21.04.1970
Neðri deild: 79. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í C-deild Alþingistíðinda. (2635)

93. mál, lögsagnarumdæmi Húsavíkurkaupstaðar

Frsm. meiri hl. (Unnar Stefánsson) :

Herra forseti. Til þess að um geti verið að ræða sveitarfélag eða hrepp, virðist þurfa að fullnægja tveimur skilyrðum. Annars vegar sé um fólk að ræða og hins vegar land. Sveitarfélag er nú einu sinni samfélag fólks, og ég vil vekja athygli á því enn á ný, hafi það ekki komið nógu greinilega fram í framsöguræðu minni, að í Flatey á Skjálfanda er ekkert fólk. Það er enginn maður í Flatey núna staddur né heldur hefur verið þar í allan vetur né heldur tvo s. l. vetur. Í Flateyjardal hefur ekki verið fólk, svo að árum eða áratugum skiptir. Fram undan eru sveitarstjórnakosningar, og ég sakna þess, að ekki skyldi koma fram hjá hv. seinasta ræðumanni, með hvaða hætti hann álíti, að kosning sveitarstjórnar geti farið fram í þessum hreppi. Þarna eru skráðir 6 íbúar. Þeir eru allir á visthælum annars staðar, og ljóst er, að þar getur engin starfhæf sveitarstjórn orðið.

Hv. alþm. eru vafalaust allir sammála um að harma þá þróun, sem orðið hefur í ýmsum byggðarlögum á landinu og lýtur að því, að heilu hrepparnir hafa tæmzt af fólki. En hrepparnir eru nú einu sinni merkileg félagsmálaheild í íslenzku þjóðskipulagi. Þeir eru líklega ein elzta félagsmálastofnun, sem starfað hefur samfleytt á landinu. Með hliðsjón af því hygg ég, að hv. þdm. hljóti að hugleiða, hvort ekki séu óeðlileg þau örlög á þessum merkilegu íslenzku félagsmálastofnunum, að þær bókstaflega tæmist af fólki og verði í reiðuleysi seinustu árin, þar sem skráð er fólk. Það er vafalaust rétt, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl., Friðjóni Þórðarsyni, að ástæðan fyrir því, að fólkið yfirgaf Flatey, hafi verið sú, að hreppurinn gat ekki fengið kennara. Þetta er ein ástæðan af fleirum, og ég hygg, að þessi ástæða verði einfaldlegast skýrð með einu orði, fásinni. Þarna hafa skapazt nýjar aðstæður, það eru komnir betri bátar, það er komin hafnaraðstaða á Húsavík, það er hægt að nýta landkostina, sem sköpuðu skilyrði fyrir búsetu í Flatey frá Húsavík með tilkomu stærri báta. Það er ekki nauðsynlegt, að íbúar, sem hyggjast nýta þau auðæfi, sem eru í nágrenni eyjarinnar, séu búsettir í eynni sjálfri. Og það hef ég eftir fólkinu, sem þarna var og flutti seinast manna af þessu skipi, að það hafi fyrst og fremst verið fásinnið, sem gerði það að verkum, að fólk treysti sér ekki til þess að búa þarna úti þá löngu íslenzku vetur, sem fólkið hefur búið við. Það fékk ekki kennara, það fékk enga félagslega aðstöðu. Og hafi menn áhuga á því, að eyjan Flatey byggist á ný, þá fæ ég ekki betur séð en líklegasta leiðin sé sú, að hún hafi einhverja félagslega forsjálni, að bæjarstjórn Húsavíkur hafi forsjá með eynni, og sú sveitarstjórn hefur fjárhagslegan styrk og félagslegan styrk til þess að geta séð hugsanlegum, nýjum íbúum fyrir þeirri þjónustu, sem þeir kynnu að þurfa á að halda.

Það er alveg ljóst, að meðan þarna er engin sveitarstjórn, þá er ekki fýsilegt fyrir fólk að fara á ný út í eyna til varanlegrar búsetu þar. Og mér skilst, að svo sé komið núna, að þessir umræddu íbúar hafi þegar fest rætur á Húsavík með því að kaupa þar hús, og eftir þau kynni af þeim mismun, sem er á búsetu í Flatey og í fjölmennum kaupstað á Húsavík, þyki þeim ekki vænlegt að flytjast til eyjarinnar á ný.

Menn kunna með réttu að harma þessa þróun, en svona er nú einu sinni komið, og það er ekki ástæða til annars en að viðurkenna þessa þróun í reynd og firra því, að landssvæði og nokkrir íbúar, sem mér skilst, að þurfi á framfærslu að halda, verði þarna án nokkurrar forsjá. Ég veit ekki, hvort hv. þdm., seinustu ræðumenn, hafi kynnt sér, hvernig þarna háttar um framfærslumál, en fróðlegt væri að vita, hvernig þeir hyggjast og hugsa sér, að framfærslumálum þeirra einstaklinga, sem þarna eru skráðir, verði fyrir komið, ef þeim er ekki ráðstafað undir lögmæta og starfhæfa sveitarstjórn.

Varðandi Flateyjardal, þá hygg ég, að ástæðulaust sé að gera sérstakar ráðstafanir með hann. Það svæði, sem ekki hefur verið byggt um langan aldur, mun að sjálfu sér verða afréttur eða eyðilönd, og menn þurfa ekki að hafa ástæðu til að óttast forsjá með því landssvæði.