnum að breytingunni á söluskattinum og hvað fælist í þeirri breytingu, þ.á.m. nefndi ég þær upphæðir, sem hér er um að ræða og sé ég því ekki ástæðu til þess að þreyta hv. þdm. með því að endurtaka það hér á nýjan leik.

Í þessu frv. er gerð önnur breyting á l. um söluskatt, en hún er sú, að í núgildandi l. er að finna tiltekin ákvæði um það, hvernig haga skuli innheimtu söluskatts, en nú er gert ráð fyrir, að þau ákvæði verði felld niður, en hins vegar verði með reglugerð kveðið á um, hvernig haga skuli innheimtu söluskatts, álagningu hans, framtalsfrestum og öðru slíku. Þetta er í sambandi við það, sem ég gat um hér í gær, að það væri nauðsynlegt að breyta innheimtu söluskatts, þegar hér væri orðið um svo miklar fjárhæðir að ræða sem raun ber vitni, auk þess sem ljóst er, að verði innheimtu söluskatts hagað eins og verið hefur, þá muni verða mjög verulegur greiðsluhalli hjá ríkissjóði á árinu 1969, þar eð ekki mundi skila sér söluskattur nema fyrir tvo ársfjórðunga. Ég vék jafnframt að því, sem öllum hv. þdm. er kunnugt, að það skapar mikla röskun í þjóðfélaginu, sérstaklega innan bankakerfisins, að ársfjórðungslega séu krafnar inn svo geysistórar fjárhæðir sem söluskattur hefur verið til þessa, hvað þá eftir að þessi hækkun hefur átt sér stað. Bæði bankakerfið og söluskattsgreiðendur líka hafa óskað mjög eftir því, að á þessu yrðu gerðar breytingar. Það þykir ekki nein sérstök ástæða til þess, varðandi innheimtuaðferðir söluskattsins, að til þurfi að vera afdráttarlaus lagaákvæði, því það leiðir aðeins til þess, að ef innheimtuaðferðum er breytt, þarf að leita til Alþ. um formlega lagabreytingu í því sambandi. Það hefur raunar ekki verið kannað til hlítar og þarf að skoðast betur, bæði í samráði við greiðendur söluskatts og einnig innheimtumenn og þá, sem annast álagningu hans, hvernig hagkvæmast væri að koma þessu fyrir. Það þykir þess vegna eðlilegast, að þetta verði ákveðið með reglugerð. Hins vegar er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að áfram sé í l. beinlínis mælt fyrir um heimild til þess að loka atvinnustöðvum, eins og í gildi hefur verið til þessa, því að ella er hætt við, að slíkt ákvæði í reglugerð væri næsta hæpið, ef það hefði ekki verið beinlínis fram tekið í l., enda auðvitað engin ástæða til þess að breyta því ákvæði, þó að almennum reglum varðandi innheimtu skattsins yrði breytt.

Það hefur áður komið fram, ég vék síðast að því í fjárlagaræðu í haust, að það hefði verið í athugun í fjmrn. um nokkurt skeið að breyta söluskattinum í svokallaðan virðisaukaskatt, en sá skattur hefur verið innleiddur í æ ríkari mæli í nágrannalöndum okkar. Um síðustu áramót var hann innleiddur í löndum Efnahagsbandalagsins og hann er nú kominn í gildi á tveimur Norðurlöndum, tekur gildi í Noregi núna um áramótin og gert er ráð fyrir, að hann verði innan tíðar innleiddur í Finnlandi. Það hefur verið fylgzt vandlega með því af hálfu fjmrn., hver reynslan af þessum skatti hefur orðið í Danmörku og er nú unnið að því að kanna það til hlítar, hvaða afleiðingar slík kerfisbreyting hérlendis mundi hafa í för með sér. Sú breyting er ekki svo mjög víðtæk varðandi söluskattinn hér hjá okkur, vegna þess að hann er innheimtur sem almennur smásöluskattur, og mundi því breytingin ekki verða ýkjamikil efnislega. Þó eru nokkur atriði, sem ég skal ekki út í fara hér, sem mundu fela í sér efnisbreytingar varðandi það, hverjir að lokum greiddu þennan skatt og þau þarf að skoða betur, en það er ljóst , að virðisaukaskattur hefur í för með sér ýmiss konar aukna vinnu vegna skriffinnsku og aukna fyrirhöfn, bæði í sambandi við atvinnureksturinn og einnig varðandi innheimtuna. En aftur á móti er talið, að það sé meiri trygging fyrir því, að hann skili sér og það er að sjálfsögðu grundvallarnauðsyn, að það sjónarmið sé haft í huga. Ég tek þetta fram vegna þess, að oft hefur verið um það rætt, að söluskattur skili sér illa hér á Íslandi.

Það eru áreiðanlega einhver afföll af honum. Því dettur mér ekki í hug að mæla gegn, en reyndin mun samt vera sú eftir þeim athugunum, sem við höfum á því gert, miðað við þá heildarviðskiptaveltu, sem er í þjóðfélaginu og er nokkurn veginn hægt að komast nærri um og Efnahagsstofnunin hefur kannað, að skil á söluskatti eru ótrúlega góð og miklum mun betri heldur en menn hefðu mátt álíta. Hins vegar er því ekki að leyna, að eftir því sem skatturinn hækkar, verður freistingin til undanskots meiri og þess vegna nauðsynlegt að haga skattheimtunni og álagningu skattsins þannig, að trygging sé fengin fyrir því, að hann skili sér.

Ég vil í upplýsingaskyni í sambandi við þessa hækkun söluskattsins hér í 11% geta þess, að engu að síður verður söluskattur eftir þetta lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Ef við notum sömu viðmiðun, það kostar nokkurn umreikning í ýmsum tilfellum, þar sem um virðisaukaskatt er að ræða, þó ekki alls staðar, – ef lagðar eru til grundvallar sambærilegar tölur frá öðrum Norðurlöndum, eins og um almennan viðskiptasöluskatt væri að ræða hér, þá er Svíþjóð með 11.1%, Danmörk með 12.5%, Finnland með 12.1% og Noregur er nú sem stendur með 13.5%, en þeirra virðisaukaskattur, sem jafngildir söluskatti, verður um næstu áramót 20%, þannig að engu að síður, þrátt fyrir þessa breytingu, verður söluskattur hér lægri en á hinum Norðurlöndunum.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frv. nánar, herra forseti, nema tilefni gefist til, en upphæð söluskattsins, eins og ég hef þegar tekið fram, er að sjálfsögðu í nánu samræmi við það, hvernig leysa eigi fjárhagserfiðleika ríkissjóðs, sem skapast vegna stórfelldrar lækkunar á verðtolli, auk þess sem hækkanir á fjárlagafrv. hafa valdið því, að tekjustofnarnir, eins og þeir eru þar, nægja ekki til þess að standa undir þeim gjöldum. M.a. hafa framlög til verklegra framkvæmda hækkað mjög mikið, eða ef heildarframlagshækkunin er tekin, þær 90 millj., sem eru í frv., hækka um rúmar 100 millj. kr. í meðferð fjvn., þá hefur bein hækkun fjárfestingarframlaga orðið um 200 millj. kr. Auk þess koma til ný útgjöld vegna hækkunar á fjölskyldubótum og ellilífeyri og öðrum hliðstæðum bótum, sem beinlínis hafa verið teknar upp með hliðsjón af þeim breytingum, sem hér er verið að gera og þá er einnig nokkur hækkun á niðurgreiðslum, sem ég hef áður gert grein fyrir og sé ekki ástæðu til að endurtaka að nýju.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.