12.12.1969
Neðri deild: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

126. mál, söluskattur

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til 1. umr. á þskj. 174, um breyt. á söluskattslögunum, er sönnun þess, að lengri tíma þarf til, heldur en hæstv. ríkisstj. ætlast til, að koma í framkvæmd svo stórfelldri ákvörðun eins og þeirri, að Ísland gerist aðili að EFTA. Þetta frv., sem hér er til umræðu og er um verulega hækkun á söluskatti, raskar grundvallaratriðum í tekjukerfi ríkisins og ríkissjóður er með því á góðri leið að gerbylta tekjuinnheimtu sinni af þjóðinni, frá því sem áður var. Það er enginn vafi á því, að svo stórfelld breyting. eins og hér á að fara að gera, hefði þurft margfalt meiri undirbúning heldur en hér er ætlazt til.

Með þessu frv. á að færa til í tekjuöflun ríkissjóðs um 750 þús. til 1 milljarð kr. frá því að vera tollur á þeim vörum fyrst og fremst, sem eru taldar miður nauðsynlegar, til þess að leggjast á almenna neyzlu yfirleitt, hversu nauðsynleg sem hún er og hversu almenn sem hún er. Á allt skal þetta leggjast með jöfnum þunga. Hér hefði því þurft að vera mikill undirbúningstími til að gera slíka byltingu eins og hér er stefnt að í tekjuinnheimtu ríkissjóðs, því að fram til þessa hefur hún verið með þeim hætti, að ríkissjóður hefur mismunað þegnunum nokkuð eða tekið tillit til efna og aðstæðna í sinni innheimtu. Það hefur verið gert þannig, að lengi vel var þessi mismunun mjög áberandi, en hefur nokkuð breytzt á síðari árum, en er þó enn með þeim hætti, að það er meiri tollur tekinn af þeim vörum, sem eru miður nauðsynlegar, en þeim allra nauðsynlegustu, hefur verið hlíft við tollálögum. Hér verður gerbylting í þessum efnum með hækkun á söluskattinum í svo ríkum mæli sem hér er lagt til. Verður að gera ráð fyrir því, að hér verði um meiri tekjutilflutning að ræða heldur en hæstv. fjmrh. áætlaði í ræðu sinni í gær, þar sem það virðist augljóst, að söluskatturinn gefur verulega hærri tekjur á þessu ári, heldur en gert var ráð fyrir. Þar sem tekjur af söluskatti munu nú eftir innheimtu þriggja ársfjórðunga vera orðnar verulegri fjárhæð en áætlun fjárlaga 1969 gerði ráð fyrir, má einnig gera ráð fyrir því, að heildarinnheimtan verði eitthvað hærri upphæð heldur en gert er ráð fyrir í fjárlögum 1969.

En það, sem mestu máli skiptir, er sú gerbreyting, sem verður á skattinnheimtunni með þessari aðgerð. Til þess að taka á máli þessu eins og þörf var á þurfti að gera miklu meira en að hverfa frá tollheimtu yfir í söluskatt, það þurfti að taka fleiri atriði, sem þar koma til. Ef það á að verða stefnan, að söluskattur skili yfirleitt meginmagninu af þeim tekjum, sem ríkissjóður ætlar sér og hann sé tekinn jafnt af öllum vörum, þá verður að mæta því á annan hátt, en hér hefur verið gert ráð fyrir. Á því þingi, sem nú starfar, höfum við, nokkrir þingmenn Framsfl., flutt frv. til l. um breytingar á söluskattslögunum. Þær breyt. eru miðaðar við það, að allra nauðsynlegustu vörur fólksins í landinu, eins og smjör, kjöt og fiskur, væru undanþegnar söluskatti. Við töldum brýna nauðsyn bera til að gera þessa breytingu, þó að söluskatturinn yrði ekki hækkaður, en við lögðum sérstaka áherzlu á það, að það yrði að gera hana, ef ætti að hækka söluskattinn, eins og við höfðum óljósan grun um. Í umr. þeim, sem fram fóru hér á hv. Alþ. við 1. umr. frv. á þskj. 68, ræddum við þetta nokkuð, ég og hæstv. fjmrh. og mér fannst í raun og veru hæstv. ráðh. viðurkenna, að það væri brýn nauðsyn til þess að skoða þetta mál út frá þessari forsendu og við vorum sammála um, að það yrði að gera með þeim hætti að fella söluskattinn algerlega niður af þessum vörum.

Ég hafði því gert mér nokkra von um það, að þegar hækkun yrði gerð á söluskattinum, yrði tekið tillit til þess arna og mér fannst á ummælum hæstv. ráðh., að það mætti gera ráð fyrir því, að þetta yrði athugað og gæti náð fram að ganga við þessa breytingu. Nú er það síður en svo, að það hafi verið gert, heldur á einnig að hækka söluskattinn á þessum vörum sem öðrum upp í 11%. Hér er um mjög stórfellt mál að ræða, sem kemur til með að hafa veruleg áhrif á neyzlu landbúnaðarvara hér innanlands og þess vegna á sölu landbúnaðarvara yfirleitt, og í öðru lagi hlýtur þetta mál að verða til þess, að allar kröfur um bætt kjör, hærra kaup og önnur þess háttar atriði verði háværari en ella hefði verið, ef ekki hefði verið horfið að þessu ráði.

Ég vil nú í upphafi máls míns spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort nokkrar ráðstafanir verði gerðar til þess að mæta þessu og hvaða rök hafi legið því til grundvallar, að ekki var hægt að fella niður söluskatt af allra nauðsynlegustu neyzluvörum almennings, áður en söluskatturinn var hækkaður. Ég fæ ekki séð, að það hefði átt að verða til þess, að gera innheimtu erfiðari, því að margar verzlanir eru með blandaða vörusölu, þar sem sumar vörur eru án söluskatts og enn fremur er eftirlitið ekki sem skyldi, ef ekki væri hægt að hafa eftirlit með þessum þætti sölunnar, sem á ekki að verða erfiðara heldur en með sölunni almennt.

Ég harma það mjög, að það skyldi verða horfið að því að leggja söluskattinn á allar neyzluvörur, eins og hér er gert. Hér er um mikið stórmál að ræða, sem ég tel að þurfi að taka til mjög gaumgæfilegrar athugunar. Ég tel, að þegar á að gera svo mikla byltingu í þjóðfélaginu eins og gert er með þessu frv., að söluskatturinn er að verða megintekjustofn ríkisins, þá þurfi miklu fleira að koma til athugunar, en áður hefur verið. Ef á að hverfa inn á þessa braut, að taka söluskatt af almennri neyzluvöru í jafnríkum mæli og hér er gert án þess að gera nokkrar aðrar ráðstafanir, stórfelldar ráðstafanir, þá gefur það auga leið, að hér er verið að velta byrðunum yfir á herðar þeirra, sem minna mega sín í þjóðfélaginu og um leið að hagræða hlutunum fyrir hinum, sem betur mega sín. Hér er því um algera byltingu að ræða frá því, sem áður hefur verið, miklu stórfelldari byltingu í tekjuöfluninni heldur en hæstv. núverandi valdhafar hafa áður gert.

Ég tel því, að til þess að gera svo róttæka breytingu á söluskattskerfinu að innheimta söluskatt af almennum neyzluvörum, eins og hér á að fara að gera, þurfi að gera margar aðrar ráðstafanir, m.a. verði þá að taka tryggingakerfið til sérstakrar athugunar út frá þessu. Þá verður að nota tryggingakerfið til þess að bæta um fyrir því fólki, sem er tekjulægra í þjóðfélaginu. Það verður að opna tryggingakerfið í miklu ríkari mæli gagnvart fjölskyldunum í landinu og greiða þeim mismunandi fjárhæð, eftir því sem fjölskyldurnar stækkuðu. Það er óhugsandi að ætla að fara að taka megin þungann af tekjum ríkissjóðs með almennum söluskatti, mest af þeim, sem mesta hafa almenna neyzluna, án þess að gera margar fleiri ráðstafanir til mótvægis. Ein af þeim hljóta tryggingarnar að verða. Það verður þá beinlínis að fara að nota tryggingakerfið í ríkum mæli til þess að jafna aðstöðu þeirra, sem lægri tekjur hafa.

En það er ekki nóg að taka tryggingakerfið til athugunar í sambandi við þetta, heldur verður einnig jafnhliða þessu að grandskoða skattakerfið og útsvarsálagninguna. Þessi mál, söluskattshækkunin, tryggingamálin, fjölskyldubæturnar, tekjuskatturinn og útsvörin, eiga öll að vera í samhengi, ef ekki á að stefna að því að gera þjóðfélagið þannig, að þeir ríkari eigi enn þá auðveldara með að verða ríkari og þeir, sem miður mega sín, beri enn þá skarðari hlut frá borði. Það er óhugsandi að taka svo stórfelldar tekjur með almennum neyzluskatti, eins og hér er gert, án þess að gera mótvægisráðstafanir, nema ganga mjög á hlut þeirra, sem minni tekjur hafa í þessu þjóðfélagi.

Þess vegna endurtek ég það, sem ég sagði hér í upphafi máls míns, að þetta mál er það stórt, að fullkomin ástæða var til þess, að taka það til athugunar lengur, í stað þess að taka það fyrir á nokkurra daga þingfundum, eins og hér er ætlazt til og í stað þess að undirbúa það, eins og gert hefur verið með þessu frv., þar sem skýringarnar eru nokkrar línur. Hér er nefnilega miklu meira mál á ferðinni heldur en hækkun á söluskatti um 3 1/2%. Hér er verið að bylta okkar þjóðfélagi, hvað snertir tekjuöflun ríkisins og aðstöðu þegnanna gagnvart því. Það er mergurinn málsins, en ekki þessi 3 1/2%, sem hér er verið að tala um. Það er sú stórfellda álögutilfærsla, sem á sér stað frá þeim, sem betur mega sín í þjóðfélaginu, yfir á herðar hinna, sem verr eru settir. Það er ekki hægt að leysa þetta mál með skynsemi, hófsemi og sanngirni gagnvart fólkinu í landinu án þess að taka alla þá þætti, sem ég nefndi hér áðan, tryggingakerfið, tekjuskattinn og útsvörin, jafnhliða með og skoða það út frá þessum forsendum.

Það er nú öllum ljóst, að bæði í sambandi við okkar tekjuskatts– og útsvarslöggjöf eru komin upp mörg vandamál, svo að brýna nauðsyn ber til að endurskoða þessa löggjöf, jafnvel þó að þetta hefði ekki komið til. En við það að gera eins róttæka breytingu og hér er verið að gera, þá er ekki hægt að komast hjá því að endurskoða þessa löggjöf. Ég hef talið, að eitt af því sem við þyrftum að gera í sambandi við tekjuskattinn og útsvarsálagninguna, væri að gera þau mál einfaldari en þau nú eru og láta ekki ríkið og sveitarfélögin vera í raun og veru alltaf inni á sömu leiðum, eins og þar er gert. Mín hugmynd um það – og fleiri manna, sem hafa rætt um þetta, — hefur m.a. verið sú, að bæjar– og sveitarfélögin ættu að hafa útsvarsálagninguna upp að vissu tekjumarki, en ríkissjóður taki síðan þar við, en ekki sé alltaf verið að leggja á sömu tekjurnar. Og við þá breytingu, sem hér er verið að gera, er persónu frádrátturinn enn þá brýnna spursmál heldur en hann þó áður var og var hann þó orðinn mjög í ósamræmi við það verðlag, sem nú er orðið í landinu. Ef hann hefur verið réttur, þegar hann var ákveðinn við útsvars– og skattaálagningu árið 1967 vegna tekna 1966, þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, hvað hann er orðinn fráleitur nú, eftir að gengi hefur verið breytt þrisvar sinnum og það stórfellt og þegar þetta kemur svo til viðbótar.

Nei, þetta frv. kallar á það, að við verðum að taka allt fjárhagskerfið til gagngerðrar endurskoðunar og gjörbreyta því í samræmi við þá breytingu, sem leiðir af frv. Að öðrum kosti fer það svo, sem ég sagði hér áðan, að byrðarnar lenda yfirleitt á herðum þeirra, sem lægri tekjur hafa í þjóðfélaginu, en er létt af hinum, vegna þess að þeir hafa meiri möguleika til þess að kaupa þær vörur, sem hátollaðar eru og ekki eru eins miklar nauðsynjavörur. Tekjur hins almenna borgara munu nú hrökkva skammt til þess að standa undir meira en nauðsynlegustu vörukaupum og þess vegna hefur hann lítinn hagnað af því, þó tollur lækki á vörum, sem hann getur ekki náð til.

Ég tel því, að það sé ekki hægt að afgreiða þessa breytingu á tekjuinnheimtu ríkissjóðs nema taka skatta– og útsvarslöggjöfina og tryggingalöggjöfina til endurskoðunar jafnhliða. Og ég tel, að það sé mjög illa að staðið, ef hæstv. ríkisstj. ætlast til þess, að þetta frv. verði afgr. fyrir jól. Í sambandi við það vil ég geta þess, bæði varðandi tollamálin og þetta frv., að fyrir því eru fordæmi, að fjárlög hafi verið afgr. án þess að frá þeim þáttum hafi verið gengið. Við gengisbreytinguna, sem varð í nóv. 1967, voru fjárl. afgr. fyrir áramót, en tollalög ekki. Þá var það tekið fram af hálfu hæstv. ríkisstj. og meiri hl. fjvn., að fjárl. væru afgreidd miðað við þá tollalækkun, sem reiknað var með í frv. og yrði að lögum á framhaldsþinginu. Þetta fór svo á þann veg, að tollunum var breytt á framhaldsþinginu, en bara á annan veg, en gert var ráð fyrir, fyrir áramótin, en þó byggðist fjárlagaafgreiðslan á tollalagabreytingu, sem gerð var síðar. Ég vil líka minna á það, að í ársbyrjun 1965 mun það hafa verið, sem söluskattur var hækkaður á framhaldsþingi og raunverulega var fjárlagaafgreiðslan miðuð við það, þó það kæmi ekki fram þá. Þess vegna tel ég, að það sé nú óhugsandi, að, að því ráði verði horfið að afgr. þetta mál hér á hv. Alþ. fyrir áramót, enda finnst mér ekki neina brýna nauðsyn bera til þess. Hitt finnst mér miklu alvarlegra mál í sjálfu sér og það er það, að það skuli eiga að afgreiða þetta mál eitt sér, því það veldur alveg óskaplegri röskun í okkar þjóðfélagi og breytir aðstöðu borgaranna í landinu svo miklu meira en hægt er að gera sér grein fyrir í fljótu bragði.

Þess vegna endurtek ég það, sem ég áður sagði, að ekkert sannar betur að okkur er þörf á því að fara að með gætni í sambandi við fyrirhugaða aðild að EFTA, sem er til umr. á hv. Alþ. þessa dagana, því við eigum eftir að undirbúa svo margt á okkar heimaslóðum, margt sem ekki er hægt að komast hjá að vinna og undirbúa í samræmi við þessa breytingu, og þ.á.m. er þessi þáttur, sem verður að tengjast tryggingakerfinu og skatta– og útsvarskerfinu í landinu. Með engu öðru móti er hægt að koma þessu sæmilega vel fyrir.

Í sambandi við málið að öðru leyti vil ég spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort það er ekki rétt skilið hjá mér, að söluskattur sá, sem hefur verið tekinn við tollafgreiðslu, — 8 1/2% ef ég man rétt, — hann fari einnig upp í 11 % með þessu lagafrv., en ég skil það svo.

Að öðru leyti vil ég segja það, að það ber, eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh., brýna nauðsyn til þess, að vel verði fylgzt með innheimtu, eftir að söluskattur er orðinn þetta hár. Það er orðið geysilegt fjármagn, sem fer í gegnum hendur þeirra, sem hann innheimta og þarf mikið eftirlit og aðgæzlu með því, að það fjármagn skili sér. Ég vil líka segja það sem mína skoðun, að innheimta á þriggja mánaða fresti, eins og hún er gerð nú, er of áhættusöm, ekki eingöngu fyrir ríkissjóð, heldur einnig fyrir fyrirtækin, sem innheimtuna annast, því að mörgum fyrirtækjum hefur reynzt erfitt að skila því fjármagni, sem þau hafa innheimt, vegna þess að það hefur lent inn í þeirra eigin rekstur. Þess vegna er mikil nauðsyn á því, ekki síður vegna fyrirtækjanna, að þeim sé ekki stefnt í þá hættu, sem af því getur leitt. Með þessum háa söluskatti sýnist mér líka verða að stefna að því í almennum viðskiptum, að taka yfirleitt upp staðgreiðslukerfi, því það er óhugsandi, að fyrirtæki geti lánað svo háa fjárhæð sem 11% af brúttó–sölunni, sem þeir verða að skila á meðan lánstíminn stendur. Þessi hækkun á söluskatti hefur því geysileg áhrif á allt okkar viðskiptalíf, auk þess sem ég áður sagði.

En ég vil að lokum leggja áherzlu á það, að hér er stórmál á ferðinni, mjög mikið stórmál, mál sem gjör breytir aðstöðu ríkissjóðs til innheimtu á sköttum í landinu og gerir þeim langtum erfiðara fyrir, sem lægri hafa tekjurnar og verða að láta sér nægja hina almennu neyzlu, en greiðir aftur fyrir þeim, sem geta veitt sér meiri innkaup. Að bera þetta mál fram hér eitt á hv. Alþ. án þess að gera þær ráðstafanir, sem ég hef lagt hér áherzlu á, eins og endurbætur á tryggingakerfinu og skatta– og útsvarskerfinu, það er algjörlega óhugsandi, því með því móti er verið að gera byltingu í okkar þjóðfélagi, á kostnað þeirra, sem minna mega sín.