24.11.1969
Neðri deild: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (2614)

88. mál, fyrirhleðslur og lagfæringar á árfarvegum

Flm. (Stefán Valgeirsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þetta frv. um fyrirhleðslu og lagfæringar á árfarvegum til að koma í veg fyrir landbrot, en þetta frv. er á þskj. 98.

Árið 1932 voru samþ. l. um fyrirhleðslur á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts. Þessi löggjöf mun hafa átt að þjóna tvennum tilgangi, bæta samgöngur og verja nytjalönd fyrir skemmdum af ágangi vatns á þessu svæði. Árið 1945 voru samþ. l. um fyrirhleðslu Héraðsvatna norður af Vindheimabrekkum.

Á þessum 24 árum, sem liðin eru, síðan þessi löggjöf var sett, hefur orðið mikil breyting í ræktun og tækni hér á landi. Ræktunin hefur margfaldazt og færzt meira en áður niður á láglendið, eftir að hinar stórvirku skurðgröfur hófu þurrkun þess um allt land. Víða eru sléttir bakkar meðfram fallvötnum. Hafa þeir orðið mikils virði sem slægjulönd, fyrst sem áveituengi, og síðari árin hefur verið borinn tilbúinn áburður á þá með mjög góðum árangri, svo að uppskerumagnið hefur orðið litlu eða engu minna en af þeim svæðum, sem brotin hafa verið og sáð í. Í örum leysingum verða oft miklar skemmdir á þessum löndum, sem hægt væri að koma í veg fyrir í flestum tilfellum með þeirri tækni, sem við höfum nú yfir að ráða. Víða hafa átt sér stað stórkostleg landbrot á liðnum áratugum, sem kunnáttumenn á þessu sviði telja, að auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir, ef framkvæmdir hefðu verið gerðar í tæka tíð, t. d. með því að laga til árfarvegi. Þó að engin löggjöf sé til, nema bundin við þær takmörkuðu aðgerðir, sem að framan greinir, þá hefur verið veitt fé á fjárl. til varnaraðgerða að þessu leyti á öðrum stöðum á landinu. Stuðningur ríkisins við þær framkvæmdir hefur verið miðaður við ákvæði áðurgreindra l. En það, sem hefur hindrað skynsamlega framkvæmd og samræmdar aðgerðir í þessu efni eru ákvæði í vatnal. En sú löggjöf er frá árinu 1923 og er því að mörgu leyti úrelt miðað við nútímaaðstæður. Þar eru t. d. ákvæði, sem valda því, að einn landeigandi getur hindrað sjálfsagðar og eðlilegar framkvæmdir í langan tíma, og ég veit dæmi þess, að það hefur verið gert, jafnvel þó að það hafi mikla eyðileggingu í för með sér á nytjalöndum annarra.

Ég var búinn að hugleiða það að fella þær breytingar, sem þetta frv. felur í sér, inn í vatnal. En við nánari athugun sá ég, að það yrði erfitt verk og tímafrekt, eins og þau l. eru uppbyggð. Að vísu eru það aðallega tveir kaflar l., sem koma inn á þetta svið, VII. kaflinn um varnir lands og landnytja gegn ágangi vatns og XI. kaflinn um vatnafélög. Enn fremur eru í II. kafla almenn ákvæði um vatnsréttindi, 7. og 8. gr. Þótt líklegt sé, að ekki geti dregizt lengi að endurskoða vatnal., — og þegar að því kemur, væri eðlilegt að sameina þeim l. þetta frv., ef að l. verður nú, sem ég fastlega vona, þar sem það er mjög brýnt að taka þetta verkefni, sem þetta frv. nær yfir, föstum tökum til að koma í veg fyrir meiri skemmdir en orðið er, — þá væri beinlínis ekki verjandi að bíða með lagasetningu um þetta atriði eftir því, að vatnal. yrðu endurskoðuð. Það gæti tekið mörg ár, og mikið landbrot gæti átt sér stað á þeim tíma.

Þeir, sem hafa ferðazt um landið með opin augu, hljóta að hafa séð allvíða stórfelld landbrot, séð, hvernig fallvötnin brjóta stór skörð inn í slétta bakka og jafnvel tún, og þegar skarðið er á annað borð komið, leggst straumþunginn þar á vegna beygjunnar, sem í árfarveginn kom, þegar skarðið myndaðist. Og við slíkar aðstæður er stór hætta á mikilli eyðileggingu á tiltölulega skömmum tíma. En slíkar landsskemmdir er aldrei hægt að bæta aftur. En sé árfarvegurinn lagaður og beygjan tekin af í tæka tíð, er í flestum tilfellum hægt að koma í veg fyrir landsspjöll. Það er því full þörf að vera þarna á verði ekki síður en annars staðar. Það sýnist því vera kominn tími til þess að setja löggjöf um þetta efni, sem sniðin er eftir þörfum og kröfum okkar tíma og hvetur til virkrar varðstöðu og verndunar gróðurlendisins í byggðinni ekkert síður en á afréttarlöndum.

Við höfum viðurkennt það í verki hin síðari ár, að þjóðinni beri að koma í veg fyrir uppblástur gróðurlendis, og nú er mikil hreyfing í landinu til að vinna að því, ekki sízt meðal ungmennafélaga, og þeirri hreyfingu ber vissulega að fagna.En það má ekki horfa á það aðgerðarlaust heldur, að fallvötn brjóti niður land í stórum stíl og því mjög brýnt að setja löggjöf, sem hvetur og auðveldar framkvæmd í því efni. Því er þetta frv. fram borið. Nú ættu ekki að vera nein vandkvæði á því að hindra landbrot með því að nota hinar stórvirku vinnuvélar til verksins, sem nú er orðið mikið til af í landinu. Ég mun þá fara yfir gr. frv.

1. gr.: „Til að koma í veg fyrir landbrot af völdum fallvatna eða skemmdir á nytjalandi af ágangi vatns skulu gerðar fyrirhleðslur eða lagfærðir árfarvegir, samkv. úrskurði matsmanna, samkv. 3. gr. þessara l.

2. gr.: „Ríkissjóður greiðir kostnað af framkvæmdum samkv. 1. gr. að 7/8 hlutum, en viðkomandi sýslufélag sér um greiðslu á 1/8 hluta, er matsmenn deila síðan niður á landeigendur í hlutfalli við stærð þeirra nytjalanda, sem í hættu eru talin. Sé landeigandi óánægður með niðurjöfnun matsmanna, getur hann skotið henni til landbrh., er lætur þá rannsaka málvöxtu og kveður síðan upp fullnaðarúrskurð.“ Í sambandi við þetta greiðsluhlutfall vil ég geta þess, að það er alveg sams konar greiðsluhlutfall og var í þeim l., sem ég nefndi hér í upphafi máls míns.

3. gr.: „Matsnefnd skipa þrír menn í hverju sýslufélagi, sýslumaður, formaður búnaðarsambandsins og jarðræktarráðunautur.“

4. gr.: „Nú telur landeigandi (eða landeigendur), að nytjalönd jarðar sinnar (jarða sinna) séu í yfirvofandi hættu af völdum landbrots eða af ágangi vatns, og skal hann (skulu þeir) þá óska þess skriflega, að matsnefnd viðkomandi héraðs kanni málið hið fyrsta.“

5. gr.: „Nú hefur matsnefnd borizt ósk frá jarðeiganda um úrskurð um, hvort nytjalönd hans séu ekki í yfirvofandi hættu vegna landbrots eða af ágangi vatns, og skal þá matsnefndin hefja rannsókn sína svo fljótt sem tök eru á. Að rannsókn lokinni semur hún álitsgerð um málið og kveður upp úrskurð, sem sendur skal landbrn. Afrit skal matsnefnd senda öllum jarðeigendum, sem hlut eiga að máli hverju sinni. Matsnefnd getur kvatt til sérfræðinga sér til ráðuneytis, ef þurfa þykir.“

6. gr.: „Vegagerð ríkisins sér um byggingu og viðhald mannvirkja samkv. úrskurði matsnefndar. Bætur fyrir landsspjöll vegna framkvæmda eða spjöll, sem af þeim kann að leiða, skal telja með kostnaði við verkið samkv. úrskurði matsnefndar.“

7. gr.: „Nú telur matsnefnd, að ekki megi dragast að hefja framkvæmdir vegna yfirvofandi skemmda á nytjalandi, og skal þá Vegagerð ríkisins hefjast handa, þegar aðstæður leyfa. Telji matsnefnd hins vegar, að verkið megi dragast til næsta sumars, skal Vegagerð ríkisins gera kostnaðaráætlun um verkið í samráði við matsnefnd og senda hana síðan til landbrn., er sér um, að nauðsynleg fjárveiting fáist á næsta ári til verksins.“

8. gr.: „Nú telur matsnefnd, að engin ástæða sé til aðgerða, og skal þá sá, er óskaði matsins, greiða allan kostnað, er af því leiðir. Ef úrskurður matsnefndar leiðir til mannvirkjagerðar í einhverri mynd samkv. l. þessum, skal telja matsgerðina með í kostnaði við framkvæmd verksins.“

Eins og ég gat um áðan, er þetta frv. að mestu leyti sniðið eftir þeim tveimur frv., sem ég gat um. Ég hef þá lýst frv. og farið nokkrum orðum um ástæðurnar fyrir því, að það er flutt, og þar sem ég á sæti í þeirri hv. n., sem á að fjalla um málið að lokinni þessari umr., þá sé ég ekki ástæðu til frekari framsögu.

Herra forseti. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.