21.04.1970
Neðri deild: 79. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

93. mál, lögsagnarumdæmi Húsavíkurkaupstaðar

Frsm, meiri hl. (Unnar Stefánsson) :

Herra forseti. Ég tel rétt, að það komi fram umfram það, sem ég sagði áðan, að bæjarstjórn Húsavíkur mun hafa látið í ljós vilja sinn í þá átt, að ef Flatey verði lögð undir Húsavíkurkaupstað, þá verði í kaupstaðnum starfandi og skipuð n. fyrrv. Flateyjarbúa, þar sem þeim yrðu gefin tækifæri til þess að fara með þau málefni innan hins nýja lögsagnarumdæmis, sem sérstaklega snerta meðferð og ráðstöfun eigna í Flatey. Þetta kom ekki fram í framsögu minni, en þetta hef ég eftir þeim manni, sem ég tók við hér, varðandi framsögu, þannig að ég hafði ætlað mér að skýra frá því, að hann hefði haft samráð við bæjarstjórn Húsavíkur og fengið leyfi til þess að lýsa yfir því, að bæjarstjórnin hygðist skipa n. burtfluttra Flateyinga til þess að fara með málefni eyjarinnar.

Það er alveg rétt. Þeir munu nytja hús sín að sumrum til grásleppuveiða og annarrar atvinnustarfsemi, en slík dvöl ræður ekki lögheimili. Samkv. 2. gr. l. um lögheimili er lögheimili manns, þar sem hann á heimili og þar sem hann hefur bækistöð og dvelst að jafnaði í tómstundum sínum. Dvalarstaður vegna árstíðabundinnar atvinnu getur ekki haft áhrif á lögheimili. Það liggur því ljóst fyrir, að þó að umræddir einstaklingar dveljist nokkra mánuði að sumri til í eynni Flatey, þá getur það ekki ráðið neinu um lögheimili þeirra. Þeir hafa lögheimili á Húsavík og eru þar í reynd þegnar og hafa að sjálfsögðu sem slíkir ekki umboð til þess að tala fyrir hönd hreppsnefndar eða neinna kjörinna aðila í Flatey.

Ég vildi að síðustu leggja áherzlu á, að umsögn sýslunefndar, þar sem hún leggur gegn þessu frv., er látin í té árið 1969, snemma árs á vordögum, þegar íbúarnir höfðu aðeins einn vetur haft vetursetu á Húsavík. Þá þótti henni óljóst, eins og hún orðar það, hvað yrði um framtíðarbúsetu. Nú er ljóst, að tveir vetur eru liðnir, og enginn gerir sig líklegan til þess að flytjast á ný til eyjarinnar. Fram undan eru kosningar sveitarstjórna, og ég sé ekki, hvernig málum verður skipað með skaplegum hætti þar, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga.