27.11.1969
Neðri deild: 19. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (2646)

100. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Flm. (Stefán Valgeirsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. á þskj. 118 ásamt hv. 5. þm. Austf., hv. 2. þm. Sunnl., hv. 5. þm. Norðurl. v. og hv. 1. þm. Vestf. um breyt. á l. nr. 89 frá 17. des. 1966, um Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Þessi sjóður var myndaður til þess að leysa dellu, sem myndaðist út af hinu svo kallaða innvigtunargjaldi. Mætti því segja langa sögu og á margan hátt lærdómsríka fyrir bændastéttina, hvaða ástæður lágu til þessarar sjóðsstofnunar og hvernig það bar að. En þar sem slík saga heyrir frekar til sagnfræði en þessu frv., fer ég ekki út í þá sálma nú. 1. gr. Framleiðnisjóðslaganna er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Stofna skal sjóð, er nefnist Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Hlutverk sjóðsins skal vera að veita styrki og lán til framleiðsluaukningar og hagræðingar í landbúnaði og atvinnurekstrar á bújörðum. Má jöfnum höndum styrkja rannsóknir og framkvæmdir, er miða að lækkun framleiðslu- og dreifingarkostnaðar, svo og framkvæmdir, er stefna að því að samræma landbúnaðarframleiðsluna þörfum þjóðfélagsins miðað við markaðsaðstæður innanlands og utan á hverjum tíma. Lán og styrki úr sjóðnum má m. a. veita til einstakra bænda, vinnslustöðva, ræktunarsambanda og vísindastofnana. Við styrkveitingar til einstakra bænda skal að öðru jöfnu taka tillit til efnahags þeirra.“

Við þessa gr. leggjum við til, að komi nýr málsl. á eftir 3. málsl., svo hljóðandi:

„Þó skulu tilraunir um innlenda fóðuröflun og heyverkun sitja fyrir öðrum verkefnum um fyrirgreiðslu.“

Í öðru lagi leggjum við til, að 4. gr. l. orðist svo:

„Framlag ríkissjóðs til Framleiðnisjóðs skal ákveðið í fjárl. hverju sinni. Þó skal framlagið aldrei nema lægri upphæð en 20 millj. kr. á ári. Leita skal umsagnar Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands um, hvaða verkefni séu brýnust hverju sinni, og álitsgerðir þeirra skulu jafnan liggja fyrir, þegar fjvn. gerir till. sínar til Alþ. um framlag til sjóðsins.“

Framleiðnisjóður landbúnaðarins var stofnaður samkv. l. í desember 1966. Stofnframlag ríkissjóðs var 50 millj. kr., sem skyldi greiðast á fjórum árum, í fyrsta sinni 1966, 20 millj. kr., en síðan 10 millj. kr. á ári næstu þrjú árin. Fyrsta greiðslan fór til þess að greiða upp í þann halla, sem varð á útflutningssjóði 1966. Stofnfé sjóðsins var því raunverulega aldrei nema 30 millj. kr. Miðað við það verkefni, sem sjóðnum er ætlað l. samkv., ná þessir fjármunir skammt til að styðja aðkallandi verkefni, ekki sízt nú, þegar framkvæmdamáttur hverrar krónu hefur minnkað fast að helmingi, síðan l. um Framleiðnisjóð voru sett. En þar sem framlag ríkissjóðs til sjóðsins fellur niður á næsta ári að óbreyttum Framleiðnisjóðslögunum, þá er það mikið nauðsynjamál, að frv. þetta nái fullnaðarafgreiðslu sem allra fyrst og fjárveiting til hans verði ákveðin, áður en fjárlög verða afgr. nú fyrir næsta ár.

Á fjórðungsþingi Norðlendinga, sem haldið var á Sauðárkróki 22. og 23. október, var eftirfarandi samþykkt gerð, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórðungsþing Norðlendinga, haldið á Sauðárkróki 22. og 23. október 1969, skorar á Alþ. og ríkisstj. að breyta l. um Framleiðnisjóð landbúnaðarins þannig, að ákvæðið um 10 millj. kr. framlag það, sem ríkissjóður hefur lagt Framleiðnisjóðnum undanfarið, verði látið gilda áfram.“

Þessi samþykkt gefur ótvírætt til kynna, hvernig fulltrúar sveitarfélaganna á Norðurlandi líta á þetta mál, en það var Bjarni Halldórsson, bóndi á Uppsölum, sem hafði frumkvæðið í þessu máli á fjórðungsþinginu. En á hitt bera að líta, að fjórðungsþing Norðlendinga ræddi þetta framlag til sjóðsins út frá því sjónarmiði fyrst og fremst, hve aðkallandi væri að endurbyggja sláturhúsin í landinu og hvert hlutverk Framleiðnisjóðs væri til að styðja við það verkefni. Hitt var þá ekki tekið með í reikninginn, sem er meginatriði þessa frv., sem hér er til umr., að tilraunir um innlenda fóðuröflun og verkun þess yrði aðalverkefni sjóðsins fyrst um sinn eða þar til þær rannsóknir leiddu til viðunandi niðurstöðu.

Engum ætti að vera það lengur dulið, hve aðkallandi þetta mál er eftir þetta liðna sumar. Það kom glöggt fram, hve bændur eru vanbúnir að mæta slíku veðurfari, sem var um mestan hluta landsins í sumar. Því er það mjög brýnt nú, að kanna allar tiltækar leiðir til að koma í veg fyrir, að slíkt geti endurtekið sig. Það er ekki mál bændanna einna, eins og sumir telja, hvernig til tekst með öflun fóðurs handa búpeningi landsmanna og hvernig gæði fóðursins er. Gæði afurðanna eru mest undir því komin, hvernig fóðrið er, og enginn vafi leikur á því, að það hefur veruleg áhrif á heilsufar þjóðarinnar, að þessi þáttur framleiðslunnar, fóðuröflunin, sé í fullkomnu lagi. Af þessu leiðir, að það er mjög aðkallandi fyrir þjóðarheildina og varðar hana miklu, að nú þegar fari fram viðtæk könnun á því, hvernig hægt sé að koma í veg fyrir eða a. m. k. draga verulega úr slíkum áföllum, sem þjóðin varð fyrir í sumar af völdum votviðrisins. Það þarf að fara fram rannsókn á því, hve vatnsmikil hey má taka í súgþurrkun og við hvaða skilyrði. Ýmislegt bendir til þess, að bændur kunni ekki sem skyldi að notfæra sér þessa heyverkunaraðferð, eins og hægt væri í svipuðu tíðarfari og var s. l. sumar, og þetta þarf að athuga sem bezt.

Það er mjög eftirtektarvert, hvað mönnum gengur misjafnlega að heyja, mönnum, sem virðast búa við svipuð skilyrði. Ég er þeirrar skoðunar, að það skorti fræðslu í þessu efni. En umfram allt þurfa rannsóknir að fara fram um þetta efni, og væri eðlilegast, að þær færu fram m. a. á bændaskólunum og á tilraunabúum og þá á þeim stöðum, sem hentugt er að koma við fóðurtilraunum, og að fyrirsögn og undir eftirliti kunnáttumanna á þessu sviði. Fræðsla um þetta efni þarf að fara fram jafnhliða rannsóknum, og jafnvel þarf að skoða súgþurrkunarkerfið og allan umbúnað því samfara og gefa leiðbeiningar um úrbætur, þar sem þeirra er þörf. Ennfremur þarf að rannsaka votheysgerð á sama hátt, hve vatnsmikil hey megi hirða til votheysgerðar, hvaða geymslur mundu reynast ódýrastar og hentugastar miðað við endingu, um tæknibúnað í sambandi við votheysgerð o. s. frv.

Í þriðja lagi þarf að fá til landsins hraðþurrkunartæki og gera rannsóknir á þeirri heyverkunaraðferð. Allvíða erlendis hafa þessi tæki verið reynd síðustu árin, og binda ýmsir miklar vonir við hraðþurrkun. Þó er stofnkostnaður afar mikill og einnig rekstrarkostnaður. Á hitt ber að líta, að heyið tapar mjög litlu fóðurgildi við þessa verkun. Á s. l. sumri fór a. m. k. einn Eyfirðingur til Danmerkur til að kynnast því af eigin raun, hvernig þessi tæki eru, sem þar eru notuð til að hraðþurrka hey. Hann sá a. m. k. þrjár mismunandi gerðir í notkun, og taldi hann, að margt benti til þess, að þau mundu henta við okkar aðstæður. Hins vegar er hér um nýja tækni að ræða, sem er allflókin, og virtist honum, að þessar vélar, a. m. k. sumar þeirra, væru ekki komnar af tilraunastigi. Þessi Eyfirðingur er mjög bjartsýnn í þessum efnum og telur, að þarna sé fundin hin rétta leið í heyverkunarmálum okkar. Um það vil ég engu spá. Hitt hljóta allir að sjá, að það verður að reyna allar tiltækar leiðir í þessu efni, og reynslan ein sker úr um, hvað hentar okkur bezt, þegar allir þættir málsins hafa verið skoðaðir og þeir bornir saman. Það þarf að bera saman kostnað og gæði fóðursins með öllum þessum heyverkunaraðferðum og leita eftir auðveldum leiðum til að miðla bændunum af þeirri reynslu, sem af þessum rannsóknum fæst, jafnóðum og niðurstöður liggja fyrir. Það væri fráleitt með öllu að flytja inn þessar hraðþurrkunarvélar til sölu hér, nema þær verði reyndar áður undir góðu eftirliti, þannig að bændur renndu ekki blint í sjóinn í þessu efni, eins og allt of oft hefur átt sér stað í sambandi við vélakaup og tæknibúnað.

Vegna kalskemmda víða um land að undanförnu þarf að gera tilraunir með ræktun einærra jurta og ræktun á ýmiss konar grænfóðri, og samanburðarrannsóknir á því þurfa að koma til, hvaða verkunaraðferðir koma til greina og henta bezt, sé þetta fóður notað, miðað við fóðurgildi og breytileg ytri skilyrði.

Áföllin, sem landbúnaðurinn hefur orðið fyrir síðustu árin, ættu að hafa aukið skilning almennings á því, að nú þurfi að bregða við og leita eftir úrræðum til að koma í veg fyrir slík áföll, eftir því sem hægt er. Það verður ekki gert nema með viðtækum rannsóknum, sem kosta mikið fjármagn. En til að tryggja það, að þær rannsóknir, sem ráðizt verður í, séu gerðar á skipulegan hátt og það fjármagn, sem til þeirra er varið, nýtist sem bezt, er ekki sýnileg heppilegri leið en að Framleiðnisjóður inni þetta hlutverk af hendi, enda er það í samræmi við hlutverk sjóðsins, miðað við 1. gr. Framleiðnisjóðslaganna.

Annað mjög brýnt verkefni, sem Framleiðnisjóðurinn þarf að styðja, er endurbygging og lagfæring sláturhúsanna. Þar stefnir í algert óefni, ef ekki verður að gert hið bráðasta. Það eru mjög fá sláturhús til, sem uppfylla þær kröfur, sem erlendir aðilar gera til slíkra húsa, svo að það hangir alltaf yfir höfði okkar, að útflutningurinn verði stöðvaður frá öllum þessum sláturhúsum, sem ekki standast tilskildar kröfur.

Það kann að vera, að sumir af þessum svokölluðu leiðandi mönnum þjóðarinnar segi nú, að þetta skipti engu máli, því að við eigum ekki að vera að framleiða kjöt fyrir erlendan markað, enda er það í samræmi við málflutning þeirra og sumra blaða sömu aðila að undanförnu. Á hinn bóginn hafa þessir sömu menn bent á það, að við þurfum að byggja upp útflutningsiðnað. Framtíð þjóðarinnar byggist fyrst og fremst á því. Og séu þeir spurðir að því, hvers konar iðnaður kæmi helzt til greina fyrir okkur, þá benda þeir á ullar- og skinnaiðnaðinn og telja, að á því sviði höfum við töluverða reynslu og búum yfir þekkingu, sem við höfum ekki á öðrum sviðum iðnaðar, til þess að geta keppt við aðrar þjóðir á erlendum mörkuðum. Og þeir hafa bent á það, að við eigum auðvelt með að auka ullar- og skinnaframleiðsluna til þess að skapa iðnaðinum nægt hráefni. Á hinn bóginn leggja þessir sömu menn áherzlu á, að það sé ekkert vit í að framleiða kjöt fyrir erlendan markað, og því þurfi mjög að draga úr þessari framleiðslu. Þannig er allur þessi málflutningur. Það kann að vera, að sumum henti hann vel og þeir geti komið með hagfræðilegar skýringar á honum.

En þó að hin nýja stefna í atvinnuuppbyggingunni sé að auka mjög á framleiðslu á ull og gærum, en hins vegar að draga úr framleiðslu á kjöti og miða hana við heimamarkaðinn eingöngu, þá verður ekki hjá því komizt að koma sláturhúsunum í það horf, að þau standist kröfur til útflutnings, því að ekki verður til lengdar hægt að bjóða innlendum neytendum það, að að staða í sláturhúsunum standist ekki kröfur er lendra aðila út frá heilbrigðissjónarmiði. Ég veit ekki til, að neitt stórgripasláturhús sé til í landinu, sem stenzt þessar kröfur. Að vísu munu vera í Borgarnesi og á Hellu stórgripasláturhús, sem ekki eru notuð til annarrar slátrunar en á stórgripum. En mér er tjáð, að það sé langt frá því, að þessi hús séu þannig búin, að þau standist þær kröfur, sem til slíkra húsa eru gerðar. a. m. k. af erlendum aðilum. Það er verið að byggja nú á Akureyri fyrsta stórgripasláturhúsið, sem er miðað við nútímakröfur, og geta hv. alþm. séð á þessu, hvernig ástandið er í þessu efni. Það kann að vera, að hægt sé að nota mörg af þessum sláturhúsum, væri þeim breytt að verulegu leyti, sérstaklega aðstöðu dýralækna til að koma við fullkomnu eftirliti, um leið og slátrunin fer fram. Þetta er mikið og aðkallandi verkefni, sem ekki verður hægt að víkja sér undan að leysa alveg á næstunni.

Margt fleira mætti nefna, sem er þess eðlis, að Framleiðnisjóður ætti að veita sinn stuðning, væri hann þess megnugur. En þar sem þau viðfangsefni, sem hér hefur verið fjallað um, eru stór og aðkallandi og ekki líklegt, að öðru verði hægt að sinni að neinu ráði á næstunni, er ekki ástæða til þess að ræða um fleiri að sinni. Mér er ljóst, að það fjármagn, sem sjóðurinn hefur yfir að ráða, er allt of naumt, þó að sú fjárveiting yrði samþ. til sjóðsins, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu. En með tilliti til greiðslugetu ríkissjóðs nú, þótti ekki vænlegt til árangurs að gera till. nú um hærri upphæð, enda auðvelt að hækka hana, ef fært þykir í meðförum Alþ. á málinu.

Herra forseti. Ég leyfi mér að óska þess, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.