15.12.1969
Neðri deild: 25. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

126. mál, söluskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í umr. um þetta mál, þá er hér um að ræða till. um hækkun á söluskatti, sem stendur í beinum tengslum við fyrirhugaða aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökum Evrópu. Það hefur legið fyrir lengi, að ef af slíkri aðild yrði, þá mundu tollar verða að lækka allverulega og þá kæmi til þess, að ríkissjóður þyrfti að innheimta sínar tekjur með öðrum hætti. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki dregið dul á það, að hún mundi velja þá leið, um leið og tollar yrðu lækkaðir, að hækka söluskattinn. Þetta hefur því legið fyrir í langan tíma og ég býst við því, að það hafi í rauninni engum manni komið á óvart að till. sem þessi yrði lögð fram sem fylgi till. með till. um aðild Íslands að EFTA.

En því er auðvitað ekki að neita, að í því frv. um hækkun á söluskatti, sem hér liggur nú fyrir til umr., er gert ráð fyrir meiri innheimtu í ríkissjóð en nemur tollalækkuninni, sem leiðir af EFTA–skuldbindingunni. Hér er greinilega um það að ræða, að stefnt er að því, að ríkissjóður fái um 300 millj. kr. í aukatekjur, umfram það sem verið hefur. Hér er sem sagt á ferðinni till. um nýjar álögur. Það er að vísu sagt, þegar gerð er grein fyrir þessum auknu álögum, að ríkissjóður þurfi á þessu fjármagni að halda, það þurfi að greiða hækkaðar tryggingabætur og það þurfi að standa undir ýmsum auknum útgjöldum, þess vegna þurfi nú að leggja á þessar nýju álögur. En ég verð að segja, að mér þykir það í sjálfu sér furðulegt, að það skuli þurfa að koma fram frv. hér á Alþ. um nýjar álögur, þ.e. hækkaða tekjustofna til ríkisins, eftir þær stórfelldu breytingar, sem gengið hafa yfir á síðustu tveimur árum, í sambandi við gengislækkanir, en þær hafa eins og allir vita raunverulega stóraukið tekjumöguleika ríkissjóðs. Gengislækkanirnar hafa að sjálfsögðu leitt til þess, að tolltekjur ríkissjóðs hafa raunverulega stór aukizt. Og afleiðingar gengislækkananna hafa líka að sjálfsögðu orðið þær, að söluskatturinn hefur í reyndinni hækkað, vegna þess að verðlag allt í landinu hefur hækkað sem afleiðing af gengislækkununum. En þrátt fyrir þessa aðstöðubreytingu hjá ríkissjóði hvað snertir tekjuöflun, þá er enn á ný talið óhjákvæmilegt að auka álögurnar, hækka söluskattinn umfram það, sem tollar koma til með að lækka og því borið við, að ríkissjóður þurfi á þessu að halda.

Ég fyrir mitt leyti er andvígur því, að slíkar álögur séu samþ. nú. Ég tel ekki vera aðstæður til þess í okkar efnahagskerfi að halda þannig á málum. En auk þess erum við Alþb.–menn svo á móti þeirri stefnu, sem fram kemur í þessu frv. og þeim till., sem ríkisstj. nú gerir varðandi EFTA–málið sem heild, þegar að því er stefnt að lækka tolltekjur ríkissjóðs og innheimta í staðinn söluskatt með þeim hætti, sem söluskattur hefur verið á lagður og innheimtur hér að undanförnu. Það er skoðun okkar, að hér sé einmitt um það að ræða, sem hæstv. fjmrh. var að reyna að bera á móti, að verið sé að færa til skattinnheimtuna, þeim tekjuhærri í þjóðfélaginu í vil, en þeim tekjulægri í óhag. Það er auðvitað enginn vafi á því, að þegar ráðstafanir eru gerðar til þess að lækka nokkuð tolla á t.d. innfluttum húsgögnum eða jafnvel á ýmsum tilbúnum fatnaði, sem hæstv. ráðh. nefndi hér, þá kemur það auðvitað á allt annan hátt við tekjulágt fólk, en þegar á sama tíma verður verðhækkun á svo til allri matvöru, þegar fiskur hækkar, þegar kartöflur hækka og ýmiss konar mjólkurvörur, brauð og kornvörur og yfirleitt hvers konar matvörur, nema nýmjólk, kjöt og smjör, sem verður undanþegið. Á því leikur auðvitað enginn vafi, að þegar þessar vörur eiga að hækka í verði á sama tíma og ýmsar þær vörur, sem hafa hingað til verið hátollaðar, lækka nokkuð í verði, þá er hér um breyt. til óhagræðis fyrir láglaunafólk að ræða.

Eins og fram kom hér í ræðu hæstv. fjmrh., þá hefur sú ákvörðun verið tekin nú, að þetta mál muni ekki verða knúið í gegnum þingið á þessum fáu starfsdögum, sem eftir eru fyrir jól, það verður tekið hér til afgreiðslu þegar þing kemur saman að afloknu jólafríi, í janúarmánuði og þá er eðlilegt, að unnið sé að athugun á þessu frv., samhliða athugun á tollalagafrv. Ég sé því ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að ræða þetta ítarlega núna. Málið fer til n. Það verður athugað og án efa eiga eftir að koma fram margar brtt., bæði við þetta frv. og eins við tollabreytingafrv. Ég skal því ekki halda hér uppi löngum umr. um málið að þessu sinni. En ég endurtek mína fyrri yfirlýsingu um það, að við Alþb.–menn erum á móti þessari söluskattshækkun, bæði að því leyti, að hér er um að ræða alveg nýjar álögur og eins að því leyti til, að hér er um að ræða þá stefnubreytingu að ætla að færa skattheimtu ríkisins frá tolltekjum og yfir í almennan söluskatt. Við gerum okkur fulla grein fyrir því, að þessi frv. standa í beinum tengslum við ákvörðunina um EFTA–aðild. Þetta eru fylgifiskar þess máls. Við erum á móti EFTA–aðild, m.a. af þeim ástæðum, að þessum málum á að koma fyrir á þessa lund, svo að afstaða okkar í þessum efnum liggur alveg ljós fyrir. En eigi að síður getur auðvitað komið til þess, að við eigum eftir að flytja hér brtt. við málið.