21.04.1970
Neðri deild: 79. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (2634)

93. mál, lögsagnarumdæmi Húsavíkurkaupstaðar

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til 1. umr. hér í hv. d., ræddi ég málið lítið eitt og mæltist til þess við þá hv. n., sem fengi málið til meðferðar, að málið yrði sent til umsagnar bæjarstjórninni í Húsavíkurkaupstað og sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu og að þessir aðilar yrðu þá beðnir að gera nánari grein fyrir þeirri afstöðu, sem þeir tóku vorið 1969, þegar sameiningarnefnd sveitarfélaga sneri sér til þeirra í sambandi við þetta mál. Því miður hefur hv. n. ekki gert þetta. Hún hefur ekki leitað slíkra umsagna, og það kom ekki fram í framsöguræðu, að hún hefði rætt þetta mál við bæjarstjórnina eða sýslunefndina eða neinn af hennar hálfu. Ég harma það, að n. skuli ekki hafa orðið við þessum tilmælum, því að mér sýnist eftir skjölum þessa máls að dæma, að það hefði verið þörf á því, að aðilarnir hefðu gert nánari grein fyrir afstöðu sinni vorið 1969, eins og hún liggur hér fyrir, mjög stuttlega orðuð. Ég nefndi það sérstaklega í þessu sambandi, að það væri ástæða til að grennslast eftir því, hvort Húsavíkurkaupstaður t. d. hugsaði sér, ef hann fengi umráð eyjarinnar, að stuðla að byggð í eynni. Um það hefði ég gjarnan viljað fá vitneskju, áður en ég tæki afstöðu til þessa máls.

Þetta frv. er flutt af hv. 9. landsk. þm., og ég veitti því athygli, að skömmu eftir að það kom fram, birti sameiningarnefnd sveitarfélaga yfirlýsingu í útvarpinu þess efnis, að það væri ekki í samráði við hana, að frv. væri nú flutt. En í öndverðu er það samið af henni. Þessi n. hefur, eins og kunnugt er, unnið að því að gera till. um lagasetningu varðandi sameiningu sveitarfélaga og einnig gert uppkast að sameiningu í framkvæmd, og hún hefur þá einnig fjallað um þetta mál á sínum tíma og gert ráð fyrir því, sem ekki er óeðlilegt í samræmi við viðhorf hennar yfirleitt til þessara mála, að þessi hreppur, Flateyjarhreppur, yrði sameinaður öðrum hreppi eða sveitarfélagi. En eftir yfirlýsingunni að dæma, sem sameiningarnefndin birti, og ég held, að mig rangminni ekki, að það hafi átt sér stað, þá virðist svo sem hún hafi, eftir að hafa séð hinar fyrstu umsagnir Húsavíkurkaupstaðar og Suður-Þingeyjarsýslu, ekki talið ástæðu til þess, að þessu máli væri hreyft nú. Og á þessu vil ég vekja sérstaka athygli, að sameiningarnefndin stendur ekki að þessu frv., að því er virðist.

Hv. frsm. meiri hl. sagði í ræðu sinni hér áðan, að nú færu fram sveitastjórnakosningar í vor, og að þá væri það óeðlilegt, að landið í Flatey væri í reiðuleysi. Það hefur nú komið fyrir, að hreppar hafa eyðzt hér á landi, og nú hafa ekki orðið nein skipulagsvandræði út af því, að ég held. Það hefur gerzt á Vestfjörðum. Þess vegna held ég, að það þurfi nú ekki að setja þetta beint í samband við kosningarnar, en ef það væri nauðsynlegt vegna sveitastjórnakosninganna eða af einhverjum öðrum ástæðum að ráðstafa nú landi Flateyjar til einhvers annars sveitarfélags, þ. e. a. s. landinu í Flatey, þá vil ég minna á það, að Flateyjarhreppur tekur ekki yfir Flatey eina. Hann tekur einnig yfir Flateyjardal, en þar var nokkur sveitabyggð áður, og með þessu frv. er því landi ekki ráðstafað. Og mér finnst út af fyrir sig einkennilegt að ráðstafa með 1. hluta af landi þessa hrepps, en ekki hreppnum öllum. Þegar af þessari ástæðu þarf málið áreiðanlega frekari athugunar við, virðist mér.

Eins og hér hefur verið getið um áður, hefur sameiningarnefnd sveitarfélaga á sínum tíma óskað álits um þetta mál, bæði frá bæjarstjórninni í Húsavík og sýslunefnd Suður-Þingeyinga, og ég vil leyfa mér að rifja það upp hér, sem var rifjað upp við 1. umr., hvernig álitsgerðir þessara aðila voru. Svar bæjarstjórnar Húsavíkur, dags. 25. júní 1969, hljóðar svo:

„Bæjarstjórn Húsavíkur lýsir sig samþykka þeirri till., er kemur fram í bréfi sameiningarnefndar sveitarfélaga, dags. 5. maí 1969. Bæjarstjórnin lýsir sig samþykka því, að bæjarsjóður Húsavíkur taki við framfærslu þurfamanna, sbr. 2. gr. í till. sameiningarnefndar, en lýsir því jafnframt yfir, að hún telur eignir og skuldir Flateyjarhrepps og Flateyjarhafnar sér með öllu óviðkomandi. Tilkynnist þetta sameiningarnefnd hér með.“

Þær skuldir, sem hér er um að ræða, hygg ég, að séu aðallega skuldir, sem hvíla á nýgerðri Flateyjarhöfn.

Sýslumaðurinn í Þingeyjarsýslu hefur sent hinn 14. maí svo hljóðandi svar:

„Á síðasta aðalfundi sýslunefndar Suður-Þingeyjarsýslu, sem haldinn var í byrjun þessa mánaðar, var m. a. tekið fyrir: 27. mál, framtíð Flateyjarhrepps: Lesin og lögð fram drög að frv. til l., sem framkvæmdanefnd sameiningarnefndar sveitarfélaga hefur samið, að Flatey skuli lögð undir lögsagnarumdæmi Húsavíkurkaupstaðar. Á fundinum mættu sýslunefndarmaður Flateyjarhrepps, Gunnar Guðmundsson, og oddviti Flateyjarhrepps, Jón Hermannsson. Lýstu þeir sig andvíga nefndu frv. og töldu rétt að bíða um nokkurn tíma með að taka ákvörðun um framtíð hreppsins.“

Síðar segir, að svo hljóðandi till. hafi verið samþykkt einróma í sýslunefndinni: „Sýslunefndin lýsir sig andvíga þeirri hugmynd, að Flatey eða aðrir hlutar Flateyjarhrepps verði sameinaðir öðru sveitarfélagi, meðan allt er jafnóljóst og nú er, hvernig ræðst um not þeirra landa í framtíðinni. N. telur því rétt og óskar þess, að sýslumanni Þingeyjarsýslu verði falin umsjón Flateyjarhrepps og meðferð eigna hans næstu 5 ár, nema búseta aukist þar til muna á þeim tíma.“

Það er að fengnum þessum umsögnum, sem sameiningarnefndin virðist hafa komizt á þá skoðun, að hún skyldi a. m. k. ekki sjálf eiga frumkvæðið að því, að þetta mál væri flutt sérstaklega.

Flatey á Skjálfanda voru fyrir fáum árum um 100 íbúar. Landkostir eru í eynni og sjávargagn, og það hygg ég, að segja megi, að þar séu lífsskilyrði og búsetuskilyrði allgóð. Hins vegar hefur það gerzt núna á örfáum síðustu árum, að flestir af íbúunum hafa flutzt burt úr eynni, en eins og hv. frsm. minni hl., hv. 4. þm. Vesturl., tók hér fram áðan, hefur sú skýring komið fram, að ein meginástæðan til þessa brottflutnings hafi verið sú, að ekki hafi tekizt að fá viðunandi barnafræðslu í eynni.

Nú skal ég ekki dæma um það, hvort líklegt er, að Flatey byggist aftur til jafns við það, sem áður var, eða hvort Flateyjardalur kunni að byggjast, en ég held, að sumir a. m. k. séu þeirrar skoðunar, að eyjan geti vel byggzt, og því mun það vera, að sýslunefndin telur ástæðu til þess að bíða átekta um þetta mál, og verður nú ekki séð, að það geti verið neinum til meins, að það sé gert og farið eftir óskum sýslunefndarinnar um þetta. Þess vegna er ég mjög tregur til að fylgja því, að þetta frv. verði gert að l. á þessu þingi, a. m. k. eins og það liggur hér fyrir, og ég vil mega mælast til þess við hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr. til næsta fundar, þannig að ráðrúm gæfist til þess koma fram með brtt., sem ég hef hugleitt að gera við frv., en hef enn ekki tilbúna.